Það eru margir möguleikar í boði þegar kemur að því að fá sér hádegismat. Sumir fara á veitingastaði eða í sjoppu á meðan aðrir koma með nesti. Það er augljóslega dýrast að fara á veitingastaði, aðeins ódýrara að fara í sjoppu og ódýrast að taka með sér nesti. Að sama skapi er skemmtilegra að fara út að borða en að taka með sér nesti. En það er einn annar möguleiki sem fæstir vita af: Út að borða á elliheimili.
Guðrún frænka verður 100 ára í þessum mánuði og undanfarin ár hefur hún búið á elliheimilinu í Lönguhlíð ásamt um það bil 34 öðrum eldri borgurum. Guðrún hefur notað meginpart sinna 100 ára í það að hugsa um aðra. Hún hefur saumað og prjónað fjall af fötum fyrir vini og ættingja, eldað ofan í herdeild og aldrei beðið um neitt í staðinn.
Það var því smá breyting fyrir Guðrúnu að flytja á elliheimili, sérstaklega þar sem íbúðirnar í Lönguhlíð eru útbúnar aðeins með takmörkuðu eldhúsi. Þetta gerir heimilisfólki erfitt fyrir að elda mat ofan í gesti. En sem betur fer er það regla í Lönguhlíð að íbúar geta boðið gestum í hádegismat (á virkum dögum) í mötuneyti elliheimilisins. Og gerir Guðrún það reglulega.
Hágæða veitingahús á spottprís
Í Lönguhlíð er maturinn fyrsta flokks. Súpa í forrétt, heitur heimilismatur í aðalrétt og kaffi á eftir. Starfsfólkið, sem eru meira og minna konur á miðjum aldri, eru til fyrirmyndar. Þjónustulundin er eins og á hágæða veitingahúsi. Í hvert skipti sem ég kem í mat dekrar starfsfólkið ekki bara við íbúanna heldur einnig við mig. Að sama skapi eru íbúarnir alltaf í góðu stuði og deila með manni hágæða hviksögum og gefa manni sýn inn í heim sem maður rekst svo gott sem aldrei á annarstaðar.
Svo hjálpar það líka hvað þetta er ódýrt. Tveggja - og stundum þriggja - rétta máltíð kostar aðeins 1.200 krónur fyrr gesti. Ef við berum þetta saman við aðra valmöguleika þá sjáum við hversu ótrúlega góður díll þetta er. Til dæmis, síðast þegar ég fór fékk ég grænmetissúpu í forrétt og Ýsu í orlý með kartöflum og grænmeti í aðalrétt. Ekki ósvipuð máltíð og býðst á hinum ýmsu veitingahúsum borgarinnar.
Sama máltíð kostar tæplega fjórum sinnum meira á Fiskifélaginu en í Lönguhlíð. Á Múlanum kostar slík máltíð rúmlega tvisvar sinnum meira og ef hráefnin eru keypt út í búð og nesti búið til kostar það um það bil það sama og í Lönguhlíð.
Er ég sá eini í heiminum sem veit af þessu?
Það fer því ekki á milli mála að besti díll bæjarins er á elliheimilinu. En af einhverri ástæðu þá hef ég aldrei rekist á neinn á elliheimilinu í hádegismat - fyrir utan íbúana að sjálfsögðu.
Á síðasta ári fór ég um það bil 7 sinnum í mat á Lönguhlíð. Gestir fá aðeins að koma á virkum dögum (og ekki á hátíðisdögum) sem þýðir að Það voru um það bil 2.8% líkur á því að finna mig þar í hádegismat á þessu ári. Þannig að ég hugsaði með mér að þetta væri bara tilviljun. En eftir að hafa reiknað þetta almennilega út komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta er eflaust ekki nein tilviljun.
Að meðaltali eru kannski um 25 aðrir íbúar í mat í hvert skipti sem ég fer í mat. Öll eiga þau eflaust slatta af ættingjum og ef hver íbúi fengi aðeins 3 heimsóknir í hádegismat (frá sama eða mismunandi aðilum) á ári, þá eru um 88% líkur á því að ég hefði í það minnsta hitt einn þeirra í einu af þeim skiptum sem ég var í mat. Að sama skapi, ef hver íbúi hefði fengið aðeins eina heimsókn í hádegismat á ári, þá eru meira en 50% líkur á því að ég hefði rekist á einn þeirra. Út frá þessum útreikningum er það niðurstaða mín yfirgnæfandi líkur séu á því að hinir íbúarnir hafi fengið minna en þrjár heimsóknir í mat á síðasta ári.
Af hverju fara svona fáir í mat á elliheimili?
Þar sem fólk hefur greinilegan fjárhagslegan hvata til þess að fara í mat á elliheimili en gerir það ekki, hef ég þróað með mér þrjár kenningar til þess að reyna að útskúra þessa hegðun:
- Takmarkaður tími. Fólk hefur ekki tíma til að fara í hádegismat á elliheimili.
- Leti og fordómar. Börn, barnabörn, barnabarnabörn, ættingjar og vinir eru of löt eða fordómafull til að eyða hádegismatnum með gamalmennum.
- Skortur á upplýsingum. Fólk veit ekki að það er hægt að fara í mat á elliheimili og/eða veit ekki hversu góður díll það er.
Af þessum þremur kenningum er eflaust eitthvað til í öllum. Fyrsta kenningin útskýrir til dæmis af hverju fólk sem vinnur langt frá elliheimili aðstandanda sinna eða hafa ekki aðgang að bíl fara ekki í hádegismat.
Önnur kenningin útskýrir annan hóp fólks sem ekki vill fara í hádegismat vegna þess að þau annaðhvort eru of löt eða einfaldlega vilja ekki vera í kringum gamalt fólk. Ég tel þó að fáir falli í þennan flokk þar sem gamla fólkið á elliheimilinu eru bæði vinaleg og einstaklega skemmtileg.
En þriðja kenningin er sú sem ég held að spili hvað mestan þátt í þeirri órökvísu hegðun að fara ekki í mat á elliheimilum – fólk er til í að fara í mat, en veit ekki endilega að það er í boði og/eða veit ekki hvað það getur sparað sér mikið með því að fara í hádegismat á elliheimilinu.
Ég reikna með að skella mér nokkrum sinnum í hádegismat á elliheimilið á næsta ári, þá vona ég að rekist á einhver ykkar sem lásu þessa grein og vitið nú um þennan dúndur díl. Kannski getum við meira segja setið við sama borð.