Árið sem nú er að líða hefur einkennst m.a af pólitískri óvissu. Örum ríkisstjórnarskiptum fylgdu ólíkar áherslur og sýn. Mikilvæg samstarfsverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar liðu því fyrir stöðuna, verkefnum miðaði hægt og önnur komust ekki á dagskrá.
Staðreyndirnar tala sínu máli og ferðamönnum fjölgaði svo um munar. Samtök ferðaþjónustunnar áætla að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni á árinu muni nema 535 milljörðum króna eða ríflega 40% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Vöxturinn hefur verið mikill og tel ég að bæði greinin og þjóðin hafi tekist á við þessar áskoranir með eindæmum vel. Við stöndumst væntingar erlendra ferðamanna og þeir hafa skapað fáheyrðan efnahagsbata. Til að svo megi áfram vera þarf að tryggja sjálfbærni greinarinnar, bæði sjálfbærni náttúru og félags- og efnahagslega sjálfbærni, sem kallar á samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og almennings.
Eitt mál stóð þó upp úr á árinu sem er að líða og var það bæði umdeilt og illa ígrundað og hefði skert samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar ef af hefði orðið. Hér er um ræða áform þáverandi ríkisstjórnar um hækkun VSK á ferðaþjónustuna um 118% og færa greinina þannig úr lægra þrepi VSK kerfisins í það efra sem er án fordæma í helstu samkeppnislöndum okkar. Er rétt að minna á að ferðaþjónustan er útflutningsatvinnugrein, salan fer fram á erlendum markaði í samkeppni við aðra áfangastaði þó að afhending þjónustunnar fari fram á Íslandi. Því getur öll röskun stjórnvalda hér á landi á starfsskilyrðum haft skaðleg áhrif á viðskipti innlendra fyrirtækja þvert á landamæri. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ný ríkisstjórn hefur horfið frá þessum áformum. Sorglegt er þó að hugsa til alls þess tíma og orku sem fór í það að vinda ofan áformum þessum á sama tíma og önnur mikilvæg og uppbyggileg mál sátu á hakanum. Þá olli umræðan ein og sér fyrirtækjum búsifjum.
Þrátt fyrir vöxt undanfarinna ára eru blikur á lofti. Staða fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur almennt veikst enda er ekki línulegt samband milli fjölgunar ferðamanna og afkomu greinarinnar eins og ætla mætti við fyrstu sýn. Fyrirtækin hafa fjárfest verulega í innviðum undanfarin ár eða fyrir um 188 milljarða á tímabilinu 2015-16. Þá hafa miklar launahækkanir tekið í ásamt því að styrking krónunnar og breytt neyslumynstur ferðamanna hefur tekið sinn toll. Stöðugt rekstrarumhverfi, skilvirkt regluverk, uppbygging og skýr sýn eru lykilforsendur jákvæðrar þróunar og hlúa þarf að þeim forsendum.
Þá er mikilvægt að tryggja að allir aðilar sitji við sama borð og greiði skatta og skyldur samkvæmt gildandi lögum. Má þar horfa til þeirra 16,7 milljarða króna tekna sem hérlend íbúðagisting í gegnum Airbnb hefur aflað fyrstu 10 mánuði ársins. Ef sköttum og skyldum af þessum viðskiptum væri skilað í ríkissjóð myndi hann sjálfkrafa vaxa um milljarða, og munar um minna.
Leggja þarf áherslu á að tryggja stöðu ferðaþjónustunnar til framtíðar. Ef umræðan á alfarið, og eingöngu, að snúast um enn frekari gjaldheimtu af greininni í stað uppbyggingar er voðinn vís. Gleymum því ekki að verðmæti og samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna er grundvallarforsenda þess að unnt er að efla aðra inniviði hér á landi, s.s. heilbrigðisþjónustu og menntakerfi þar sem þörf á uppbyggingu er ávallt til staðar. Áætlað er að um 50% af hagvexti síðustu ára megi rekja beint og óbeint til ferðaþjónustunnar og að greinin hafi skilað um 54 milljörðum beint í sjóði ríkis og sveitarfélaga á árinu 2016. Það þarf því að hlúa að mjólkurkúnni.
Vitundavakning hefur átt sér stað um mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt samfélag, sérkennum og áskorunum sem og nauðsyn samtals og samstarfs við greinina. Í lok nýliðins árs tók ný ríkisstjórn til starfa og óska ég henni velfarnaðar og vonast til þess að eiga við hana gott og uppbyggilegt samstarf um hagsmunamál greinarinnar næstu ár. Ég hef miklar væntingar og stjórnarsáttmálinn lofar góðu. Ég vil trúa því að orðum hans fylgi efndir en hefja þarf stórsókn í uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar sem og að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi hennar og sjálfbærni til framtíðar. Þannig er samkeppnishæfni greinarinnar best tryggð sem skilar sér í aukinni hagsæld okkar allra til framtíðar.