Skýrslu um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem mun innihalda tillögur um hvernig megi bæta það, verður kynnt á næstunni. Nefndin sem vann skýrsluna og tillögurnar var skipuð í upphafi árs og átti að skila af sér fyrir mörgum mánuðum síðan, en þau skil hafa ítrekað tafist.
Málið hefur fengið aukið vægi í ljósi þess að í nýgerðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna pólitíska stefnu hvað það varðar. Þar segir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur muni bæta starfsumhverfi fjölmiðla „m.a. með endurskoðun á skattalegu umhverfi þeirra.“
En hvað þýðir það? Hvaða skatta er hægt að endurskoða og hvernig hjálpar sú endurskoðun fjölmiðlum? Og það sem meira máli skiptir, hvaða áhrif mun það hafa á íslenskt fjölmiðlaumhverfi?
Valdið miklum skaða
Það er nauðsynlegt að setja þessar aðgerðir í samhengi við sviptingar í íslenskum fjölmiðlum, sem hafa verið miklar á síðustu misserum. Það sem af er þessu ári hafa tvö stór fjölmiðlaveldi orðið gjaldþrota, fyrst Fréttatíminn og svo Pressan í liðinni viku. Bæði stunduðu það að skila ekki opinberum gjöldum, stéttarfélags- og lífeyrisgreiðslum starfsmanna yfir lengri tíma og komu sér þannig upp ólögmætu samkeppnisforskoti gagnvart þeim fjölmiðlum sem reka sig heiðarlega og í samræmi við lög. Þrot beggja hlaupa á hundruðum milljóna króna án þess að mikið, eða eitthvað, fáist upp í kröfur. Á sama tíma hafa stærstu einkareknu ljósvakamiðlar landsins runnið saman við fjarskiptafyrirtæki, þar sem áherslan til lengri tíma virðist ætla fyrst og fremst að vera á afþreyingu, ekki gagnrýna fréttamennsku.
Öll þessi framganga hefur valdið miklum skaða á fjölmiðlaumhverfinu.
Trump er víða
Orðræða um fjölmiðla og tilgang þeirra, sérstaklega á flokkspólitískum forsendum, hefur ekki síður verið skaðleg hérlendis. Á örfáum árum höfum við upplifað það að formaður fjárlaganefndar beinlínis hótaði að skera niður fjárlög til RÚV vegna þess að henni mislíkaði fréttaflutningur fyrirtækisins, á árunum 2013-2016 voru fjölmiðlar ítrekað ásakaðir um loftárásir á sitjandi valdamenn og voru skilgreindir sem óvinir ráðandi afla af þeim sjálfum. Bjarni Benediktsson skrifaði á Facebook fyrir rúmu ári að íslenskir fjölmiðlar væru „lítið annað en skel, umgjörð utan um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum.“ Í umræðum á Alþingi í kjölfarið sagði hann að það væri sín upplifun að fjölmiðlar á Íslandi ræktu ekki aðhaldshlutverk sitt.
Eftir síðustu kosningar ákvað hann að kenna fjölmiðlum, að minnsta kosti að hluta, um hversu slæm orðræðan á Íslandi væri orðin vegna þess að þeir „elski skandala“. Það væri sem sagt ekki þeir sem framkvæmdu „skandalana“ sem væru ábyrgir, heldur þeir sem opinberuðu þá.
Þessi orðræða er í takt við það sem er að gera á öðrum stað í heiminum, Bandaríkjunum. Forseti þess lands ásakaði frjálsa og gagnrýna fjölmiðla þar í landi um að vera óvinir almennings snemma á þessu ári. Það heilaga stríð hans hefur síðan magnast upp dag frá degi. Það er rétt að muna að þar fer maður sem lýgur nær daglega í starfi, og finnst ekkert athugavert við það.
Gagnrýni Trump og gagnrýni stjórnmálamanna hérlendis, og fylgitungla þeirra, byggist sjaldnast á efnislegu innihaldi. Hún byggir á samsæriskenningum eða órökstuddum fullyrðingum og tilfinningum sem stangast oftar en ekki á við staðreyndir.
Tilgangurinn er að hemja frjálsa fjölmiðlun og stýra umræðu. Eða að minnsta kosti vængstýfa hana.
Innistæðulausar hótanir og lögbann
Þessi aðför að íslensku fjölmiðlafrelsi, og hlutverki virkra gagnrýnna fjölmiðla fyrir virkt lýðræði, tók á sig sína skuggalegustu mynd á síðustu vikunum fyrir kosningar. Þá gerðist tvennt.
Í fyrsta lagi var sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar upp úr gögnum Glitnis sem gerði það að verkum að miðillinn gat ekki skrifað fleiri fréttir uppúr þeim í aðdraganda kosninga. Stundin hafði, líkt og hún hefur oft áður haft, einblínt á umfjöllun um fjármál þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans. Það er alveg eðlilegt að hafa skoðun á þeim fókus, en það dregur ekki úr rétti miðilsins til að segja fréttir sem byggja á gögnum. Lesandinn dæmir svo þær fréttir út frá sinni upplifun.
