Fyndið ofbeldi í úlpu

Jón Gnarr skrifar um þá meinsemd sem ofbeldi á Íslandi sé og segir að baráttan gegn því hætti ekki fyrr en að ofbeldið sjálft hætti alveg.

Auglýsing

Eins og flestir aðrir þá hef ég fylgst með þeim fjölda kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá þeim órétti og áreitni sem þær hafa orðið fyrir undir myllu­merk­inu #metoo. Eins og mér finnst ömur­legt að heyra þessar átak­an­legu sögur þá finnst mér líka svo gott að þetta sé að koma upp á yfir­borðið og vona að þetta verði til að eyða þöggun og efla umræðu um þetta hlut­skipti margra kvenna að verða fórn­ar­lömb karla sem þær vinna með eða þurfa að umgang­ast á ein­hvern hátt.

Virð­ing til allra þeirra sem hafa stigið fram og sagt sína sögu. Mest af öllu von­ast ég til að afger­andi breyt­ing verði á þessu og sam­fé­lag okkar fær­ist þá hrein­lega upp um nokkur sið­menn­ing­ar­stig og í fram­tíð­inni verði það að klappa konu á rassinn, pota í brjóstin á henni eða segja eitt­hvað aulagrín um kven­leika hennar eða lík­ams­vöxt álitin álíka kjána­leg hegðun og að taka út á sér typpið á almanna­færi og prumpa hátt, hvorki fyndið né sér­stak­lega ögrandi heldur fyrst og fremst vand­ræða­legt fyrir þann sem gerir það.

Í góðu gríni!

Ég get vel skilið að mörgum kyn­bræðrum mínum finn­ist þetta óþægi­leg umræða. Margir þurfa að end­ur­skoða allan orða­forða sinn, fram­komu sem þeir hafa til­einkað sér og ekki síst húmor­inn. Grín á kostnað kvenna hefur verið drjúgur hluti af skop­skyni og félags­lífi margra karl­manna.

Auglýsing

Ég veit ekki hvað ég hef verið á mörgum árs­há­tíðum og karla­kvöldum þar sem svo­kall­aðir klám­brand­arar hafa verið sagð­ir. Þeir eru nátt­úr­lega ekki allir eins. Það eru alveg til klám­brand­arar sem eru ágætir brand­ar­ar, þar sem gert er grín að kyn­lífi. En þeir eru þó fleiri sem eru ekk­ert snið­ugir heldur hafa það aðal­lega að mark­miði að gera lítið úr konum og lík­ama þeirra og líf­fær­um. Mig grunar að þeirra sé aðal­lega notið af mönnum sem eru óör­uggir gagn­vart konum eða hrein­lega hræddir við þær.

Það er nú oft þannig að við gerum grín að því sem við ekki skiljum eða ótt­um­st, gerum lítið úr því og reynum með því að yfir­stíga ótta okk­ar. Þessir brand­arar minna mig á homma­brand­ar­ana sem ég heyrði svo oft í æsku og þóttu sjálf­sagðir en heyr­ast ekki leng­ur. Sem ég held að sé ein­fald­lega vegna þess að fólk, og þá aðal­lega karl­menn, er ekki eins hrætt við homma og það var hér áður. Stórir og krafta­legir menn fóru alveg í hnút ef þá grun­aði að hommi væri að horfa á þá og muldr­uðu jafn­vel að ef við­kom­andi myndi segja eitt­hvað við þá eða snerta þá myndu þeir hik­laust kýla hann á kjaft­inn. En sömu mönnum fannst ekk­ert að því að stara blygð­un­ar­laust á ókunnar kon­ur, virða fyrir sér ákveðna lík­ams­parta þeirra og reyna að ná augn­sam­bandi við þær, hrósa þeim fyrir lík­ams­vöxt­inn og jafn­vel koma við þær án leyf­is.

Ég varð einu sinni vitni að því að maður kom aftan að vin­konu minni í þvögu við bar­borð og lagð­ist upp að henni, svo þétt að hún fann fyrir typp­inu á hon­um. Hún þekkti hann ekki neitt. Þegar hún benti honum á þetta og bað hann að hætta þessu þá brosti hann sínu breið­asta og fannst hann bæði flottur og snið­ug­ur. Ég er alveg viss um að ef annar karl­maður hefði gert það sama við hann hefðu við­brögðin orðið allt önn­ur.

Hvað með feita kall­inn?

