Það kom fáum á óvart að vantrauststillaga á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi verið felld í atkvæðagreiðslu í þinginu í liðinni viku. Enda var það líkast til ekki tilgangur þeirra sem lögðu fram tillöguna. Hann var mun frekar sá að láta Vinstri græn enn og aftur, og hvern þingmann flokksins fyrir sig, stíga fram að verja ráðherra sem framið hafði brot í starfi sem flokkurinn og þingmenn hans höfðu gagnrýnt harðlega áður en þau settust í ríkisstjórn.
Við blasti að þeir tveir þingmenn Vinstri grænna sem höfðu ekki stutt ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, væru stóru óvissuþættirnir í atkvæðagreiðslunni. Þau studdu bæði tillöguna og við það fór stjórnarmeirihlutinn formlega úr 35 þingmönnum í 33. Það má því segja að stjórnarandstöðuflokkunum, sérstaklega þeim sem berjast við Vinstri græn um félagshyggjuatkvæði, hafi tekist ætlunarverkið, að menga flokk forsætisráðherra. Og það nokkrum vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar.
Auk þess var augljóst að öðrum þingmönnum Vinstri grænna þótti erfitt að koma upp og verja dómsmálaráðherrann. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði til að mynda í ræðu sinni að hann hafi verið mótfallinn þeim ákvörðunum og embættisverkum Sigríðar sem vantrauststillagan snérist um, en að hann styddi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þess vegna segði hann nei.
Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni að vantrauststillagan snérist ekki um dómsmálaráðherra heldur ríkisstjórnina í heild. „Það er alveg ljóst að skaðinn er skeður. Þegar er búið að vinna þau embættisverk sem eru ástæða þessarar umræðu. Það var gert í síðustu ríkisstjórn landsins, fyrir síðustu kosningar. Ef vantrauststillagan verður samþykkt getur tvennt gerst; annaðhvort að ráðherrann fari og nýr dómsmálaráðherra taki við[...]Hitt sem gæti gerst væri að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgæfi ríkisstjórnina og þar með væri hún úr sögunni. Vil ég aðra ríkisstjórn án Alþingiskosninga, aðra en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Mitt svar er nei.“
Snerist um ríkisstjórnina, ekki brot ráðherra
Þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, gerði grein fyrir atkvæði sínu sagði hún að Vinstri græn hefðu tekið sæti í ríkisstjórn „vitandi af því að Hæstiréttur gæti staðfest niðurstöðu héraðsdóms. Það hefur verið margrætt af okkar hálfu. Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef vantraust verður samþykkt. Við myndum líta þannig á ef málið sneri að okkur, annað er einföldun á pólitíkinni að mínu mati.“
Af orðum ofangreinda þingmanna er ljóst að þeir voru ekki efnislega ósammála vantrauststillögunni. Þeir telja að Sigríður hafi brotið af sér í starfi. Það sé hins vegar þannig að ef þau samþykki að setja hana af sem ráðherra falli ríkisstjórnin. Þess vegna sé í lagi að kyngja lögbrotum ráðherra sem þau fordæmdu áður. Tilgangurinn helgar meðalið.
Þetta fólk mun þurfa að verja Sigríði áfram til að halda ríkisstjórninni saman. Áfram mun verða tekist á um hæfi þeirra dómara sem hún tilnefndi en hæfnisnefndin hafði ekki valið til að sitja í Landsrétti. Auk þess hafa tveir þeirra sem metnir voru á meðal hæfustu umsækjendanna höfðað bótamál sem að öllum líkindum mun kosta ríkissjóð að minnsta kosti tugi milljóna króna.
Hræsni
Þess utan er afstaða bæði Vinstri grænna og sumra Framsóknarmanna í málinu ævintýraleg hræsni. Þekkt er að í júní 2017 skrifuðu Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, nú heilbrigðisráðherra, fræga grein á vef Vinstri grænna sem fjallaði meðal annars um Landsréttarmálið. Þar stóð: „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endan á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“ Þær greiddu báðar atkvæði gegn vantrausti á sama ráðherra í vikunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifaði líka bloggfærslu 10. febrúar 2011. Þá hafði Hæstiréttur nýverið fellt dóm sinn í máli Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, sem braut lög þegar hún hún synjaði aðalskipulagi Flóahrepps staðfestingar. Í bloggfærslunni sagði Sigurður Ingi: „Nú hefur æðsti dómstóll landsins talað – ráðherrann braut landslög. Afleiðing af slíkum embættisafglöpum (sem margir reyndu að benda ráðherranum á í tíma) – afleiðingin hlýtur að verða afsögn ráðherrans. Annað væri staðfesting á því að við höfum ekkert lært af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Því vil ég ekki trúa.“
Daginn eftir skrifaði hann aðra bloggfærslu þar sem hann sagði m.a. að í ljós hafi komið að embættismenn „túlkuðu lögin rétt en ráðherrann rangt. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af Rannsóknarskýrslu Alþingis?“ Sigurður Ingi bætti svo við að „aðalatriðið í þessu máli er hins vegar að umhverfisráðherra braut lög. Eftir ráðherranum hefur verið haft – bæði í fjölmiðlum og á þingi – að hún sé í pólitík og allar ákvarðanir hennar séu pólitískar. Engin afsögn. Engin iðrun. Engin afsökunarbeiðni.“
Í ræðu sinni um vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen í vikunni var komið heldur betur annað hljóð í strokk Sigurðar Inga. Þá sagði hann uppákomuna „léttvæga“ og að hann væri „ekki viss um að þessi uppákoma auki traust á stjórnmálum eða Alþingi. Ég er sannfærður um að svo sé ekki og ég styð ekki þessa tillögu.“
Gengið á pólitíska inneign
Það er ekki leyndarmál að sá mikli meðbyr sem ríkisstjórnin fékk þegar hún var mynduð er að miklu leyti bundinn við mikla pólitíska inneign Katrínar Jakobsdóttur. Traust á ríkisstjórnina, sem hafði hafði verið í sögulegu lágmarki þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hrökklaðist frá í fyrrahaust, rauk upp í 74,1 prósent í fyrstu mælingu Gallup á stöðu þeirrar sem tók við af henni. Það er langmesti stuðningur sem nokkur ríkisstjórn hefur notið eftir hrun. Líkast til var almenningur orðinn dauðþreyttur á stanslausum hneykslismálum og hagsmunaárekstrum leiðtoga ríkisstjórna. Katrín hefur enga sögu um viðskiptaþátttöku. Hún hefur aldrei átt aflandsfélag eða fengið neitt afskrifað. Hún býr í blokk, veit hvað líter af mjólk kostar og almenningur lítur á hana sem einstakling sem getur sett sig í spor hins venjulega landsmanns. Þess vegna var stuðningur við Katrínu í embætti forsætisráðherra jafn mikill og raun bar vitni, þvert á flokka.
