Förum í hádegismat á elliheimilum

Eiríkur Ragnarsson finnur hvar sé hægt að nálgast hágæðamat á spottprís.

Auglýsing

Það eru margir mögu­leikar í boði þegar kemur að því að fá sér hádeg­is­mat. Sumir fara á veit­inga­staði eða í sjoppu á meðan aðrir koma með nesti. Það er aug­ljós­lega dýr­ast að fara á veit­inga­staði, aðeins ódýr­ara að fara í sjoppu og ódýr­ast að taka með sér nesti. Að sama skapi er skemmti­legra að fara út að borða en að taka með sér nesti. En það er einn annar mögu­leiki sem fæstir vita af: Út að borða á elli­heim­ili.

Guð­rún frænka verður 100 ára í þessum mán­uði og und­an­farin ár hefur hún búið á elli­heim­il­inu í Löngu­hlíð ásamt um það bil 34 öðrum eldri borg­ur­um. Guð­rún hefur notað meg­in­part sinna 100 ára í það að hugsa um aðra. Hún hefur saumað og prjónað fjall af fötum fyrir vini og ætt­ingja, eldað ofan í her­deild og aldrei beðið um neitt í stað­inn. 

Það var því smá breyt­ing fyrir Guð­rúnu að flytja á elli­heim­ili, sér­stak­lega þar sem íbúð­irnar í Löngu­hlíð eru útbúnar aðeins með tak­mörk­uðu eld­húsi. Þetta gerir heim­il­is­fólki erfitt fyrir að elda mat ofan í gesti. En sem betur fer er það regla í Löngu­hlíð að íbúar geta boðið gestum í hádeg­is­mat (á virkum dög­um) í mötu­neyti elli­heim­il­is­ins. Og gerir Guð­rún það reglu­lega.

Auglýsing

Hágæða veit­inga­hús á spott­prís

Í Löngu­hlíð er mat­ur­inn fyrsta flokks. Súpa í for­rétt, heitur heim­il­is­matur í aðal­rétt og kaffi á eft­ir. Starfs­fólk­ið, sem eru meira og minna konur á miðjum aldri, eru til fyr­ir­mynd­ar. Þjón­ustu­lundin er eins og á hágæða veit­inga­húsi. Í hvert skipti sem ég kem í mat dekrar starfs­fólkið ekki bara við íbú­anna heldur einnig við mig. Að sama skapi eru íbú­arnir alltaf í góðu stuði og deila með manni hágæða hvik­sögum og gefa manni sýn inn í heim sem maður rekst svo gott sem aldrei á ann­ar­staðar. 

Svo hjálpar það líka hvað þetta er ódýrt. Tveggja - og stundum þriggja - rétta mál­tíð kostar aðeins 1.200 krónur fyrr gesti. Ef við berum þetta saman við aðra val­mögu­leika þá sjáum við hversu ótrú­lega góður díll þetta er. Til dæm­is, síð­ast þegar ég fór fékk ég græn­met­is­súpu í for­rétt og Ýsu í orlý með kart­öflum og græn­meti í aðal­rétt. Ekki ósvipuð mál­tíð og býðst á hinum ýmsu veit­inga­húsum borg­ar­inn­ar.

Sama mál­tíð kostar tæp­lega fjórum sinnum meira á Fiski­fé­lag­inu en í Löngu­hlíð. Á Múl­anum kostar slík mál­tíð rúm­lega tvisvar sinnum meira og ef hrá­efnin eru keypt út í búð og nesti búið til kostar það um það bil það sama og í Löngu­hlíð. Samanburður á verði fyrir fisk og súpu. Heimild: Matseðlar veitingastaða, verðkönnun ASÍ og útreikningar höfundar.

Er ég sá eini í heim­inum sem veit af þessu? 

Það fer því ekki á milli mála að besti díll bæj­ar­ins er á elli­heim­il­inu. En af ein­hverri ástæðu þá hef ég aldrei rek­ist á neinn á elli­heim­il­inu í hádeg­is­mat - fyrir utan íbú­ana að sjálf­sögðu. 

