Frá 21. nóvember hafa mörg hundruð konur stigið fram og greint frá áreiti, áreitni, ofbeldi, niðurlægingu og kvenfyrirlitningu sem þær hafa orðið fyrir.
Stjórnmálakonur riðu á vaðið og í kjölfar þeirra fylgdi hver geirinn á fætur öðrum. Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð. Konur í tæknigeiranum. Í tónlist. Íþróttum. Konur sem starfa innan réttarvörslukerfisins og vísindasamfélagsins.
Enn er von á fleirum. Konur sem starfa í heilbrigðiskerfinu, við kennslu og í fjölmiðlum hafa allar boðað að þær ætli að stíga fram með sínar sögur.
Umfangið er ótrúlegt. Það virðist varla vera kimi íslensks samfélags sem er ekki fullur af konum sem hafa verið niðurlægðar, haldið niðri eða beittar ofbeldi. Og körlum sem annað hvort eru gerendur í slíku eða eru of meðvirkir til að gera nokkuð í því.
Alheimsbylting
Sögurnar sem hafa verið opinberaðar eru hræðilegar. Og lýsa karllægri menningu drekkhlaðinni af kynbundinni aflbeitingu. Menningu sem er til þess fallin að festa í sessi yfirburðastöðu karla þrátt fyrir aukna fyrirferð kvenna. Menning sem hefur meira að segja leitt þolendur til dauða. Menning þar sem skelfilegt ofbeldi fær að þrífast og er látið óáreitt. Menning sem valdeflir karla en heldur niðri konum. Menning sem byggir á þeirri fyrirframgefnu stöðu að karlar séu daðurgjarnir flagarar en konur ódýrar druslur.
#Metoo-byltingin er alheimsbylting. Í Bandaríkjunum hefur hún haft gífurleg áhrif og afleiðingar. Hún hefur galopnað þá sorptunnu sem bandaríski afþreyingariðnaðurinn er og þá ævintýralegu meðvirkni sem ríkti gagnvart rándýrum eins og Harvey Weinstein. Mönnum sem nýttu sér stöðu sína til að níðast á konum og körlum. Í tilfelli Weinstein bjó hann til sinn eigin ýkta og ömurlega kima innan kvenhatandi menningar Hollywood. Öll hans tilvera virðist hafa snúist um að níðast á öðrum.
Weinstein fékk aðra stjórnendur fyrirtækis síns til að fela slóð sína. Fjölmarga lögfræðinga til að semja við fórnarlömb. Nýtti sambönd í fjölmiðlum til að ekki kæmist upp um hann og gerði jafnvel samninga við fjölmiðlamenn um að skrifa ævisögur stjarna þegar þeir ætluðu að fjalla um hegðun hans. Innan fyrirtækis hans, Weinstein Company, var til sértök handbók, kölluð „biblían“, sem innihélt leiðbeiningar um hvernig ætti að takast á við ýmsar aðstæður sem snertu Weinstein. Á meðal þeirra aðstæðna var hvernig takast ætti á við símtöl frá eiginkonu hans þegar Weinstein var sjálfur fjarverandi við iðju sem hún mátti ekki vita af.
Aðstoðarmenn hans hafa sagt frá því að þeir hafi þurft að kaupa lyf til að hjálpa Weinstein að fá holdris. Lyf sem sprautað var beint í getnaðarlim hans. Á sama tíma og þessir aðstoðarmenn þurftu að kaupa Caverject og Alprostadil þá sáu þær um að bóka fundi fyrir Weinstein með hinum ýmsu konum. Konum sem hann misbeitti valdi sínu gagnvart í kjölfarið. Það vissu allir í kringum Weinstein hvað hann var að gera. Það gerði bara enginn neitt í því áratugum saman.
Byltingin hefur líka haft afdrifarík áhrif á bandarísk stjórnmál. John Conyers, sem setið hefur í fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá 1964, sagði af sér embætti eftir að fyrrverandi starfsmenn hans ásökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi. Í gær tilkynnti svo Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrata, að hann myndi segja af sér embætti líka vegna sambærilegra ásakana.
