Fyrstu mánuðir nýs stjórnarsamstarfs hafa verið erfiðir fyrir Vinstri græn. Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur féll um 13,7 prósentustig frá áramótum og til marsloka. Það er meira fall í stuðningi á fyrstu fjórum mánuðum ríkisstjórnar en hjá nokkurri annarri ríkisstjórn sem setið hefur frá aldarmótum. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast ekki lengur með meirihluta atkvæða á bakvið sig. Það gengur því hratt á pólitíska inneign forsætisráðherrans.
Vinstri græn sitja að völdum með tveimur öðrum flokkum sem eru vanir því að stýra landinu, og hafa mótað og mannað stjórnkerfið eftir því sem þeim hentar. Þess vegna er auðveldara fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að gera málamiðlanir á pappír til að komast í ríkisstjórn, en koma síðan áherslum sínum, eða hindra mál sem þeim hugnast ekki, í gegnum stjórnkerfið.
Kjósendur beggja flokkanna eru líka vanari því að gerðar séu málamiðlanir með hugsjónir og kosningaloforð. Þetta eru enda valdaflokkar og hafa náð mjög miklum árangri sem slíkir við að sníða samfélagið að því sem hentar þeim.
Vinstri græn telja sig hins vegar vera hugsjónarflokk sem byggir á ófrávíkjanlegum grunngildum. Það verður þó erfiðara og erfiðara fyrir flokkinn að rökstyðja að hann standi fastur fyrir þau grunngildi.
Fjögur mál hafa sýnt þetta umfram önnur.
Utanríkismál
Ein helst hugsjónin sem Vinstri græn hvíla á er sú að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga, tala fyrir friði hvarvetna í alþjóðasamfélaginu og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum.
Það er tekið svo alvarlega að 2. grein laga flokksins hljómar svona: „Markmið hreyfingarinnar er að berjast fyrir jafnrétti, jöfnuði, réttlæti, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, lýðræði, sjálfstæði þjóðarinnar og friðsamlegri sambúð þjóða.“
Í stefnu Vinstri grænna segir að Ísland eigi að taka „skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði“ og að Ísland eigi að segja sig „úr NATO og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum“. Þetta verður eiginlega ekkert skýrara.
Flestir þingmenn og leiðtogar flokksins eru á þeirri skoðun að það sé þrátt fyrir þessa miklu áherslu á friðarmál ekki hægt að gera neina kröfu um að hugsjónir Vinstri grænna hafi áhrif á utanríkismálastefnu þjóðarinnar, þótt flokkurinn sé í ríkisstjórn. Þvert á móti sé allt í lagi að gefa þessa hugsjón og grunnstefnu eftir til að a) komast í ríkisstjórn og b) til að halda henni saman. Þess vegna sé réttlætanlegt að styðja loftárásir á Sýrland, líkt og ríkisstjórn Íslands, undir forsæti Vinstri grænna, hefur gert. Eða eins og stóð í tilkynningu frá NATO daginn eftir loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Sýrland: „Öll NATO ríkin lýstu yfir fullum stuðningi við aðgerðirnar í gærnótt.“ Ísland er augljóslega eitt allra NATO ríkjanna.
Það er látið eins og að Íslandi hafi ekki átt annarra kosta völ en að lýsa yfir þessum fulla stuðningi á vettvangi NATO. Þannig virki NATO bara og ef Ísland ætli að vera hluti af þeim félagsskap þá geti landið ekki sýnt neitt sjálfstæði í afstöðu sinni gagnvart atburðum sem þessum. Þetta er rangt. Loftárásirnar á Sýrland eru ekki gerðar af NATO. Þær eru ekki gerðar sem viðbragð við árás á aðildarríki NATO.
Að láta eins og að Ísland hafi ekki sjálfsákvörðunarvald um stuðning við slíkar aðstæður, í máli sem hafði ekki einu sinni komið til umfjöllunar þingsins, er í besta falli barnalegt og í versta falli tilraun til að blekkja almenning. Aðild að NATO er ekki skuldbinding um skilyrðislausan stuðning við allt sem bandalagið ákveður að gera eða styðja.
Flatar skattalækkanir
Í kosningastefnu Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar er sérstaklega fjallað um efnahagsmál. Efst í þeim hluta segir: „Við ætlum ekki að hækka skatta á almenning á Íslandi. Hins vegar ætlum við að hliðra til innan skattkerfisins til að gera það réttlátara. Kjör almennings verða sett í forgang og um leið stöðvuð sú þróun að þeir ríku verði áfram ríkari á sama tíma og aðrir sitja eftir.“
Í kynningu á fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem leiðtogar þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina stóðu að, kom fram að tekjuskattur einstaklinga eigi að lækka í neðra skattþrepi og geti lækkað um eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Orðrétt segir þar: „Gert er ráð fyrir eins prósentustigs lækkun á skatthlutfalli neðra þreps.“
Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti myndu minnka um 14 milljarða króna við þá lækkun. Slík skattabreyting mun skila fólki sem er með meira en 835 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði þrisvar sinnum fleiri krónum í vasann en fólki sem er á lágmarkslaunum. Það er erfitt að sjá hvernig hún rímar við það loforð að gera skattkerfið réttlátara og að stöðva þá þróun að hinir ríku verði ríkari.
