Kæru samlandar. Viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað gagnvart innflytjendum. Af því tilefni langar mig að ræða um mismunun og það hvernig hún birtist okkur innflytjendum. Mér var sagt fyrir skömmu síðan, í umræðu sem átti sér stað í tengslum við pólitík, að upplifun mín af hlutunum væri rétt. Auðvitað getur enginn sagt að upplifun fólks sé röng en upplifun fólks er ein hlið teningsins. Ef hún er skoðuð er hægt að skýra hvað á sér stað, af hverju og hvað hægt er að gera til að breyta hlutunum þannig að upplifunin breytist.
Mín upplifun af mismunun, sem stafar af því að ég er innflytjandi, er sú að við fáum sjaldan sömu tækifæri og innfæddir til að nota menntun okkar á vinnumarkaði. Okkur er úthlutað láglaunastörfum, jafnvel lægri launum en innfæddir sem vinna sömu störf. Réttindi okkar eru ekki kynnt, hvorki af stéttarfélögum, í kerfinu eða á vinnustaðnum. Það hef ég upplifað undanfarin 17 ár á íslenskum vinnumarkaði. Ég hef reyndar líka upplifað að sum okkar fái örlítið meiri tækifæri á þeim forsendum að það sé „gott að hafa einn þeirra með“. Já, ég hef valist til verka sem táknrænn innflytjandi sem Íslendingar hafa viljað „hafa með“ sem einhvers konar skraut.
Auðvitað hef ég fengið mörg tækifæri og ég hef náð langt. Ég veit að oftast var það vegna þess að ég lagði mikið á mig og fjölskyldu mína. Ég mætti áskorunum og greip tækifæri þegar þau birtust. En það hafa ekki allir fengið slík tækifæri. Eflaust hef ég notið forréttinda vegna uppruna míns og/eða húðlitar. Það er auðvitað ekki eins að vera hvítur, enskumælandi innflytjandi frá Bandaríkjunum og dökkur frönskumælandi innflytjandi frá Mosambique. Eða ungur drengur frá Albaníu. Og ég get leyft mér að tala með þessum hætti þar sem ég þekki þetta fólk sem ég vel til samanburðar og þykir vænt um það.
Ég á vinkonu frá Kína sem er faglærður endurskoðandi sem starfaði í fjárálastjórnunarteymi í þriðja stærsta spítala Kína. Á Íslandi hafa hennar tækifæri falist í starfi í eldhúsi. Þetta er mikil kjarnakona og hún hefur sinnt þessu starfi með glæsibrag, fer vel með peninga og töfraði fram mat sem gladdi samstarfsfólk hennar. Henni var hins vegar tilkynnt þegar hún byrjaði að hún yrði að virða það að Íslendingar vildu ekki MSG og einungis „venjulegan“ fisk og kjöt. Ætli íslenskur starfsmaður hefði fengið slíka tilkynningu við upphaf starfs síns á sama stað? Þegar hún hætti í þessu starfi sagði hún mér að hún hefði upplifað einelti og niðurlægingu og hana grunaði að henni hefði verið skipað að gera hluti sem voru utan hennar starfslýsingar. Sum sé vond upplifun sem orsakast af hegðun samstarfsmanna sem á rætur að rekja til uppruna hennar.
Ég þekki fleiri sögur um lækna, sálfræðinga, verkfræðinga, kennara og hjúkrunarfræðinga þar sem tækifæri þeirra til þátttöku á vinnumarkaði takmarkast við fiskvinnslu, ræstingar, uppvask, afgreiðslustörf og útkeyrslu. Menntun þeirra er ekki metin og þeim er sagt að reyna ekki að fá hana metna. Það sé miklu líklegra til árangurs að læra íslensku og endurmennta sig í einhverju öðru.
Það er hér sem ég vil staldra við og spyrja hvort við viljum í alvöru sóa þeim krafti, þekkingu og reynslu sem í innflytjendum býr. Langflestir þeirra vilja taka þátt í að efla, bæta og þróa íslenskt samfélag. Við segjum gjarnan að Ísland sé best í heimi. Innflytjendur eru langflestir friðsamt, vel menntað, sterkt og klárt fólk sem vill búa í landi þar sem ofbeldi er lítið, hamingja mælist mikil, börn eru örugg og og horfandi yfir íslenskan vinnumarkað sé ég ekki betur en við þurfum á þessum viðbótarauði að halda. Nema Ísland sé bara best fyrir innfædda?
Það kannast allir við umræðuna um að þörf sé fyrir „erlent vinnuafl“. Hver er þá munurinn á íslensku og erlendu vinnuafli? Laun? Réttindi og skyldur? Hér á sér stað mismunun. Hver ber ábyrgð á að tryggja að þeir sem búa hér, greiða sína skatta og sinna sínum skyldum við samfélagið verði ekki fyrir mismunun? Auðvitað er það á ábyrgð okkar allra en að mínu mati þyrfti að byrja á að móta stefnu í innflytjendamálum með forgöngu dóms-, mennta- og menningarmála-, og velferðarráðherrum. Og stjórnendur á vinnumarkaði þurfa hér einnig að stíga upp og axla ábyrgð. Þeir leiða þróunina (stefnulausa að vísu!). Skólakerfin þurfa líka að uppfæra nám og kennslu í samstarfi við foreldra, en það hef ég oft sagt áður.
Nú get ég ekki lokið þessari grein án þess að tala um mjög vonda tilfinningu sem ég fann fyrir um helgina í tengslum við frétt DV um morð sem framið var í miðborg Reykjavíkur. Þar var Klevis Sula, tvítugur drengur frá Albaníu stunginn til bana. Fréttin fjallaði hins vegar um það hversu mikill harmleikur það var fyrir fjölskyldu hins 24 ára geranda sem situr nú í gæsluvarðhaldi, af því hann sé drengur góður. Hann er hins vegar lifandi Íslendingur. Foreldrar hins myrta, sem nú munu ferðast hingað til lands til að sækja lík sonar síns eru ekki í minna áfalli. Þau munu alltaf tengja Ísland við þennan hörmulega hildarleik. Fyrir drenginn þeirra er engin von lengur. Þau fá aldrei aftur að horfa í augu hans eða taka utan um hann. Harmleikur þeirra var hins vegar ekki til umræðu í fréttaflutningi DV.
Fyrir ári síðan var íslensk stúlka myrt af útlendingi og samfélagið grét saman. Hugur okkar og hjörtu náðu hins vegar eingöngu til fjölskyldu hennar og vina á þeim tíma. Við vorum reið út í útlendinginn sem kom hingað og tók íslenskt líf hennar. Við viljum ekki ofbeldi hér. Við viljum ekki að fólk sé myrt. Morð er morð, óháð uppruna hins látna eða aðstæðum. Harmleikurinn á Austurvelli um helgina er harmleikur okkar allra sem samfélags og hann má ekki lita með fordómum um fæðingarland hins myrta. Eitt mannslíf er ekki meira virði en annað. Við erum öll dýrmæt og mikilvæg og við eigum að fá að lifa og deyja með reisn, óháð uppruna okkar.