Það er stórmerkilegt, og raunar ótrúlegt, að ekki var krafist lögbanns yfir öðrum miðlum sem birtu fréttir upp úr sömu gögnum þar sem umfjöllunarefnið var annað. T.d. Kjarnanum sem hefur að því er virðist sömu, eða að minnsta kosti sambærileg, gögn undir höndum og Stundin og hefur birt fréttir úr þeim. Lögbann á umfjöllun fjölmiðils í aðdraganda kosninga er stórkostlega alvarlegt mál. Í því felst ritskoðun. Og rökin sem Glitnir hefur beitt fyrir sig í því máli eru sértæk gagnvart Stundinni, ekki almenn.
Í öðru lagi hótaði fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, því að stefna þremur fjölmiðlum eftir kosningar vegna umfjöllunar um Wintris-málið. Kjarninn var augljóslega einn þeirra miðla. Umfjöllunin var sönn, byggði á opinberum gögnum og er óhrekjanleg, enda hefur Sigmundur Davíð aldrei gert efnislega athugasemd við í fréttaflutningi Kjarnans um Wintris-málið.
Þrátt fyrir að tæplega tveir og hálfur mánuður sé liðinn frá því að hótun fyrrverandi forsætisráðherra, sem er sterkefnaður og hefur nægt bolmagn til að ráðast í tilhæfulausar málsóknir án mikilla fjárhagslegra afleiðinga, var sett fram í Morgunblaðinu þá bólar ekkert á málshöfðun hans. Enda ekki hægt að stefna fjölmiðlum fyrir að segja satt. Að minnsta kosti ekki með neinum árangri. Tilgangur hans með hótuninni hefur því verið annar. Þessi hótun er ein alvarlegasta aðför að frjálsri lýðræðislegri umræðu sem sett hefur verið fram hérlendis.
Svo það sé sagt þá felst ekki í ofangreindu sú skynvilla að íslenskir fjölmiðlar geri ekki mistök. Þau gera þeir svo sannarlega. Þegar mistök eru gerð þá þarf að viðurkenna þau, reyna að bæta fyrir þau með skýrri upplýsingagjöf og læra af þeim. Flestir íslenskir fjölmiðlar virðast hafa það að leiðarljósi. Þannig er því að minnsta kosti háttað á Kjarnanum.
Forsetinn og bresturinn
Forseti Íslands gerði þjóðfélagsumræðuna að umræðuefni í ræðu sinni við setningu Alþingis í gær.
Hann gagnrýndi þar harkalega nafnlausan áróður, þar sem fylgismenn ákveðinna flokka réðust með lygum, hálfsannleik og dylgjum á bæði pólitíska andstæðinga og fjölmiðla, án þess að forsvarsmenn þeirra flokka sem nutu góðs að óhróðrinum gerðu neitt til að fordæma athæfið. Forsetinn sagði: „viljum við að mikið beri á auglýsingum, skömmum og útúrsnúningi sem enginn þorir að gangast við? Viljum við að á vettvangi fjölmiðla verði skilin óskýr á milli frétta og áróðurs, milli staðreynda og skoðana þess sem flytur þær? Lengi hefur þótt lítilmannlegt í okkar samfélagi að vega úr launsátri, að villa á sér heimildir[...]Víða um heim gætir aukins uggs vegna þeirra áhrifa sem samfélagsmiðlar, upplýsingaveitur og óprúttnir valhafar geta haft á skoðanir fólks, skoðanir fjöldans. Ýmsir óttast að sífellt fleiri festist í fjötrum fordóma og falskra frétta, gerist þráir og forhertir, frekar en að njóta þess frelsis sem felst í að kynnast fjölbreyttum hugmyndum og ólíkum sjónarmiðum.“
Það er markaðsbrestur til staðar fyrir íslenska fjölmiðla. Hann felst í því að í dag fer feikilega stór hluti af neyslu á þeim fram í gegnum samfélagsmiðla. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er það staðan. Nær allir landsmenn eru á Facebook og fjölmiðlanotkun þeirra stýrist að stóru leyti af því sem Facebook- straumurinn sýnist þeim.
Svo það sé sagt þá hefur þessi þróun jákvæðar hliðar fyrir lýðræðislega umræðu. Hún gerir það að verkum að það er hægt að stofna fjölmiðil eins og t.d. Kjarnann án þess að leggja út í kostnaðarsama fjárfestingu í t.d, prentun og dreifingu eða í búnaði til að búa til ljósvakaefni. Birting efnisins fer einfaldlega fram á vefsíðu miðilisins og deifingarpípurnar eru m.a. samfélagsmiðlarnir.