Á síð­asta ári fór ég um það bil 7 sinnum í mat á Löngu­hlíð. Gestir fá aðeins að koma á virkum dögum (og ekki á hátíð­is­dög­um) sem þýðir að Það voru um það bil 2.8% líkur á því að finna mig þar í hádeg­is­mat á þessu ári. Þannig að ég hugs­aði með mér að þetta væri bara til­vilj­un. En eftir að hafa reiknað þetta almenni­lega út komst ég að þeirri nið­ur­stöðu að þetta er eflaust ekki nein til­vilj­un. 

Að með­al­tali eru kannski um 25 aðrir íbúar í mat í hvert skipti sem ég fer í mat. Öll eiga þau eflaust slatta af ætt­ingjum og ef hver íbúi fengi aðeins 3 heim­sóknir í hádeg­is­mat (frá sama eða mis­mun­andi aðil­um) á ári, þá eru um 88% líkur á því að ég hefði í það minnsta hitt einn þeirra í einu af þeim skiptum sem ég var í mat. Að sama skapi, ef hver íbúi hefði fengið aðeins eina heim­sókn í hádeg­is­mat á ári, þá eru meira en 50% líkur á því að ég hefði rek­ist á einn þeirra. Líkurnar á því að rekast á einhvern í mat. Heimild: Útreikningar höfundar. Út frá þessum útreikn­ingum er það nið­ur­staða mín yfir­gnæf­andi líkur séu á því að hinir íbú­arnir hafi fengið minna en þrjár heim­sóknir í mat á síð­asta ári. 

Af hverju fara svona fáir í mat á elli­heim­ili?

Þar sem fólk hefur greini­legan fjár­hags­legan hvata til þess að fara í mat á elli­heim­ili en gerir það ekki, hef ég þróað með mér þrjár kenn­ingar til þess að reyna að útskúra þessa hegð­un:

  1. Tak­mark­aður tím­i. Fólk hefur ekki tíma til að fara í hádeg­is­mat á elli­heim­ili.
  2. Leti og for­dóm­ar. Börn, barna­börn, barna­barna­börn, ætt­ingjar og vinir eru of löt eða for­dóma­full til að eyða hádeg­is­matnum með gam­al­menn­um. 
  3. Skortur á upp­lýs­ing­um. Fólk veit ekki að það er hægt að fara í mat á elli­heim­ili og/eða veit ekki hversu góður díll það er.

Af þessum þremur kenn­ingum er eflaust eitt­hvað til í öll­um. Fyrsta kenn­ingin útskýrir til dæmis af hverju fólk sem vinnur langt frá elli­heim­ili aðstand­anda sinna eða hafa ekki aðgang að bíl fara ekki í hádeg­is­mat. 

Önnur kenn­ingin útskýrir annan hóp fólks sem ekki vill fara í hádeg­is­mat vegna þess að þau ann­að­hvort eru of löt eða ein­fald­lega vilja ekki vera í kringum gam­alt fólk. Ég tel þó að fáir falli í þennan flokk þar sem gamla fólkið á elli­heim­il­inu eru bæði vina­leg og ein­stak­lega skemmti­leg.  

En þriðja kenn­ingin er sú sem ég held að spili hvað mestan þátt í þeirri órök­vísu hegðun að fara ekki í mat á elli­heim­ilum – fólk er til í að fara í mat, en veit ekki endi­lega að það er í boði og/eða veit ekki hvað það getur sparað sér mikið með því að fara í hádeg­is­mat á elli­heim­il­inu. 

Ég reikna með að skella mér nokkrum sinnum í hádeg­is­mat á elli­heim­ilið á næsta ári, þá vona ég að rek­ist á ein­hver ykkar sem lásu þessa grein og vitið nú um þennan dúndur díl. Kannski getum við meira segja setið við sama borð. 

Meira úr sama flokkiEikonomics