Stjórnmálamenn hafa það fínt. Fá góð laun og löng frí. Þeim er engin vorkunn. En það þýðir þó ekki að þeir þurfi ekki að takast á við ýmsar áskoranir sem fylgja störfum þeirra.
Eitt er gagnrýnin sem störf þeirra og orð verða fyrir. Sú gagnrýni er bæði nauðsynleg í lýðræðissamfélagi og til þess fallin að dýpka umræðu um aðgerðir sem geta haft gríðarlega mikil áhrif á líf fólks. Dýpkun umræðunnar gerir það að verkum að fleiri sjónarmið heyrast og þeir sem taka ákvarðanir hafa betri forsendur til að byggja þær á.
En stjórnmálamennirnir sjá þetta auðvitað oft ekki svona. Skiljanlega svo sem. Það er mannlegt að upplifa gagnrýni sem vegur að manns eigin sannfæringu og afstöðu sem árás frekar en málefnalega. Enda er gagnrýnin og orðræðan heldur ekkert endilega alltaf málefnaleg. Eins og gengur. Allir hafa rödd, skoðun og tilfinningar, sem þeir hafa rétt á að láta í ljós og á heildina litið er ferlið sem slíkt jákvætt. Manns eigin afstaða er ekkert endilega sú réttasta. Það er öllum hollt að heyra önnur sjónarmið og óskandi að fleiri væru opnari fyrir því að þeir hefðu rangt fyrir sér. Sérstaklega stjórnmálamenn.
En stundum verður umræðan sjálfri sér verst. Stundum er eins og að þeir sem bera hana uppi, oft ótrúlegur fjöldi, hafi engan áhuga á málefnalegheitum eða framþróun sem kemur málefninu til góðs. Stundum er eins og niðurrif og útúrsnúningur sé markmið í sjálfu sér. Það er miður.
Tvö slík dæmi hafa komið upp nýlega. Annars vegar í tengslum við kjarabaráttu ljósmæðra, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lækka í launum þegar þær bæta við sig námi og sérhæfingu. Heilbrigðisráðherra reyndi í umræðum á þinginu um málið að setja stöðu ljósmæðranna í sögulegt og samfélagslegt samhengi. Hún sagði stöðu ljósmæðra á opinberum vinnumarkaði óvenjulega þar sem þær fara úr stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga þegar þær hefja störf sem ljósmæður og fara í Ljósmæðrafélag Íslands. Þetta tóku BHM og Ljósmæðrafélagið óstinnt upp. Í yfirlýsingu sem bar heitið kaldar kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra, voru orð ráðherra túlkuð með þeim hætti að hún „telji að ljósmæður geti sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig námi.“ Fráleitt væri að rökstyðja launalækkun ljósmæðra með þessum hætti.
En ráðherrann var ekki að rökstyðja eða bera í bætifláka fyrir þá stöðu sem ljósmæður eru í í sinni kjarabaráttu. Það þarf einbeittan vilja til að túlka orð ráðherrans með þeim hætti, og ekki síður að ákveða sérstaklega að líta með öllu framhjá því sem ráðherrann hafði áður sagt um málið, til dæmis í ræðu sem hún hélt rétt á undan „köldu kveðjunni“. Þar sagði hún orðrétt: „Ég er þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar.“
Hins vegar hafði ríkisstjórnin stuttu áður kynnt fjármálaáætlun. Þar kennir ýmissa grasa. Sumt gott, annað slæmt, allt eftir því hvar fólk stendur í stjórnmálum. Sumum er mikið niðri fyrir, telja á sér og sínum eða einhverjum brotið, framhjá þeim gengið eða að þeim vegið. Allt fylgir þetta umræðunni, er óhjákvæmilegt og nauðsynlegt.
En hluti af henni varð undarlegur. Í kafla um fjölskyldumál í áætluninni segir að lélegt fjármálalæsi hjá almenningi sé ákveðin áskorun þar sem aukin hætta sé á að fólk lendi í fjárhagslegum erfiðleikum. Hópur fólks fór á límingunum og vildi meina að fjármálaráðherra hafi með þessu orðalagi gerst sekur um veruleikafirringu og skilningsleysi á málefnum lágtekjufólks.
Það skal ósagt látið hversu djúpur skilningur er hjá einstökum aðilum ríkisstjórnarinnar á málefnum lágtekjufólks. En í þessum upphrópunum þurfti sama einbeitta vilja og í dæminu um heilbrigðisráðherra, til að skilja orðalagið með þessum hætti. Það þurfti að horfa framhjá öllu öðru sem í kaflanum um áskoranir í málefnum fjölskyldna stóð. Þar var til að mynda rætt um hvernig gera megi barnabótakerfið markvissara gagnvart lágtekjufjölskyldum, hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu orlofsins, styrkingu grunnþjónustu og eflingu forvarna og snemmtæka íhlutun vegna vaxandi geðheilbrigðisvanda, svo eitthvað sé nefnt.
Það má svo sannarlega vera ósammála þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin setur á oddinn til að mæta fjárhagsvandræðum og/eða fátækt. Hvort þar sé rétt að lækka tekjuskatt, hækka persónuafslátt eða hækka bætur. Þær verða líklega alltaf umdeildar og um það snúast stjórnmálin.
En það er augljóst að fjármálalæsi þessa hóps, og líklega margra annarra, er ábótavant og verður að bæta. Og það er hvorki fólginn í því að vilja bæta það skilningsleysi eða veruleikafirring. Fátækt er fjölþættur vandi. Margt þarf að koma til en upphrópanir um eitt úrræði, byggt á því hver leggur það til, er afvegaleiðing.
Viljandi misskilningur er hvimleiður. Oft er slíkt gert út frá hagsmunamati þess efnis að sá sem misskilur græði með misskilningnum fylgismenn með fordæmingu sinni og hneykslun. En hinn viljandi misskilningur er ekkert annað en einmitt afvegaleiðing á umræðu sem kemst fyrir vikið ekki úr sporunum og leiðir ekki til þess að mismunandi aðgerðir og aðferðir séu fundnar til að leysa hin raunverulegu vandamál.
Skiljiði mig?