Þá hafa hliðverðir umræðunnar verið fjarlægðir. Fjölmiðlaumhverfið virkar ekki lengur þannig að handfylli hliðvarða í ritstjórastólum með rík pólitísk tengsl geti stýrt því hvað verðskuldi umræðu og hvað ekki. Með tilkomu samfélagsmiðla, internetsins og snjallsíma eru allir sem vilja þátttakendur í umræðunni og geta nálgast upplýsingar til að móta sér skoðanir sjálfir, í stað þess að vera fóðraðir af slíkum af gömlu hliðvörðunum og stjórnmálamönnum.
Menningarbyltingar á borð við þá sem nú stendur yfir vegna kynbundins ofbeldis gagnvart konum, og kerfislægri valdníðslu karla gegn þeim, gætu aldrei átt sér stað nema vegna þess samtakamáttar sem hægt er að virkja í gegnum samfélagsmiðla.
Óljóst hvað stjórnvöld ætla sér
En það eru líka neikvæðar hliðar á þessari þróun, og þær eru sífellt að verða ógnvænlegri. Það má í raun færa rök fyrir því að helsta ógnin sem steðjar að lýðræðislegri umræðu sé veiking hefðbundinna fjölmiðla og síaukun áhrif samfélagsmiðla á borð við Facebook. Þau áhrif eru ekki einungis bundin við miðlun falsfrétta og áróðurs sem blandast saman við rétt unnið fjölmiðlaefni, heldur líka rekstrarleg.
Miðlar eins og Facebook, Google og Youtube, sem neita að skilgreina sig sem fjölmiðla né viðurkenna að þeir hafi stórkostlegt dagskrárvald, taka til sín sífellt stærri sneið af auglýsingatekjum hérlendis. Auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla árið 2015 voru helmingi minni en þær voru að raunvirði árið 2007, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
Þessir aðilar hagnast á framleiðslu íslenskra fjölmiðla á fréttaefni. Það dregur notendur í strauminn þeirra. Þeir rukka hins vegar fjölmiðlanna sem framleiða það efni fyrir aðgang, í stað þess að greiða fyrir efnið. Þeir mega auglýsa vörur sem bannað er að auglýsa á Íslandi með lögum, eins og áfengi og veðmálafyrirtæki. Og þeir borga enga skatta af þeim tekjum sem þeir afla á Íslandi. Í þessu er markaðsbresturinn fólgin.
Það er mjög óljóst hvað stjórnvöld ætla sér að gera til að takast á við þá stöðu sem er uppi á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Stjórnarsáttmálinn segir lítið annað en að það eigi að endurskoða skattalegt umhverfi þeirra. Hér á neðan má sjá tvo af þremur leiðtogum ríkisstjórnarinnar takast á um fjölmiðla á Alþingi fyrir rúmu ári. Erfitt er að lesa í hver stefna þeirra í málaflokknum er.
Æskilegt væri að stjórnvöld myndu nálgast málið út frá þeim markaðsbresti sem greint er frá hér að ofan. Þ.e. bæði með því að skerpa lagaumhverfið og eftirfylgni með framkvæmd þeirra þannig að fjölmiðlar í samkeppni geti ekki falið áhrifavald eða tekið þátt í samkeppnisrekstri með ólögmætum hætti árum saman, og með því að nálgast þann brest sem skattfrjáls hlutdeild alþjóðlegra samfélagsmiðla í fyrri tekjum íslenskra fjölmiðla hefur skapað.
Það þyrfti að gerast á jafnræðisgrundvelli þannig að greiðslur yrðu ekki hlutfallslegar, heldur takmarkaðar við ákveðið árlegt hámark á ári, líkt og gert er t.d. í endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Allir sem myndu uppfylla sett skilyrði gætu fengið greitt upp að því þaki. Svo í framtíðinni, þegar ríkið væri farið að innheimta virðisaukaskatt af alþjóðlegum fjölmiðlum/samfélagsmiðlum sem hafa tekjur í íslensku hagkerfi, þá væri hægt að nýta það fjármagn til að greiða fyrir markaðsbrestinn.
Að þessu sögðu þá kennir reynslan okkur að treysta ekki á stjórnmálamenn til að leysa vanda fjölmiðla. Það hefur enda ekkert verið gert til þess á áratug sem verður að skilgreinast sem mesta breytingartímabil í fjölmiðlasögunni. Að minnsta kosti hingað til.
Þótt rekstrarumhverfið sé erfitt þá hefur Kjarnanum til að mynda tekist að ná jafnvægi í sínum rekstri. Það hefur kostað blóð svita og tár en með feikilegum stuðningi ykkar, lesenda okkar, er rekstur okkar orðinn sjálfbær. Og okkur hefur tekist að styrkja starfsemina jafnt og þétt eftir því sem stuðningurinn hefur aukist.
Við erum stolt af því að hafa aldrei tekið ólögleg lán í opinberum gjöldum, aldrei tekið bankalán, aldrei falið eignarhald, alltaf gert upp við alla á réttum tíma og rekið mjög ábyrgan rekstur þar sem sveiflur hafa verið teknar út í gegnum laun stjórnenda.
Takk fyrir okkur. Hægt er að gerast stuðningsmaður Kjarnans hér.