Margir reyna nú að gera lítið úr þeim sögum sem fram hafa kom­ið, benda á að margar þess­ara frá­sagna segi ekki frá stór­vægi­legum málum og jafn­vel algjör­lega sak­lausum upp­á­komum og fæstar verði sann­aðar enda ger­end­urnir sjaldn­ast nafn­greind­ir, það sé rangt að gera það því með því liggi þar með allir karl­menn undir grun. Bar-sagan mín er ekk­ert sér­stak­lega átak­an­leg og vin­kona mín varð ekki fyrir miklu áfalli af þessu. Hún er líka bara vön svona upp­á­kom­um. Það sem er sorg­leg­ast og verst er að hún skuli lifa í sam­fé­lagi þar sem svona hegðun þykir eðli­leg.

Sumir vara við því að verið sé að geng­is­fella hug­tök um kyn­ferð­is­lega áreitni. Þetta er mjög svipað við­horf og skýtur upp koll­inum þegar umræða er um ein­elti. Einn pistla­höf­und­ur­inn jafnar þess­ari bylgju við fitu­for­dóma og gefur í skyn að for­dómar gegn konum séu ekk­ert meiri eða alvar­legri en það. Stað­reyndin er samt sú að því fleiri sem stíga fram og segja frá, hversu smá­vægi­legt sem það kann að þykja, eykur það lík­urnar á því að fleiri fái hug­rekki til að stíga fram. Bruna­lykt og reykur er vís­bend­ing um eld.

Það sem er algjör­lega ein­stakt við það ónæði og aðkast sem konur verða fyrir er að það skapar jarð­veg fyrir ofbeldi, byrjar á hug­mynd, verður að orðum og loks að verkn­aði. Sú vakn­ing sem er í gangi núna er ekki bara að ráð­ast að verkn­að­inum heldur og líka hugs­un­inni og orð­unum sem liggja að baki. Þetta er menn­ing­ar­bylt­ing. (Ég er reyndar einn þeirra sem finnst orðið “menn­ing” lélegt og reyni að not­ast við orðið “kúlt­úr” en það er efni í aðra grein).

Svo eru þeir sem finnst þetta bara eðli­legur hluti af sam­skiptum kynj­anna og finnst það réttur sinn að horfa á konur eins og þeir vilja og tjá sig um útlit þeirra og lík­ams­vöxt. Þeir gefa jafn­vel í skyn að það sé hluti af kven­legu eðli að sækj­ast eftir slíku og ef kona sé með flottar brjóst þá sé ekk­ert að því að segja henni það. Fæstir þess­ara manna myndu samt nota þessa hug­mynda­fræði til að gleðja mömmu sína.

Sumir hafa bent á að karlar verði líka fyrir kyn­ferð­is­legri áreitni. Það er alveg rétt og ekk­ert sem afsakar það en það er samt ekki sam­bæri­legt við þann líf­fræði­lega og menn­ing­ar­lega ójöfnuð sem konur búa við í okkar sam­fé­lagi.

Reiði úlpu­kall­inn

Eins og margir aðrir þá horfði ég á við­talið við Stein­unni Val­dísi Ósk­ars­dóttur fyrr­ver­andi borg­ar­stjóra í sjón­varp­inu segja frá því ömur­lega ofbeldi sem hún og fjöl­skylda hennar varð fyr­ir. Og eins og margir aðrir þá tárað­ist ég. Ég vann með mann­inum hennar á þessum tíma og man eftir þessu. Ekki mundi ég vilja hafa svona skugga­legt lið fyrir utan hús hjá mér. Það er auð­sjá­an­legt að þetta hefur haft mikil og vond áhrif á hana. Þegar hópur feit­lag­inna og brúna­þungra karl­manna safn­ast saman fyrir utan heim­ili konu að kvöld­lagi þá er það ekk­ert nema ógn­andi ofbeldi.

Það felst ekki bara í því sem gerð­ist heldur líka ógn­inni í því sem hefði getað gerst. Hvað ef ein­hver af þessum skugga­legu verum hefði hent ein­hverju í gegnum glugga? Hvað ef ein­hver af þessum reiðu mönnum hefði ráð­ist á Stein­unni þegar hún fór út að reyna að tala við þá? Flestir for­dæma svona hegðun en svo eru aðrir sem reyna að afsaka hana eða jafn­vel rétt­læta, benda á að hún hafi þegið styrki og átt að segja af sér. Það er bara engin afsökun fyrir svona skrílslát­um. Þetta er bara frekja, reiði og dólgs­hátt­ur. Það þyrfti að vera eitt­hvað veru­lega mikið að í koll­inum á mér svo ég færi út að kvöld­lagi í ljót­ustu úlp­unni minni til að hanga með fýlu­svip fyrir utan hjá ein­hverj­um.

