Er okkur félagsmönnum í Eflingu-stéttarfélagi sjálfum ekki treystandi fyrir okkar eigin félagi? Er okkur ekki treystandi fyrir því að standa fyrir kosningum um forystu okkar eins og hingað til? Þurfum við utanaðkomandi aðstoð til að hafa réttar skoðanir og kjósa nú rétt í komandi formanns- og stjórnarkosningum í Eflingu? Þvílíkt vantraust á félaga Eflinga. Hingað til hafa verið kosningar í Eflingu og öðrum félögum án utanaðkomandi afskipta. Áróður forystumanna nokkurra annarra stéttarfélaga gengur út á það að stilla Eflingu upp sem vondu grýlunni sem öllu ráði innan ASÍ. Það er auðvitað algerlega tilhæfulaust. Þeir sem þekkja ASÍ vita að sambandið er með forystu sem er valin á fjölmennu ASÍ þingi. Efling-stéttarfélag ræður þar ekki framvindu nema í samræmi við styrk sinn og stöðu.
Þeir forystumenn sem hafa deilt mest á Eflingu-stéttarfélag eru í stéttarfélögum sem bera jafn mikla ábyrgð á síðustu kjarasamningum og Efling-stéttarfélag. Ég veit ekki betur en að félagsmenn í VR og Verkalýðsfélagi Akraness hafi samþykkt sömu kjarasamninga og Efling og niðurstaðan hafi verið ákveðin af almennum félagsmönnum í atkvæðagreiðslu um samningana eins og í Flóanum og Eflingu.
Mér finnst það líka mjög sérkennilegt og lúalegt af formönnum annarra stéttarfélaga að beita sér gegn réttkjörinni stjórn Eflingar þegar markmið þeirra er augljóslega að hafa áhrif á niðurstöður í kosningum í Eflingu til að bæta sína eigin stöðu innan Alþýðusambandsins. Þetta er óafsakanleg framkoma að mínu mati. Hvar erum við komin þegar forystumenn þurfa að vega hver annan með þessum hætti en treysta sér ekki til að standa og falla á eigin forsendum sinna eigin stéttarfélaga?
Niðurstaða mín er sú að við félagsmenn í Eflingu-stéttarfélagi eigum að standa fast á sjálfsákvörðunarrétti félagsins til að ákveða sína eigin forystu og sína framtíð. Það er heldur ekki í lagi að stjórnmálaflokkur skuli vera með afskipti af kosningum innan stéttarfélaganna. Þessi afskipti stjórnmálaafla eru ekki í lagi og verða aldrei í lagi. Ef við líðum stjórnmálaöflum þetta, þá geta aðrir stjórnmálaflokkar komið á þröskuldinn og þá er verkalýðsbaráttan fyrir bí - verkalýðsflokkar og stjórnmálaflokkar eiga ekki samleið og það hefur verið sátt um þetta innan stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingar áratugum saman.
Ég tel að með svona vinnubrögðum muni ekkert ávinnast nema illindi milli félaga og forystumanna. Ég tel að hver maður eigi að standa og falla með sjálfum sér og sínum félögum sama hvaðan hann kemur eða hverra manna hann er. Hvað er ömurlegra fyrir stéttarfélag en forystumenn sem eru verkfæri í höndum stjórnmálaflokks sem vill ná völdum innan stéttarfélags.
Það eru líka því miður allt of mikil ósannindi í gangi um Eflingu, stjórn félagsins og starfsmenn. Því er haldið fram að Efling standi ekki með erlendum verkamönnum. Það er fásinna að halda þessu fram. Stór hluti félagsins er af erlendu bergi brotinn og þessir félagsmenn eru duglegir að sækja sín réttindi til félagsins hvort sem er í styrkjum eða öðru og félagið vinnur jafn mikið í launakröfum fyrir þá og aðra félagsmenn. Það kom fram í gagnrýni á félagið að í stjórn Eflingar sæti bara verkafólk. En hvar er grasrótin ef það er ekki einmitt verkafólkið sem á að vera fulltrúar í stjórninni. Að verkamenn eigi að vera róttækir sósíalistar er bara gömul klisja sem mjög fátt fólk innan Eflingar styður, fullyrði ég.
Í verkalýðsfélögunum erum við með mismikla menntun að baki og vinnum mörg ólík störf. Við eigum að standa stolt og gæta okkar réttinda í hvaða félagi sem við erum og aldrei að líða fullyrðingar um að okkur sé ekki treystandi fyrir eigin félagi.
Mætum á kjörstað og sýnum hug okkar í verki að okkur sé treystandi fyrir okkar eigin félagi og að við viljum ekki pólitísk afskipti af okkar málum í Eflingu.
Þess vegna kjósum við A-listann í kosningum fram undan!
Höfundur er trúnaðarmaður hjá Össuri og situr í stjórn Eflingar-stéttarfélags.