Dómsmálaráðherra
Vinstri græn eru upp til hópa á móti embættisfærslum Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði til að mynda í sjónvarpsþætti Kjarnans í byrjun apríl að hún væri „þeirrar skoðunar að þessi embættisfærsla hafi verið röng. Og raunar er þar sammála dómstólum um þá niðurstöðu.“
Svandís kaus hins vegar gegn vantrauststillögu á Sigríði þegar hún var lögð fram í mars. Í þættinum sagðist hún að líta svo á að tillagan hafi ekki snúist um þá embættisfærslu heldur hvort að Vinstri græn styddu áfram ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Sama sögðu ýmsir þingmenn flokksins þegar vantraustið var til umfjöllunar. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði til að mynda í ræðu sinni að hann hafi verið mótfallinn þeim ákvörðunum og embættisverkum Sigríðar sem vantrauststillagan snérist um, en að hann styddi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni við sama tilefni að vantrauststillagan snérist ekki um dómsmálaráðherra heldur ríkisstjórnina í heild. „Það er alveg ljóst að skaðinn er skeður. Þegar er búið að vinna þau embættisverk sem eru ástæða þessarar umræðu. Það var gert í síðustu ríkisstjórn landsins, fyrir síðustu kosningar. Ef vantrauststillagan verður samþykkt getur tvennt gerst; annaðhvort að ráðherrann fari og nýr dómsmálaráðherra taki við[...]Hitt sem gæti gerst væri að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgæfi ríkisstjórnina og þar með væri hún úr sögunni. Vil ég aðra ríkisstjórn án Alþingiskosninga, aðra en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Mitt svar er nei.“ Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, talaði á sambærilegan hátt.
Allt er þetta í andstöðu við yfirlýsta stefnu Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar um að mikilvægt sé að „stjórnsýslan þjóni almenningi.“ Og þetta er í hróplegri andstöðu við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem segir m.a. að hún muni „beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ Það að stjórnmálamenn viðurkenni opinberlega að þeir telji embættisfærsli ráðherra ranga, og að fyrir liggi að hún dragi úr trausti á bæði stjórnmál og nýtt millidómsstig, en styðji hann samt til valdasetu er ekki til að auka traust á stjórnmál né stjórnsýslu. Og að rökstyðja það með gamaldags samtryggingarrökum er það ekki heldur. Þvert á móti.
Hvalveiðar
Á landsfundi sínum árið 2015 lögðust Vinstri græn gegn hvalveiðum. Í samþykkt fundarins sagði: „„Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni.“ Í umhverfisstefnu flokksins fyrir síðustu kosningar sagði að Ísland ætti „að stækka griðarsvæði hvala í kringum landið.“
Hvalur hf., fyrirtæki sem stýrt er af Kristjáni Loftssyni, ætlar að hefja hvalveiðar að nýju í ár. um er að ræða áhugamál Kristjáns sem hefur kostað hann feykilegar fjárhæðir á undanförnum árum, enda enginn markaður fyrir afurðina sem hann veiðir. Skaðinn fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi er þó augljós.
Í kjölfar þess að Kristján og viðskiptafélagar hans eru að selja hlut sinn í HB Granda á tæpa 22 milljarða króna þá ætti hann að eiga nóg til þess að halda sportveiðum sínum á hvölum áfram eins lengi og honum sýnist.
Vinstri græn virðast ekki ætla að beita sér gegn hvalveiðum þrátt fyrir að vera í ríkisstjórn. Eina viðbragðið sem stjórnmálin hafa sýnt við þessari ákvörðun er þingsályktunartillaga tíu þingmanna um að forsætisráðherra verði falið að „endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga og greina þjóðhagslegt mikilvægi veiðanna. Við matið verði m.a. horft til hagsmuna annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og tillit tekið til vísindarannsókna, dýraverndarsjónarmiða og hagsmuna sveitarfélaga.“ Þeir þingmenn sem standa að tillögunni eru flestir úr stjórnarandstöðunni, en á henni eru einnig Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þeir tveir þingmenn Vinstri grænna sem kusu gegn stjórnarsáttmálanum og með vantrausti á Sigríði Á. Andersen. Það virðist því ætla að verða jafn erfitt fyrir Vinstri græn að smala köttunum í þessari ríkisstjórn og það var í þeirri sem sat á árunum 2009 til 2013.
Að éta skít
Það er við hæfi að rifja upp orð fyrrverandi varaþingmanns Vinstri grænna og framkvæmdastýra hans til margra ára, Drífu Snædal, sem sagði sig úr flokknum þegar sitjandi ríkisstjórn var mynduð.
Við það tilefni sagði Drífa að Vinstri græn verði í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn Sjálfstæðisflokkinn „og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“
Það er skiljanlegt að þeir sem eru í stjórnmálum séu í slíkum til að hafa áhrif. Og sækist þar af leiðandi eftir völdum.
En það verður að teljast sérkennilegt að gefa jafn mikinn afslátt og ofangreind dæmi sýna á nær öllum helstu hugsjónum sínum til að komast í ráðandi stöðu.