Það blasir hins vegar við að vera Sigríðar Á. Andersen í ríkisstjórninni veikir hana verulega. Í nýlegri könnun Maskínu sögðu 72,5 prósent aðspurðra að þeir teldu að Sigríður ætti að segja af sér embætti. Níu af hverjum tíu kjósendum Vinstri grænna voru þeirrar skoðunar og sjö af hverjum tíu kjósendum Framsóknarflokksins. Meira að segja er fjórði hver kjósandi Sjálfstæðisflokksins á þeirri skoðun.
Stuðningur við ríkisstjórnina er líka að falla mjög hratt og dróst saman um heil tíu prósentustig frá áramótum. Það er svipað og stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar féll á fyrstu mánuðum tilveru hennar. Sú ríkisstjórn nauð um 36 prósent fylgis þegar hún sprakk á endanum með birtingu Panamaskjalanna. Það er enginn vafi á að Landsréttarmálið spilar stóra rullu í minnkandi vinsældum núverandi ríkisstjórnar.
Enn alvarlegra er að traust á dómstóla er að hrynja. Það minnkaði um sjö prósent í fyrra og einungis rúmlega þriðji hver landsmaður treystir í dag dómskerfinu. Þar eru ákvarðanir dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu án nokkurs vafa ráðandi ástæða.
Önnur stofnun sem missti mikið traust í fyrra var lögreglan, sem heyrir einnig undir ráðuneyti Sigríðar. Alls minnkaði traust til hennar um átta prósent. Eina stofnunin sem missti einnig svo mikið traust á síðasta ári var þjóðkirkjan, sem átti sitt versta ár frá því að þöggun hennar yfir meintum kynferðisbrotum Ólafs Skúlasonar var opinberuð árið 2010.
Ríkisstjórn Sigríðar
Þrátt fyrir allt ofangreint þá situr Sigríður sem fastast. Það er öllum ljóst að auðveldast væri að víkja henni til hliðar, þó ekki væri annað en að setja hana í annað ráðuneyti. Það myndi létta utanaðkomandi þrýstingnum á Katrínu, Bjarna og ríkisstjórninni allri og kaupa handa henni starfsfrið. Sá ávinningur er þó af einhverjum ástæðu talin fórnarinnar virði svo Sigríður Á. Andersen geti verið dómsmálaráðherra.
Í raun má segja að ríkisstjórnin hafi verið byggð upp í kringum það að Sigríður myndi áfram sitja á þeim stóli. Það var ófrávíkjanleg krafa að hálfu Sjálfstæðisflokks í stjórnarmyndunarviðræðum að þannig yrði málum háttað og ekkert svigrúm var til víkja frá þeirri stöðu. Af hverju liggur ekki alveg fyrir.
Kannski er það hluti af innanflokksmálum í Sjálfstæðisflokknum þar sem forystan þarf á stuðningi Sigríðar og hörðustu fylgismanna hennar að halda til að verjast ásókn annarra afla í áhrif. Kannski er það vegna þess að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, telur Sigríði vera það mikla yfirburðarmanneskju að þjóðin geti einfaldlega ekki án hennar verið. Kannski er það vegna þess að Bjarni ætti í erfiðleikum með að réttlæta eigið forystuhlutverk ef hann myndi víkja Sigríði frá, í ljósi allra þeirra mála sem hann hefur ratað í undanfarin áratug. Kannski er það blanda af öllu ofangreindu. Kannski er ástæðan allt önnur. Einu sem geta svarað því eru forystumenn Sjálfstæðisflokksins.
Og nú er staðan þannig að helsta mál ríkisstjórnarinnar er að halda Sigríði þar sem hún er. Mestur tími og orka hennar fer í það. Í raun má segja að ríkisstjórnin sé stjórn Sigríðar Á. Andersen.