Fyrir 14 árum síðan bauðst mér staða úti á landi. Starfið var gott, með meiri tekjum heldur en ég hafði þá í vinnunni og aukavinnunni samtals. Okkur bauðst húsnæði á ekki allt of mikinn pening. Ýmis kostnaður sem fylgir því að reka fjölskyldu var ofurlítið lægri en á höfuðborgarsvæðinu en sumt dýrara eins og gengur, til dæmis orkukostnaður.
Ég ætlaði að vera eitt ár og sjá svo til. Ég sit sem fastast.
Úti á landi er ótal margt sem heldur í mann annað en efnahagslegir þættir. Síðan ég flutti hef ég eignast fjölda vina, ég nýt þess að fara út í ægifagra náttúru landsins sem er fólki óneitanlega nær heldur en þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þótt ekki væri nema vegna þess að það tekur fólk styttri tíma að fara út að leika. Fjarlægðir eru yfirleitt minni og hlutirnir taka því minni tíma; að fara út í búð, að skreppa með börn (ef það þarf að skreppa með þau yfir höfuð) og að koma sér til vinnu.
Þrátt fyrir þetta finn ég alltaf ákveðna gleði í sinni þegar ég kem til Reykjavíkur. Þetta er staðurinn sem fóstraði mig ungan, staðurinn sem þrátt fyrir allt er kunnuglegri en flest. Heima.
Flóttamenn, hvort sem það eru kvótaflóttamenn eða þeir sem hingað hafa komist af eigin rammleik og farið í gegnum ferli Útlendingastofnunar og hlotið stöðu flóttamanns, hafa ekki haft þetta sama val ég. Þeim bauðst ekki betra starf. Þeim bauðst ekki að lækka kostnað og auka við lífsgæði sín. Þeir hröktust af stað eftir að heimili þeirra voru sprengd í rúst, eftir að ættingjar og vinir höfðu látist vegna stríðsátaka eða týnst. Sumir hafa jafnvel gengið í gegnum þá reynslu að ættingjar og vinir hafa verið teknir af lífi fyrir framan augun á þeim.
Þau búa ekki við þann lúxus að geta farið í nostalgíuferðir heim.
Það eru átök víða í heiminum. Að öllum líkindum er flóttamannastraumurinn til Evrópu ekkert í rénun á næstu árum, ef til vill áratugum. Ísland er vissulega eyja langt úti í hafi, en samt sem áður kemur hingað þó nokkur fjöldi fólks í leit að betra lífi og skjóli, bæði innflytjendur og flóttamenn. Á síðasta ári sóttu 1096 manns um alþjóðlega vernd á Íslandi. 135 manns fengu ýmist alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þetta gerist á sama tíma og erfitt er að finna sér húsnæði á Íslandi. Hinn aukni fjöldi flóttamanna sem þarfnast aðstoðar veldur einnig auknu álagi á félagsþjónustu sveitarfélaga, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir eru flestir.
Íslendingum hefur borið gæfa til þess að búa í gjöfulu og friðsælu landi. Það er þjóðinni til sóma að henni ofbýður fréttir af stríðsátökum og hörmungum víða um lönd og vill gera eitthvað. Bjóða flóttamenn velkomna, eins og sannaðist einna best í „kæru Eygló“ umræðunni 2015. Í kjölfar þeirrar umræðu buðu mörg sveitarfélög á landsbyggðinni fram krafta sína í því að taka á móti flóttamönnum bæði fyrir austan land og vestan. Þessi sveitarfélög hafa nú raungert þennan vilja sinn með móttöku flóttamanna bæði frá Írak og Sýrlandi. Þau hafa einnig, þótt í litlum mæli sé enn um sinn, verið að taka á móti fólki sem hefur farið í gegnum umsóknarferli um alþjóðlega vernd.
Það er nefnilega þannig að hin friðsælu og góðu samfélög út um allt land eru full af fólki sem bæði getur og vill taka á móti aðkomumönnum, flóttafólki sem og öðrum, með opin hug og hjarta.
Höfundur er forstöðumaður Fjölmenningarseturs.