Það er ekki oft sem að umræða íslenskra fjölmiðla beinist að konum af erlendum uppruna. Undanfarnar vikur hafa fyrirsagnir fréttanna verið hræðilegar og þeim hafa fylgt óhugnanlegar sögur af kynferðislegri misnotkun og heimilisofbeldi sem konur af erlendum uppruna hafa þurft að þola á Íslandi af hálfu ókunnugra, maka og yfirmanna, sumir hverjir hafa verið íslenskir en aðrir ekki. Ég velti því fyrir mér, hvernig má það vera að þetta sé að koma fyrir nokkurn í landi sem var í fyrsta sæti árið 2017 að mati Friðarvísitölunnar (e. Global Peace Index og í þriðja sæti samkvæmt skýrslu World Happiness Report? Fyrir þeim sem líta hlutlausum augum á landið okkar virðist það vera paradís.
Ég hef búið á Íslandi í 30 ár, ég er kona af erlendum uppruna! Móðir mín er íslensk og kom ég til landsins 19 ára að aldri í heimsókn. Ég hvorki talaði né skildi íslensku, en ég ákvað að vera um kyrrt. Ólíkt þeim ótalmörgu sögum sem við höfum fengið að heyra síðastliðna viku hefur líf mitt á Íslandi verið gott. Við komu mína til landsins bjó ég yfir tengslaneti sem stóran hluta erlendra kvenna skortir. Ég átti fjölskyldu og að lokum kynntist ég dásamlegum manni sem hjálpaði mér að byggja upp stórkostlegt líf á Íslandi.
Á árunum sem ég hef búið hérna á Íslandi hef ég heyrt hræðilegar sögur af heimilisofbeldi og kynferðislegri misnotkun, en það er ekkert í samanburði við það sem ég hef heyrt frá því að ég hóf störf hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, þar sem að ég gegni formannsstöðu í dag.
Samtök kvenna af erlendum uppruna voru stofnuð þann 24. október árið 2003 á kvennafrídeginum. Hlutverk samtakanna er að sameina, takast á við og ljá hagsmunum- og áhugamálum þeirra kvenna sem sest hafa að á Íslandi rödd. Markmið samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum þjóðlífsins. Samtök okkar eru í einu og öllu starfrækt af sjálfboðaliðum og höfum við átt þeirri gæfu að fagna í gegnum tíðina að hljóta styrki og framlög sem halda lífi í samtökunum.
Nicole Mosty hafði samband við samtök okkar þegar #metoo-hreyfingin hreif landann. Konur alls staðar að voru að koma fram með harmþrungnar sögur, þrátt fyrir þetta þögðu konur af erlendum uppruna. Nicole datt þá á það ráð að stofna leynilegan hóp fyrir konur af erlendum uppruna þar sem að þær gætu deilt sögum sínum undir nafnleynd og bað hún okkur um samstarf. Hópurinn óx á ógnarhraða á örfáum dögum og fóru konur að deila sögum sínum með Nicole sjálfri. Þá fór Nicole með þessar sögur í fjölmiðlanna að gefnu samþykki kvennanna sem deilt höfðu sögum sínum.
Stóra spurningin er þá, hvað tekur við? Hvernig höldum við áfram án þess að gleyma því sem við vitum nú? Hvernig finnum við lausnir á þessum vanda?
Þann 8. febrúar munu Nicole Mosty og Samtök kvenna af erlendum uppruna halda #metoo-viðburð fyrir konur af erlendum uppruna undir yfirheitinu „Information is Empowerment“. Viðburðurinn fer fram á ensku.
Við fáum fulltrúa frá lögreglunni, Kvennaathvarfinu og Bjarkarhlíð sem munu kynna starfsemi sína fyrir þeim konum sem mæta. Það verða einnig hópaumræður þar sem að konurnar verða spurðar að því hvernig þær telja best að halda áfram og hvort að þær búi yfir lausnum. Við hvetjum allar konur af erlendum uppruna til þess að skrá komu sína (metoo@womeniniceland.is), ef ekki fyrir sig, þá fyrir kynsystur sínar sem þurfa á stuðningi að halda.