Stjórnarsáttmáli Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur margt gott fram að færa, en eins og alltaf þegar slík plögg eru annars vegar, þá er ekki gott á átta sig á því hvernig hin pólitíska sýn á málaflokkana er í raun og veru.
Eitt af því sem er forvitnilegt í stjórnarsáttmálanum er uppbygging ljósleiðarakerfis, sem til einföldunar má segja að séu hluti af grunninnviðum internetkerfisins.
Metnaðarfull sýn
Í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt: „Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið árið 2020 sem eykur lífsgæði og fjölgar tækifærum landsmanna til að skapa atvinnu. Ríkisstjórnin vill að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar kemur að fjarskipta- og upplýsingatækni og leggur áherslu á aukið samstarf fjarskiptaaðila um uppbyggingu grunninnviða.“
Þetta er metnaðarfullt verkefni, en það er ekki einfalt. Meðal þess sem horfa þarf til er alþjóðlegt regluverk. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirbýr nú innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/61/EB og áformar í því skyni að leggja frumvarp fyrir Alþingi er varðar samnýtingu framkvæmda á sviði fjarskipta-, raforku- og veitukerfa. Meginmarkmið tilskipunarinnar snúa að því að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta.
Internetaðgangur sem mannréttindi
Deilur um aðgang að grunnkerfinu á Íslandi hafa líka verið nokkuð harðar, eins og hefur sést á opinberum deilum Símans og Gagnaveitunnar. Undirliggjandi er þar deila um hvernig hið opinbera á að haga þátttöku á markaði sem skilgreindur er sem samkeppnismarkaður, og hvernig markaðsráðandi fyrirtæki á að feta sig áfram á markaðnum.
Á internetinu eru margar hliðar. Í Bandaríkjunum er nú internetið orðið aftur að miklum miðpunkti í rökræðum, þar sem rætt er um réttinn til að hafa aðgang að internetinu.
Barack Obama, fyrrverandi forseti, talaði fyrir því að internetaðgangur yrði að skilgreinast sem mannréttindi, og því þyrftu yfirvöld að tryggja hlutlausan aðgang að því. Það myndi taka tíma að leysa úr þeim málum, en hin pólitíska sýn á málið ætti að felast í þessari skilgreiningu.
Fleiri stjórnmálamenn og frumkvöðlar, nú síðast í dag í bréfi til Bandaríkjaþings, hafa talað á þessum nótum, og það er vel skiljanlegt, enda fyrirsjáanlegt að hlutverk internetsins í lífi okkar muni dýpka enn meira eftir því sem tæknin verður meiri og skilvirkt upplýsingaflæði mikilvægara.
Fyrrnefnd tilskipun Evrópusambandsins byggir á rökræðum um þessi atriði, og er liður í því að styrkja grunnupplýsingakerfi aðildarríkja (og þeirra sem þurfa að taka regluverkið upp án þess að vera í ESB).
Íslensk stjórnvöld standa líka frammi fyrir þessum spurningum og hvernig þau vilja byggja upp kerfið okkar til framtíðar.
Það þarf til dæmis að styrkja samband Íslands við umheiminn, með betri strengjum.
Hver á að eiga grunnkerfið?
En það er líka fullt tilefni til þess að spyrja að því, hvernig eignarhald á grunnkerfinu - ef við notum það orð til einföldunar - á að vera til framtíðar.
Hugsanlega er best að ríkið eigi einfaldlega kerfið og kaupi þá Mílu af Símanum (Það var alltaf hægt að aðskilja grunnnetið frá öðrum rekstri) og sameini við Gagnaveituna.
Eða að lífeyrissjóðir kaupi bæði félögin, og reki í sérstöku félagi þar sem almenningur nýtur þess að eiga þetta mikilvæga kerfi til langrar framtíðar.
Það þarf ekki að taka fram, að það eru skiptar skoðanir á þessu, en stjórnmálamenn verða að átta sig á því að þeir geta ekki skilað auðu þegar þetta málefni er annars vegar. Það er full þörf á því að ræða um þessa hluti og þá með það fyrir augum, að aðgangur að interneti ætti að teljast til grundvallarmannréttinda í framtíðinni.
Vonandi þýðir stutti kaflinn um ljósleiðaravæðinguna að stjórnmálamenn séu tilbúnir að velta við öllum steinum í þessu máli. Það eru miklir hagsmunir undir fyrir almenning en líka samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengdar litið.
Framsýnir sænskir vekalýðsleiðtogar
Upp í hugann kemur stutt saga frá Pär-Jörgen Pärson, stofnanda Northzone fjárfestingasjóðsins, sem meðal annars hefur hagnast verulega á ýmsum sprotafyrirtækjum í Svíþjóð, þar á meðal Spotify.
Hann hélt frábært erindi í Scandinavia House í New York 25. ágúst 2015, þar sem Kjarninn var viðstaddur.
Þar voru norrænir sprotar að kynna fyrirtæki sín og verkefni fyrir fjárfestum og fleirum.
Pär komið nokkuð á óvart í erindi sínu, þegar hann fjallaði um hvernig Svíar hefðu náð samkeppnisforskoti á mörg önnur lönd þegar kæmi að internetinu.
Hann sagðist telja að framsýnir sænskir verkalýðsleiðtogar hefðu rutt brautina fyrir aðra með því að gera aðgang að interneti að kjaramáli á árdögum netsins, áður en flestar þjóðir heimsins fóru að velta fyrir sér mikilvægi internettenginga.
Þetta baráttumál náðist í gegn og fóru Svíar í kjölfarið að byggja upp internettengingar vítt og breitt. Þetta skilaði sér í því að margir frumkvöðlar voru snemma komnir með þekkingu á internetinu og kannski umfram allt, áttuðu sig á óþrjótandi möguleikum þess.
Áhrifin af þessu frumkvöðlastarfi verkalýðsleiðtogana komu þó ekki almennilega fram, fyrr en mörgum árum og áratugum seinna.
Þannig er það oft með innviðina. Þeir geta skapað tækifæri sem ómögulegt er að greina þegar þeir verða til. Enginn efast svo um mikilvægi þeirra þegar fram í sækir.