Ég verð að segja að það særir mig og svekkir að lesa í Fréttablaðinu og á samfélagsmiðlum þessa dagana það sem haft er eftir fólki sem skipar B-lista til stjórnarkjörs í Eflingu og mörgum stuðningsmönnum sem eru ekki einu sinni félagsmenn. Þau lýsa starfsfólki Eflingar eins og það sé ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, sé ekki starfi sínu vaxið og því algerlega óhæft starfsfólk. Þessar fullyrðingar, þó í kosningabaráttu sé, eru ósannar og ósanngjarnar og ég vil mótmæla þessum ávirðingum. Fólkið á B-lista þekkir ekkert til starfa á skrifstofu Eflingar eða félagsstarfa þar sem það hefur aldrei skipt sér af félaginu eða komið að starfi þess.
Það fer ekki á milli mála hjá starfsfólki að það eru kosningar í nánd í félaginu. Það er eðlilegt að tekist sé á í kosningum. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá A-lista stjórnar og trúnaðarráðs hefur engu efni A-listans fengið að komast að í Fréttablaðinu og Visi.is. Þess vegna er það sárar en ella að við skulum í drottningarviðtali við Sólveigu Önnu, og stuðningsmenn hennar um helgina, þurfa að sætta okkur við svona fullyrðingar: „Þetta fólk á að vera í vinnu fyrir okkur og virðist ekki hafa minnsta áhuga á því.“
Ég bara get ekki sætt mig við svona ósanngjarnan og ljótan málflutning um starfsfólk Eflingar sem leggur sig allt fram við að vinna af fagmennsku og samviskusamlega fyrir félagsmenn Eflingar. Starfsfólkið á ekki svona málflutning skilið.
Starfsfólk í öllum deildum félagsins tekur vel á móti félagsmönnum til að leiðbeina þeim og liðsinna á margvíslegan hátt. Í kjaramálum eru margir þjónustufulltrúar og lögmenn okkar sem hjálpa fólki í réttindamálum og innheimta fyrir þau vangoldin laun sem skipta milljónum á mánuði.
Starfsmenn í sjúkrasjóðnum taka á móti félagsmönnum sem margir hverjir koma á sínum erfiðum stundum vegna andláts í fjölskyldunni, veikinda eða af einhverjum öðrum ástæðum og þeir sem betur fer eiga skjól í sjúkrasjóðnum og starfsmönnum. Starfsmenn Eflingar sem vinna sem ráðgjafar VIRK endurhæfingarsjóðs eru að aðstoða félagsmenn til að komast á vinnumarkaðinn aftur eða í rétt úrræði eftir veikindi og eru sannarlega starfi sínu vaxnir.
Starfsfólk okkar í Eflingu þarf nú að að hlusta á símtöl þessa daga og haturspósta þar sem er hraunað yfir það vegna þess að það er búið að ausa óhróðri yfir starfsmenn og stjórnarmenn linnulaust í Fréttablaðinu og á Visi.is undanfarið. Ég vona bara að almennir félagsmenn sem hafa notið góðrar þjónustu Eflingar undanfarin ár muni heldur ekki sætta sig við að félagið og starfsfólk þess sé dregið þannig niður í skítinn. Þetta er ósættanlegt og til háborinnar skammar fyrir rambjóðendur B-listans og stuðningsmenn hans.