Konur í fyrsta sæti, rándýr rétt á eftir þeim
Tímaritið Time valdi í vikunni konurnar sem greindu frá reynslu sinni og rufu þagnarmúrinn sem persónu ársins. Í öðru sæti, rétt á eftir konunum sem bera ábyrgð á menningarbyltingu, var Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Maður sem hefur sjálfur ítrekað lítillækkað og ráðist gegn konum. Það er meira að segja til upptaka af Trump þar sem hann montar sig af því að kyssa, káfa á og reyna að sænga hjá konum, og sagði meðal annars að þegar menn væru frægir eins og hann kæmust þeir upp með það. Hann talaði um að hann laðist sjálfkrafa að fallegum konum og byrji bara að kyssa þær. „Og þegar þú ert stjarna, þá leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er...gripið í píkuna á þeim. Þú getur gert hvað sem er.“
Á meðan #Metoo-byltingin fer yfir heiminn hefur Trump ákveðið að styðja Roy Moore, sem sækist eftir því að verða kjörinn öldungadeildarþingmaður Alabama í næstu viku. Moore hefur verið ásakaður um að hafa brotið gegn fjölmörgum stúlkum og konum fyrir nokkrum áratugum síðan. Ein þeirra sem segir að Moore hafi ráðist á sig var 14 ára þegar atburðurinn átti sér stað. Hinar eru á aldrinum 16 til 28 ára.
Það er eitthvað mjög lýsandi fyrir þá brenglun sem á sér stað í heiminum að konur sem stíga fram séu valdar persónur ársins, og kvenhatandi kynferðislegt rándýr sé sett í annað sætið. Hann er rétt á eftir þeim.
Allra að opinbera
Fyrir sex árum skrifaði ég pistil um litla karla. Þeim var þar m.a. lýst svona: „Litlu karlarnir eru þeir sem vilja halda öðrum niðri til að staðfesta, og múra fasta, eigin stöðu í samfélaginu. Þeir umbera illa skoðanir sem eru ekki eins og þeirra, frumkvæði sem er ekki frá þeim komið og metnað sem skilar þeim ekki persónulega áfram í lífinu.
Í hugum litlu karlanna eru aðrir sem eru efnilegir ógn við þeirra tilveru, ekki eftirsóknarverð viðbót við flóruna. Þessa aðra verður helst að kæfa í fæðingu, eða allavega halda kyrfilega niðri. Heildarhagsmunir verða alltaf að víkja fyrir sérhagsmunum. Annars gæti komist upp um litlu karlanna. Það gæti einhver uppgötvað að þrátt fyrir glansandi fægt yfirborðið þá er gumsið innan í þeim rýrt.“
Tilefnið var annað en lýsingin á ekki síður við þá gerendur sem við stöndum nú frammi fyrir. Þeir sem nota vald til að níðast á öðrum, hvort sem um sé að ræða karlar eða konur, hvort sem það er kynferðislegs eðlis eða annars konar, eru lítið annað en hræddir litlir karlar sem óttast að það komist upp um þá. Að aðrir, sérstaklega konur, séu mögulega hæfari og betur til þess fallnar að fara með valdið sem þeir misnota. Þessa karla er að finna í öllum kimum samfélagsins, líkt og hugaðar opinberanir kvenna undanfarnar vikur hafa sýnt.
Það þarf algjöra viðhorfs- og ábyrgðarbreytingu til að #Metoo-byltingin hafi nauðsynleg áhrif. Þess vegna er hún menningarbylting og hún krefst þess af körlum fyrst og síðast að takast á við óþægileg hlutverk þeirra í að viðhalda því ástandi sem hún sprettur upp úr. Gerendurnir eru bara lítill hluti af þeim sem skapa það ástand. Við hinir sem erum meðvirkir og látum óásættanlega hegðun viðgangast vegna þess að það er of óþægilegt að takast á við hana erum ekki síður hluti af vandamálinu. Réttur karla til að haga sér eins og þeim sýnist er nefnilega ekki sterkari en réttur kvenna til að halda sjálfsvirðingu og lifa sínu lífi án niðurlægingar, ofbeldis eða smættunar.
Það er okkar allra að opinbera þá sem þannig láta. Og eyða þessari menningu sem á engan rétt á sér.