Og alltaf þegar talið berst að þeim rudda­skap sem gjarnan ein­kennir stjórn­mál þá koma þeir reglu­lega fram sem finnst að fólk sem vill starfa í stjórn­málum eigi að sætta sig við þetta sem eðli­legan hlut, það sé ekki málið að upp­ræta þetta heldur eigi fólk bara að læra að lifa með þessu og sætta sig við næstum hvað eina sem vit­lausu, freku og reiðu fólki dettur í hug að bjóða því upp á. Það er bara algjör­lega fárán­legur mál­flutn­ingur og alveg stór­hættu­legt að rétt­læta og normalisera ofbeldi og ofbeld­iskúltúr á þennan hátt. Við gæt­um, með sömu rök­um, sagt að allir sem starfa á veit­inga­stöð­um, leigu­bíl­stjórar og lög­reglu­fólk eigi að sætta sig við dóna­skap og ofbeldi og bara taka því sem eðli­legum hluta af sinni vinnu og allar umkvart­anir séu barasta væl.

Stjórn­mál eru í eðli sínu and­svar gegn ofbeldi. Þar er fólk að reyna að leysa verk­efni og vanda­mál af yfir­veg­un, með sam­tali og án handa­lög­mála. Við mann­fólk höfum langa reynslu af því að leysa okkar mál með ógn­unum og ofbeldi. Reynslan af því hefur ekki verið góð. Ef við ætlum að sætta okkur við sam­fé­lag sem hefur ákveðið magn af ásætt­an­legu ofbeldi þá fælum við gáfað og vel gert fólk frá þeim stöðum og þar sem við þurfum mest á því að halda og munum enda upp með alþingi sem sam­anstendur af sík­ópötum sem ekk­ert bítur á, og er slétt sama hvað okkur almenn­ingi finn­st, vörðum af vopn­uðum hrottum sem hafa lært að skjóta fyrst og spyrja svo.

Ofbeldi er mein­semd á Íslandi. Það splundrar ein­stak­ling­um, fjöl­skyld­um, félaga­sam­tök­um, fyr­ir­tækj­um, bæj­ar­fé­lögum og jafn­vel heilum sam­fé­lög­um. Frá því að ég var lít­ill hefur ofbeldi minnkað mjög mikið á Íslandi. Sumt sem þótti sjálf­sagt í gamla daga þykir það ekki leng­ur. 1980 þótti ekki til­töku­mál ef maður kýldi annan mann á kjaft­inn niðri í bæ. Það var jafn­vel álitið svo­lítið töff. Það er það ekki leng­ur. Bar­áttan gegn ofbeldi heldur áfram og hættir ekki fyrr en ofbeldið hættir alveg. Áfram #metoo!

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka
Arion banki með of mikið eigið fé
Nýliðinn ársfjórðungur var góður fyrir Arion banka, samkvæmt nýútgefnu ársfjórðungsuppgjöri hans. Bankastjórinn segir bankann vera með of mikið eigið fé.
Kjarninn 28. október 2020
Tilgangur minnisblaðsins „að ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti“
Öryrkjabandalag Íslands segir fjármálaráðherra fara með villandi tölur í minnisblaði sínu.
Kjarninn 28. október 2020
Árni Stefán Árnason
Dýravernd – hallærisleg vanþekking lögmanns – talað gegn stjórnarskrá
Kjarninn 28. október 2020
Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra.
Meirihluti vill tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá
Meirihluti er hlynntur því að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu. Um það bil 2/3 kjósenda VG segjast hlynnt því, en minnihluti kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna.
Kjarninn 28. október 2020
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Sjónvarpstekjur Símans hafa aukist um nær allan hagnað félagsins á árinu 2020
Færri ferðamenn skila minni tekjum af reikiþjónustu. Tekjur vegna sjónvarpsþjónustu hafa hins vegar vaxið um 14 prósent milli ára og starfsmönnum fækkað um 50 frá áramótum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju uppgjöri Símans.
Kjarninn 28. október 2020
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni segir kökumyndband Öryrkjabandalagsins vera misheppnað
Fjármála- og efnahagsráðherra segir það rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið af efnahagskökunni sem íslenskt samfélag baki. ÖBÍ segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að auka fátækt sinna skjólstæðinga.
Kjarninn 28. október 2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Útlit fyrir að sóttvarnalæknir leggi til hertar aðgerðir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki ánægður með stöðu faraldursins og ætlar að skila minnisblaði með tillögum að breyttum sóttvarnaraðgerðum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fljótlega.
Kjarninn 28. október 2020
Alls segjast um 40 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa stjórnarflokkanna þrjá.
Samfylking stækkar, Sjálfstæðisflokkur tapar og Vinstri græn ekki verið minni frá 2016
Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að dala og mælist nú tæplega helmingur af því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkur forsætisráðherra yrði minnsti flokkurinn á þingi ef kosið yrði í dag.
Kjarninn 28. október 2020
Meira úr sama flokkiÁlit