Rúmir fjórir mánuðir eru til sveitastjórnarkosninga. Fyrir liggur að flestir flokkarnir sem ætlar sér að bjóða fram í Reykjavík eru í miklum vandræðum með að laða að frambjóðendur sem eru þess eðlis að þeir heilli kjósendur. Margt kemur þar til.
Í fyrsta lagi eru laun borgarfulltrúa ekki samkeppnishæf eins og staðan er í dag. Þau eru nú um 633 þúsund krónur á mánuði, eftir að borgarráð afsalaði sér launahækkun sem Kjararáð hafði veitt borgarfulltrúum óbeint haustið 2016. Launahækkun sem hvorki þingmenn né ráðherrar afsöluðu sér.
Í öðru lagi þykir starfið ekki mjög spennandi, af einhverjum ástæðum. Sérstaklega ef flokkur viðkomandi lendir í minnihluta. Þá eru áhrifin nær engin.
Í þriðja lagi mun borgarfulltrúum fjölga úr 15 í 23 í eftir næstu kosningar, og því þurfa flokkarnir að finna fleiri frambærilega frambjóðendur en áður.
Sjálfstæðisflokkurinn fyrstur í baráttuna
Hjá flestum flokkunum er enn verið að vinna að þessum málum bak við tjöldin, og til stendur að velja eða raða á lista í febrúar eða síðar. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, er þar undanskilin. Þar er hafin barátta um að leiða listann og leiðtogakjörið fer fram 27. janúar næstkomandi.
Alls eru fimm einstaklingar í framboði. Tveir þeirra, Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon, eru reynslumiklir borgarfulltrúar sem höfða til afar mismunandi hópa. Áslaug reynir að höfða til frjálslyndari flokksmanna á meðan að Kjartan virðist áfram sem áður ætla að stóla á íhaldssamari atkvæði í viðleitni sinni við að fá að leiða listann. Þau sátu í þriðja og fjórða sæti á lista flokksins fyrir kosningarnar 2014. Tveir efstu menn þá, Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, verða hvorugir aftur í framboði.
Hinir þrír sem bjóða sig fram sem leiðtogaefni koma, vægast sagt, úr mismunandi áttum.
Eyþór hitti Guðlaug Þór
Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, kemur úr Garðabæ. Hann datt út af þingi í síðustu kosningum og fáir Sjálfstæðismenn sem rætt er við telja að hann eigi nokkra möguleika á góðu gengi í kjörinu sem er fram undan. Vilhjálmur hefur ekki birt neina sérstaka stefnuskrá síðan að hann tilkynnti um framboð.
Eyþór Arnalds er einn stærsti eigandi Morgunblaðsins, var um tíma varaborgarfulltrúi í Reykjavík og síðar oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg árin 2010 til 2014. Hann hefur á undanförnum árum verið umsvifamikill í viðskiptalífinu og Stundin greindi frá því um helgina að hann væri stjórnarmaður í alls 26 eignarhaldsfélögum og fyrirtækjum. Slík umsvif eru líkast til nær einstök hjá manni sem sækist eftir því að verða kjörinn fulltrúi. Hann sagði í áðurnefndri frétt Stundarinnar að hann myndi forðast alla hagsmunaárekstra og fara út úr öllum fyrirtækjum ef „allt gengur eftir.“ Eyþór sagði enn fremur að hann væri sammála því að það væri mikilvægt að menn aðskilji viðskipti og stjórnmál.
Viðmælendur Kjarnans segja að staða Eyþórs sé mjög sterk, sérstaklega vegna þess að hann og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hittust á fundi í síðustu viku. Það þykir benda til þess að kosningavél Guðlaugs Þórs, sem er fyrrverandi borgarfulltrúi með mjög sterka stöðu í Sjálfstæðisfélögum í Reykjavík, muni fylkja sér á bak við Eyþór. Hann virðist líka njóta stuðnings hjá Morgunblaðinu, fjölmiðils sem hann á 22,87 prósent hlut í, sem vitnaði meðal annars í aðsenda grein hans á forsíðu síðastliðinn mánudag.
