Á síðastliðnum vikum hefur Matvælastofnun (MAST) farið hamförum í eftirfylgni, og getur fjöldi látinna dýra vegna þeirra aðgerða mögulega farið hátt í 400 dýr á næstu dögum.
Þann 14. mars sl. voru 29 kindur aflífaðar vegna snjóköggla í ull þeirra. Vissulega er gott og blessað að huga að því að snjórinn sé ekki að valda þeim skaða, en í fljótu bragði má finna að minnsta kosti fimm aðrar aðferðir til að koma fénu í rétt horf, sem ekki fælust í því að aflífa það. Þær aðferðir hefðu vissulega verið erfiðari en aflífun. Er líf dýranna svo lítils virði í ákvarðanatöku MAST að þægindi eða kostnaður vega langt um meira?
Í síðustu viku fannst síðan þvottabjörn á Reykjanesi. Stofnunin ýjar að í tilkynningu sinni að þvottabjörninn hafi verið fluttur inn ólöglega, þó ekki sé vitað hvaðan hann kom, og heldur til haga að innflutningur þvottabjarna sé með öllu óheimill. Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur segir að samkvæmt villidýralögum séu þvottabirnir friðaðir. En svo séu lög um innflutning dýra þar sem kveðið sé á um að eyða þeim þegar í stað og brenna hræið. Hann segir mikilvægt að rannsaka þetta dýr betur.
Það er nokkuð ljóst að hann hefði verið drepinn fyrr heldur en síðar, þar sem innflutningslög virðast trompa villidýralög. Færa mætti rök fyrir því að ef gæta skuli sannrar eftirfylgni við innflutningslög hefði hræið verið brennt, en ekki sent til krufningar eins og raun bar vitni.
Eftir stendur, að þó í ljós kæmi að dýrið hafi verið smitberi, upprætir það ekki hugsanlegt smit að drepa dýrið. Það er eins og staðalstilling MAST sé að drepa.
Þetta minnir á atvik sem áttu sér stað þegar tveir kettir, einn árið 2003 og annar 2017, komu með eigendum sínum til landsins með ferjunni Norrænu. Án þess að einbeittur brotavilji eigenda lægi fyrir voru kettirnir aflífaðir. Hundurinn Hunter og kötturinn Nuk sluppu út í íslensku náttúruna úr flugvélum í millilendingu en var leyft að fara úr landi, en eigendur þeirra tjáðu sig strax að um slys væru að ræða. Það má því spyrja sig hvort hinir kettirnir tveir hafi verið aflífaðir til að refsa eigendum þeirra. Enn og aftur upprætir það engin smit sem af þeim hefðu getað stafað. Mannúðlegra hefði verið að einangra kettina og senda þá úr landi.
Nú í þessari viku eru það svo skrautfuglarnir 358 sem á að aflífa eða senda úr landi, en eigandi þeirra fær að ráða um afdrif þeirra. Vissulega er hægt að fagna þeirri framför að MAST bjóði þann kost að senda fuglana úr landi, en eitthvað er bogið við fréttaflutning MAST af þessu máli.
Í frétt á vef MAST segir að einn kanarífugl sem drapst í sóttkví hafi verið tekinn til skoðunar og að á honum, þessum eina fugli, hafi fundist tólf þúsund mítlar og tólf þúsund egg. Það þarf ekki sérfræðiþekkingu til að komast að því að fullvaxinn mítill af tegundinni Ornithonyssus sylviarum er um það bil millimetri á breidd, og fullvaxinn kanarífugl að meðaltali þrettán sentimetrar á lengd frá goggi til stélenda. Það væri virkilega áhugavert að sjá myndir af þessum fugli, alsettum tólf þúsund mítlum, og einnig talningagögn á þessum mítlum og eggjum.
Þetta atvik varpar enn einu sinni fram þeirri staðreynd að sóttkvíin er beinlínis hættuleg dýrunum. Nú fá 358 ungfuglar að líða fyrir það að hafa komist í tæri við smit úr öðrum fugli.
Þónokkur dæmi eru um að hundar hafi drepist í einangrun vegna smita sem þeir fengu á meðan á einangrunardvöl þeirra stóð, eða annarra óútskýrðra atburðarrása. Í einu tilfelli drapst einn hundur af þremur og fengu hinir tveir að fara í heimaeinangrun í kjölfar þess. Hundurinn Tyson sem komst í tæri við þvottabjörninn er einmitt í heimaeinangrun núna vegna hugsanlegs smits. Ef eitt á yfir alla að ganga ættu þá ekki önnur dýr sem eru einangruð vegna smithættu, t.d. þau nýinnfluttu, að fá að vera í heimaeinangrun?
Fær Tyson að vera heima hjá sér vegna þess að hann var nú þegar inni í landinu? Það eru miklu hærri líkur á að Tyson sé smitaður heldur en nýinnfluttu dýrin sem hafa nýlokið ströngu og margþættu ferli til að uppfylla sannanlega og án alls vafa ótal heilbrigðiskröfur til að fá innflutningsleyfi.
Í mörgum þeirra tilkynninga sem koma frá MAST ítrekar stofnunin að hún hafi „lögboðið hlutverk [...] að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins með innfluttum dýrum,“ eins og í tilkynningu þeirra um kanarífuglinn. En þegar hentar, eins og í tilkynningu stofnunarinnar um drepnu kindurnar í Loðmundarfirði þá ítrekar stofnunin að hún „sinnir eftirliti með velferð dýra.“
Ljóst er að þessir tveir hlutir fara ekki alltaf saman og svo virðist sem hentisemi ráði því hvort stofnunin forgangsraði velferð eða smitvörn hverju sinni.
Höfundur er ritari Pírata í Reykjavík, dýravelferðaraktívisti og arkitekt.