Jæja, þá er komin stjórn uppi á Íslandi en hér í Berlín er enn verið að reyna og horfurnar ekkert sérstakar. Það helsta sem hefur gerst er að Frank-Walter Steinmeier forseti hefur fyrir alvöru gripið inn í stjórnarmyndunina og dregið flokksfélaga sína að samningaborðinu. Já, þetta hljómar undarlega í íslensku samhengi, en hér í landi er forsetinn ekki kosinn af þjóðinni heldur á þingi og af því að Angela Merkel hafði ekki haft sinnu á að ala upp nýjan forseta þegar síðast var skipað í embættið hreppti flokkur jafnaðarmanna, SPD, hnossið.
Undanfarnar þrjár vikur hafa því farið í það að tala Martin Schulz ofan af þeim afdráttarlausu yfirlýsingum sem hann gaf út eftir að úrslit þingkosninganna lágu fyrir og þar með tap flokksins. Hann lýsti því einarðlega yfir að flokkur hans myndi nú taka sér hlé frá stjórnarstörfum, sleikja sárin og endurheimta sjálfsmynd sína í einrúmi. Hann bætti því við að hann hefði engan áhuga á að starfa lengur undir forystu Merkel. Það leit því allt út fyrir að draga yrði kjósendur að kjörborðinu á ný. Það leist forseta sambandsríkisins ekkert á svo hann fundaði með öllum flokkunum (að jaðarflokkunum Linke og AfD frátöldum, merkilegt nokk) og lagði hart að flokksfélögum sínum að vera með í leiknum.
Schulz rekinn út úr hýðinu
Schulz þráaðist lengi við en í síðustu viku féllst hann á að opna á viðræður, ekki einungis um Große Koalition, stóra flokkabandalagið með kristilegum, heldur almennar viðræður um þá möguleika sem fyrir hendi eru. En fyrst vildi hann ræða málið á fundi SPD sem haldinn yrði í Berlín í þessari viku. Sá fundur stendur enn en í gærkvöldi fékk Schulz þó svar við þeim spurningum sem hann hafði lagt fyrir fundinn. Ungliðadeild flokksins lagði fram tillögu þar sem möguleikanum á GroKo var hafnað en sú tillaga var felld og að því loknu var Schulz endurkjörin leiðtogi flokksins með 82% atkvæða.
Á mánudag munu því væntanlega hefjast nýjar stjórnarmyndunarviðræður með þátttöku kristilegu flokkanna, CDU og CSU, jafnaðarmanna og hugsanlega Græningja og Frjálslyndra, FDP. Í raun eru þrír stjórnarmöguleikar til umræðu: GroKo, minnihlutastjórn kristilegu flokkanna og úrslitatilraun til að endurvekja Jamaíku sem Frjálslyndir höfnuðu á dögunum. Líklegast þykir þó á þessari stundu að GroKo verði ofan á, eða það sem Der Spiegel kallar „Stjórn taparanna“ Merkel og Schulz.
Jafnaðarmenn ætla þó ekki að taka upp óbreytta stefnu stjórnarinnar sem enn er við völd sem starfsstjórn. Schulz og fleiri forystumenn segja að engin sjálfvirkni ráði ferðinni og hafa sett fram ýmsar kröfur um breytta stefnu. Meðal þess er krafa um að þróun í átt til einkavæðingar sjúkratrygginga sem hér hefur verið í gangi verði stöðvuð og eitt ríkisrekið kerfi endurvakið. Fundur SPD gerði forystunni að mæta eftir viku með framvinduskýrslu og mat á horfum, en allir virðast sammála um að ný stjórn verði ekki komin til valda fyrr en á næsta ári.
Síðustu leifar lénsveldisins
Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að þau jól sem nú eru í uppsiglingu verða undir merkjum starfsstjórnar sem reynir að rugga ekki bátnum um of. Á því eru þó undantekningar eins og þegar landbúnaðarráðherrann úr flokki hinna kristilegu Bæjara, Christian Schmidt, skrapp á fund kollega sinna í Brussel og tók þátt í atkvæðagreiðslu um framlengingu á leyfi til notkunar á umdeildu skordýraeitri, glýfosat, sem notað er til að verja nytjaplöntur. Þetta efni hefur verið á dagskrá þýsku stjórnarinnar en ekkert samkomulag var um hvort það bæri að leyfa áfram.
Þetta minnti dálítið á deilurnar um hvalveiðar á Íslandi þar sem afskipti starfsstjórna hafa í raun haft afgerandi áhrif á þróun mála, nú síðast rétt áður en stjórn Katrínar Jakobsdóttur settist að völdum. En ólíkt því sem gerist á Íslandi ráku aðrir ráðherrar stjórnarinnar upp ramakvein og Merkel ávítaði landbúnaðarráðherrann. Hann þurfti þó ekki að segja af sér og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar stendur, en atkvæði Þjóðverja var það sem til þurfti að tryggja þessu umdeilda eiturefni fimm ára framhaldslíf á ökrum Evrópu.
Þetta mál ásamt fleirum hefur hins vegar vakið upp talsverðar umræður um það hvers konar flokkur CSU í Bæjarlandi er. Dálkahöfundur Tagesspiegel hélt því fram að þessi sérkennilegi flokkur væri síðasta virki lénsveldisins í þýskri nútímasögu. Í honum hefur um langt skeið ríkt eindregið foringjaveldi, að ekki sé sagt dýrkun, og oft vitnað til hins áhrifamikla íhaldsmanns Franz Josef Strauss sem stýrði þessum flokki um langt árabil á dögum kalda stríðsins. Nú er formaðurinn, Horst Seehofer, hins vegar verulega laskaður eftir fylgistap í kosningum. Um skeið virtust keppinautar um formannssætið að honum gengnum fara sínu fram, en nú er búið að útnefna arftakann sem verður væntanlega hylltur áður en kosið verður í Bæjarlandi næsta haust. Þessar hræringar í flokknum hafa þó eflaust gert stjórnarmyndunarviðræður snúnari en ella og gætu áfram haft áhrif á þær.
Þýsku jólabörnin í essinu sínu
En hvað sem þessum hræringum líður þá taka Þjóðverjar fagnandi á móti jólunum og skreyta hús og götur af miklum metnaði og listfengi. Verslunargatan Kurfürstendamm er upplýst alla þrjá kílómetrana og þar getur að líta ljósaskúlptúra af jólasveinum, ýmist gangandi eða í hreindýravögnum, jólatrjám, snjóköllum (þótt enn hafi ekki fallið snjókorn til jarðar) og öðrum boðberum jólanna.
Austast við þá götu er jólamarkaðurinn sem í fyrra varð fyrir hryðjuverkaárás þegar ógæfumaður rændi stórum flutningabíl og ók inn á markaðinn með þeim afleiðingum að sjö manns létust og fjöldi slasaðist. Nú er sá markaður opinn daglega og fólk kemur þangað til að skoða jóladót og bragða á jólaglöggi eða heitu kakói og ýmsu bakkelsi sem tengist jólum. Þjóðverjar eru mikil jólabörn og hér eru jólamarkaðir um borg og bý, flestir öllu merkilegri en þessi sem innfæddum þykir heldur túristalegur.
Spurningin er þó hvort stjórnmálamennirnir komast í jólaskap og taka sér gott frí frá stjórnarmyndunarviðræðum. Við sjáum hvað setur.