Harðlínu-hægrimaður verður martröð einhvers
Þá stendur eftir Viðar Guðjohnsen, sem segist vera harðlínu-hægrimaður og lítur á alla sem aumingja nema „hina duglegu“. Hann lítur á fólk í yfirþyngd sem byrði á samfélaginu sem ósanngjarnt sé að „hinir duglegu“ þurfi að axla ábyrgð á, er andsnúinn því að erlendum „rónum“ verði veitt húsaskjól á vegum borgarinnar, að „sá duglegi“ sé látinn borga fyrir að láta ofdekrað ungt fólk hanga í skólum, að allt of margir grunnskólakennarar séu konur og telur að ef konur sem hafi ekki efni eða tíma til að eiga börn eigi ekki að vera að gera það því hann vilji „ekki borga fyrir annarra manna börn.“
Viðar telur múslima líka hafa ýmislegt fram yfir aðra. Íslendingar séu til dæmis að „dekstra homma, lesbíur og transfólk en við viljum ekki leyfa fjölkvæni. Af hverju má það frelsi ekki vera. Af hverju erum við svona ófrjáls? Af hverju er svona æðislegt að þjóna hommum og lesbíum? Það á auðvitað að leyfa fjölkvæni hér á landi. Sjáið til dæmis Gylfa Þór Sigurðsson. Hann er hraustur og á nóg af peningum. Væri ekki betra ef hann ætti fullt af börnum?“
Viðar vill líka stöðvar framlög til íþróttahreyfinga, vill að Reykjavíkurflugvöllur verði þar sem hann er og telur samgöngumál höfuðborgarinnar í algjörum ólestri. Svo fátt eitt sé nefnt.
Samandregið þá segist Viðar vera martröð jafnaðarmannsins. En líklegra verður að teljast að hann sé martröð hins venjulega sjálfstæðismanns. Flokks sem telur sig vera breiðfylkingu, vill að minnsta kosti í orði vera valkostur fyrir frjálslynt fólk og rak kosningabaráttu fyrir síðustu þingkosningar með loforðum um útgjaldaaukningu upp á 100 milljarða króna í samgöngur, menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem helsta áherslumál.
Baráttan við snjókornin
Áætlun Viðars virðist vera Trumpísk. Allt sem hann segir opinberlega er til þess fallið að vekja upp hneykslun. Að æra „góða fólkið“ sem leggur mesta áherslu á fínni blæbrigði stjórnmálanna eins og jafnrétti, mannréttindi, jöfnuð, umhverfismál og sterkt velferðarkerfi sem grípur alla sem það þarf að grípa.
Í Bandaríkjunum er góða fólkið aldrei kallað annað en snjókornin (e. snowflakes) af harðlínumönnum af sama meiði og Viðar. Orðatiltækið er tekið úr skáldsögunni Fight Club eftir Chuck Palahniuk og er notað á niðrandi hátt um þá sem móðgast fyrir hönd annarra, telja sig sérstakari en aðrir og eru ekki jafn harðgerir og fyrri kynslóðir.
Vandamálið við að beita þessari áætlun í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík er það að hvergi á Íslandi eru fleiri snjókorn en í höfuðborginni. Í síðustu Alþingiskosningum náðu vinstri menn, jafnaðarmenn og frjálslynd öfl (Vinstri græn, Samfylking, Viðreisn og Píratar) til að mynda nokkuð góðum meirihluta atkvæða í báðum Reykjavíkurkjördæmunum á meðan að flokkarnir fjórir voru saman langt frá því í hinum kjördæmunum sex. Allt eru þetta flokkar með snjókorna-áherslur á oddinum. Þetta eru líka þau kjördæmi sem Sjálfstæðisflokkurinn er í einna mestum vandræðum og fylgi hans í höfuðborginni er töluvert undir fylgi hans á landsvísu. Þetta er aðferð sem dugar kannski fyrir flokka sem þurfa að hífa sig upp úr eins prósents fylgi og í tíu prósent, líkt og Framsókn og flugvallarvinir gerðu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar með daðri við rasisma. En hún mun ekkert gagnast flokki sem vill smíða ofan á 25 prósent kjarnafylgið sitt. Þvert á móti mun hún fæla nýja kjósendur frá.
