Af hverju gengur svona illa að gera raunverulegar kerfisbreytingar?
Er það vegna þess að ráðamenn þjóðarinnar geta ekki litið upp úr excel-skjali fjárlaga frá ári til árs og langtímahugsunin spannar aðeins fjögur ár eða minna eða sem nemur einu kjörtímabili? Er það vegna þess að verkalýðsforystan ber ábyrgð á og viðheldur ógnarstóru lífeyriskerfi með öllum sínum víxlverkunum og skerðingum þar sem stöðugra breytinga er þörf vegna ósveigjanleika kerfis sem byggir á hugmyndafræði sem útilokað er að verja til lengri tíma?
Hvað kostar að veita fría heilbrigðisþjónustu til skamms tíma og til lengri tíma?
Við erum að missa stóran hóp af fullfrísku og vinnandi fólki yfir á örorku vegna vanrækslu okkar á grunnþjónustu. Hvað kostar samfélagið að missa virkan skattgreiðanda á örorku og læsa hann inni í fátæktargildru skerðinga til æviloka og svifta sjálfsbjargarviðleitni og möguleikanum til að vinna sig jafnt og þétt inn á vinnumarkað aftur? Hver er langtímasparnaður og tekjur ríkisins á því að skattleggja fátækt og taka ekki þátt í geðheilbrigðisforvörnum með gjaldfrjálsri sálfræðiþjónustu svo eitthvað sé nefnt?
Við erum að taka á móti fólki sem er komið á endastöð í stað forvarna.
Vitanlega kemur það illa út á fyrstu fjárlögum að afnema skerðingar og veita fyrsta flokks gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. Það kemur jafnvel illa út á öðrum, þriðju og jafnvel fjórðu fjárlögum. En til lengri tíma mun sparnaður og stórauknar skatttekjur í stað bóta vega það upp. Ekki bara í krónum talið heldur líka í auknum lífsgæðum og vellíðan heillar þjóðar.
Árið 1990 voru lægstu laun 80% af skattleysismörkum og 1998 voru þau á pari við skattleysismörkin. Í dag eru greiddar rúmar 46 þúsund krónur í skatta af lægstu launum. Þetta sýnir þá þróun sem orðið hefur á skattbyrði þeirra sem lægstar tekjur hafa í okkar samfélagi en á móti hefur dregið verulega úr skattbyrði þeirra sem eru í efstu tekjutíundum landsmanna og geta þeir sem mest eiga afar vel við unað undir íslenskri skattalöggjöf.
Vaxtastefnan og verðtryggingin eru svo ein furðulegasta helfararstefna seinni ára. Við teljum okkur trú um það að ríkið verði að greiða vaxtabætur ef almenningur hefur ekki efni á að borga fyrir okurvaxtastefnu Seðlabankans, sem heldur uppi háum vöxtum til að slá á þenslu? Þvílík mótsögn. Seðlabankinn hækkar vexti, sem hefur nær engin skammtíma áhrif á yfir 90% húsnæðislána til að slá á þenslu frá degi til dags. Einhver stjórnmálaflokkurinn vildi byrja að fyrirframgreiða vaxtabætur til að ungt fólk gæti komið sér þaki yfir höfuðið og ævilöngu skuldafangelsi í leiðinni.
Væri ekki nær að lækka vexti og afnema verðtryggingu og koma þannig á raunverulegri stjórn Seðlabankans á þenslu í stað þess skrípaleiks sem hér ríkir í peningamálum og vaxtastefnu?
Nú kynnu einhverjir að halda að þetta sé ekki hægt með okkar örsmáa gjaldmiðil og þetta verði aldrei nema með inngöngu í Evrópusambandið. Meira að segja æðstu valdamenn þjóðarinnar hafa haldið þessari staðleysu fram. Staðreyndin er að hægt er að afnema verðtryggingu á nýjum neytendalánum með einfaldri lagasetningu og að lækka vexti er ákvörðun sem hægt er að taka með innan við dags fyrirvara. Er það skynsamlegt er aftur önnur spurning og það er spurningin sem við eigum að spyrja í stað þess að tala um hluti sem skipta engu í þessu samhengi. Það er dapurlegt að æðstu prestar peningamála skuli byggja hugmyndafræði sína á úreltum hagfræðikenningum sem standast ekki nokkra einustu skoðun. Kenningum sem kenndar eru og varðar af Háskólasamfélaginu. Þó eru ljóstírur í myrkrinu því æ fleiri fræðimenn og hagfræðingar eru farnir að átta sig á þessu og við hljótum að binda vonir við að á endanum smitist sú viska yfir í stjórnmálin og forsæti verkalýðshreyfingarinnar.
