Á Íslandi er stéttarfélagsaðild mun útbreiddari en á hinum Norðurlöndunum því hér greiða um 90% starfandi á vinnumarkaði í stéttarfélag. Þetta ætti að gefa verkalýðshreyfingunni í heild mikla vigt í efnahagslegu samhengi þegar kemur að ákvörðunum stjórnvalda sem hafa áhrif á kjör félagsmanna en það er stór spurning hvort nægilegt tillit er tekið til sjónarmiða verkalýðshreyfingarinnar þegar ákvarðanir um efnahagsmál eru teknar.
VR – Virðing og réttlæti
VR er eitt af stærstu stéttarfélögum landsins með um 36 þúsund félagsmenn. Félagið stendur sterkum fótum og þjónustar sína félagsmenn með margvíslegum hætti. Mikil breidd er í félaginu en félagsmenn eru allt frá ófaglærðum starfsmönnum í afgreiðslu- og þjónustustörfum til sérfræðinga og framkvæmdastjóra í fjölmörgum starfsgreinum.
VR hefur margoft tekið forrystu í mikilvægum málum sem varða réttindi launþega og má þar nefna Jafnlaunavottun sem félagið veitti fyrirtækjum sem greiddu jöfn laun til beggja kynja og sem voru undanfari þess að sett voru lög um að fyrirtæki mismuni ekki launþegum eftir kyni en þessi lög hafa vakið mikla athygli langt út fyrir landsteinana og eru til mikillar fyrirmyndar. Stjórn félagsins er skipuð 15 félagsmönnum þar sem jafnt kynjahlutfall er skilyrði og kosning er rafræn þannig að allir félagsmenn geta kosið sinn fulltrúa í rólegheitum heima hjá sér. Sama á við um kosningu formanns sem þannig sækir beint umboð til allra félagsmanna á tveggja ára fresti.
Stjórn VR leggur áherslu á hækkun persónuafsláttar sem eitt af hagsmunamálum launþega í næstu kjarasamningum og sendi frá sér ályktun þess efnis síðasta haust. Formaður félagsins situr í samninganefnd ASÍ en kjarasamningur aðildarfélaga ASÍ rennur út í lok ársins en í samningnum er uppsagnarákvæði sem rennur út í lok febrúar. Ljóst er að stórir hópar launþega í verkalýðshreyfingunni eru að bera skarðan hlut frá borði með launum sem ekki duga til framfærslu eftir marga ára starf á vinnumarkaði og það verður að bæta kjör þeirra án þess að stofna í hættu þeim efnahagsávinningi sem felst í öflugri hagstjórn og lágri verðbólgu.
Stefnumótun VR til framtíðar
Stjórn VR vinnur nú að stefnumótun en mikilvægt er að taka naflaskoðun reglulega til að skoða innri og ytri málefni sem snerta félagið. Eitt af þeim málum sem hafa verið til skoðunum er ytra samstarf við önnur samtök á launþegamarkaði eins og Landsamband íslenskra verslunarmanna og ASÍ. Þar þarf fyrst og fremst að hugsa útfrá hagsmunum félagsmanna til lengri tíma litið og vega kosti og galla þess að vera hluti af stærri heild. Þegar kemur að kjarasamningum þá er samningarétturinn er alltaf hjá VR og þar getur félagið gengið í takt við önnur samtök alveg burtséð frá því með hvaða hætti aðild að öðrum samtökum er háttað.
Fjórða iðnbyltingin er handan við hornið
Margar stórar áskoranir eru framundan en fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á störfum félagsmanna á næstu árum með þeim tæknibreytingum sem við nefnum fjórðu iðnbyltinguna. Við þurfum að taka til skoðunar starfsheiti og vinnutíma til að mæta nýjum tímum sem eru handan við hornið og tryggja að félagsmenn hafi aðgang að endurmenntun til að geta mætt nýjum störfum sem munu þróast kannski mun hraðar en okkur órar fyrir.
Höfundur er varaformaður VR og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.