Ætla mætti að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að breikka sig gagnvart kjósendum ef hann ætlaði sér að ná betri árangri í borginni en hann hefur náð síðastliðinn aldarfjórðung.
Ljóst er að framboð Viðars og hans málflutningur sendir ekki út þau skilaboð að snjókorn höfuðborgarinnar eigi samleið með Sjálfstæðisflokknum.
Baráttan við Sjálfstæðisflokkinn
Kjarninn greindi frá því á laugardag að fjórir af þeim fimm sem sækjast eftir leiðtogasæti hjá Sjálfstæðisflokknum leggi áherslu á að vera á móti Borgarlínu, almenningssamgöngukerfi í sérrými sem áætlar er að liggi um allt höfuðborgarsvæðið og muni á endanum kosta 63-70 milljarða króna. Eini frambjóðandinn sem er fylgjandi Borgarlínuverkefninu er Áslaug Friðriksdóttir.
Ef einhver þeirra sem er á móti því verður leiðtogi Sjálfstæðisflokks í komandi borgarstjórnarkosningum þá blasir við sérkennilegur slagur fyrir viðkomandi. Þannig er að Borgarlína er samvinnuverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði, ekki einkamál Reykjavíkur. Að verkefninu standa því líka Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Í desember 2016 skrifuðu fulltrúar allra þeirra undir samninga um innleiðingu Borgarlínu. Og í öllum hinum fimm sveitarfélögunum utan Reykjavíkur er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta. Ef borgarstjórnarflokkur hans ætlar að berjast gegn Borgarlínu þá verður hann því í baráttu gegn Sjálfstæðisflokknum í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
Þá er ótalið að ríkisstjórn Íslands, sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í, styður líka gerð Borgarlínu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsþætti Kjarnans í desember 2017 að þess myndi sjást stað í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem lögð verður fram í vor, að ríkið ætlar sér að leggja fé til þess að Borgarlínan verði að veruleika. Um það væri samstaða í ríkisstjórn.
Ef borgarstjórnarflokkur hans ætlar að berjast gegn Borgarlínu þá verður hann því í baráttu gegn Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn landsins.
Í átt frá því sem eftirspurn er eftir
Þess utan má telja það líklegt að komandi borgarstjórnarkosningar muni ekki bara snúast um malbik, mislæg gatnamót, bíla og almenningssamgöngur. Þau munu mun frekar snúast um þá þjónustu sem borgin getur veitt íbúum sínum. Til að mynda í dagvistunarmálum, húsnæðismálum og í þjónustu við aldraða og fatlaða. Þessi mál eru ekki áberandi í þeim áherslum sem flestir frambjóðendur í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni hafa sett fram til þessa, ef Áslaug Friðriksdóttir er frátalin.
Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki riðið feitum hesti frá borgarstjórnarkosningum frá því að R-listinn náði völdum árið 1994, og ef frá er talið hið kostulega kjörtímabil frá 2006 til 2010 þegar hann sat í þremur meirihlutum af fjórum, þá skýtur það skökku við að flokkurinn reyni ekki að teygja sig nær því sem augljóslega er eftirspurn eftir í borginni.
Ef horft er yfir þann hóp sem sækist eftir leiðtogasætinu á lista flokksins virðist þó sem flestir þeirra muni láta slíkt vera, komist þeir í oddvitasætið.