Verkalýðshreyfingin er peningalegt stórveldi og pólitískt skrímsli sem misst hefur öll tengsl við veruleika vinnandi manna og kvenna.
Af hverju er formaður VR að velta þessu upp? Tala um almannatryggingakerfið og grunnþjónustuna, vexti og húsnæðismál? Á hann ekki að einbeita sér að prósentuhækkunum allra launa og týnast í þeirri helfararpólitík sem þrífst innan hreyfingarinnar? Stofna fleiri sjóði og semja um aukin framlög í þá sem fyrir eru og halda svo bara kjafti. Það er jú gott betur en ágætt að sitja ropandi og pakksaddur á fundum með milljón á mánuði og láta berast með straumnum. Draga svo sængina upp fyrir haus þegar fjárfestingar skandalar lífeyrissjóða fljóta upp eða lobbíistar auðvaldsins ná árangri í gegnum löggjafann.
Aðgerðarleysi hreyfingarinnar í eftirmálum hrunsins er til skammar og verður minnst í sögunni þegar fram líða stundir. Aðgerðarleysi sem verður aldrei fyrirgefið.
Það er til háborinnar skammar að ekki sé hægt að lifa af lágmarkslaunum. Tala nú ekki um í góðæri!
Grunnurinn að lífsgæðum okkar allra er öryggisnetið sem grípur okkur ef eitthvað kemur upp á. Það vita þeir sem hafa lent í alvarlegum veikindum eða atvinnumissi. Það vita þeir sem hafa þurft að flytja hverfa á milli með börn á grunnskólaaldri vegna húsnæðisskorts. Það veit stækkandi hópur þeirra sem nær ekki endum saman.
Við verðum aldrei sterkari sem heild en okkar veikustu bræður og systur. Að standa vörð um grunnin mun sjálfkrafa lyfta heildinni upp.
Við erum ekki að tala um eldflaugavísindi. Það sem ég hef farið stuttlega yfir eru allt auðframkvæmanlegir hlutir og snúast um ákvörðun og stefnu stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar.
Við erum að hjakka í sama hjólfarinu ár eftir ár. Áratug eftir áratug verjum við og plástrum kerfi sem smám saman verða okkar helstu hindranir. Höfundar og ábyrgðarmenn þess komast hærra og hærra í valdastigann og sitja þar fastir.
Verkefnin fram undan eru mörg og áskorun nýrrar ríkisstjórnar er mikil í að sætta almenna og opinbera vinnumarkaðinn með úrskurð kjararáðs í vöggugjöf. Lykillinn að langtíma kjarasamningum er í höndum núverandi ráðamanna sem ég bind enn þá vonir við að hafi hugrekki til stíga fram og stinga á nokkur kerfiskýlin sem hreiðrað hafa um sig meðal þjóðarinnar.
Stóra málið er að almenningur þarf að vakna!
Við erum í þeirri stöðu að æðsti talsmaður alþýðunnar er rúin trausti og kemur fram fyrir okkar hönd sem höfuðlaus her. Samningstaðan gagnvart viðsemjendum okkar verður því aldrei sterkari en það. Ég kalla eftir frekari nýliðun og nýrri hugsun innan verkalýðshreyfingarinnar og kalla eftir því að hún vakni af þeim meðvirknisblundi sem hún hefur sofið árum saman. Félagsmenn stéttarfélaga þurfa að vakna og sjá til þess að við sem erum í forsvari vinnum vinnuna okkar í stað þess að vakna við það einn daginn að vera í frjálsu falli í klóm kerfisins vegna atvinnumissis, erfiðra veikinda eða annara áfalla sem dunið geta á okkur þegar minnst varir.
Megi 2018 verða ár kerfisbreytinga og árið sem við vöknum og nýtum samtakamátt hreyfingarinnar til raunverulegra breytinga.