Íslenska ríkið á tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Auk þess á ríkið Íbúðalánasjóð, sem starfar á íbúðalánamarkaði, eins og kunnugt er.
Samtals er íslenska ríkið með um 470 milljarða í eigin fé í bankakerfinu, eða sem nemur um 1,3 milljónum á hvern Íslending.
„Hreint“ bankakerfi
Eignir þessara fjármálafyrirtækja ríkisins, að mestu útlán til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, nema um 3.000 milljörðum króna, eða sem nemur einni árlegri landsframleiðslu.
Eignir Landsbankans eru um 1.200 milljarðar, Íslandsbanka um þúsund milljarðar og hjá Íbúðalánasjóði eru eignir um 800 milljarðar.
Ólíkt nær öllum öðrum þjóðum, þá hefur Ísland hreinsað rækilega til í fjármálakerfinu, á grundvelli neyðarlaga í hruninu í október 2008 og fjármagnshafta.
Bankakerfið á Íslandi er svo til alveg „hreint“ eftir þessar aðgerðir, þar sem nýjar fjármálastofnanir urðu til, ónýt lán voru hreinsuð út og þjónustan er nú við Ísland svo til alfarið.
Markaðssvæðið tekur aðeins til tæplega 200 þúsund manna vinnumarkaðar, þ.e. íslensks samfélags, og erlend starfsemi er svo til engin. Eignir þessara fjármálastofnanna eru kröfur á almenning, einfalt á litið.
Staðan er um margt spennandi, í ljósi breytinga á regluverki sem nú eru að verða í fjármálaheiminum.
Með PSD2 tilskipuninni, sem nú er að taka gildi, verður bönkum skylt að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að greiðslumiðlun, að fengnu samþykki frá viðskiptavinum.
Mikið hefur verið rætt um þessi mál að undanförnu, og má nefna ítarlegar greinar Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Friðriks Þórs Snorrasonar, forstjóra Reiknistofu bankanna, sem birst hafa í Vísbendingu á undanförnum mánuðum, því til stuðnings.
Á alþjóðavettvangi hefur einnig verið um þetta rætt, og þá sérstaklega hvernig þessar breytingar geta kúvent fjármálaþjónustu eins og við þekkjum hana, og opnað á leiðir fyrir t.d. stærstu tæknifyrirtæki heimsins til að byrja að veita umfangsmeiri fjármálaþjónustu en þau veita nú þegar.
Áhættusamt umhverfi
Eins og ávallt þegar miklar grundvallarbreytingar eru gerðar á regluverkinu, þá tekur við ákveðinn óvissutími.
Enginn veit með vissu hvað mun gerast, þó margir séu til spámennirnir og sérfræðingarnir. Á litla Íslandi er uppi gjörólík staða en í nær öllum öðrum ríkjum, vegna þess hvernig fjármálakerfið hefur verið endurskipulagt og endurreist á grunni innlendrar starfsemi á undanförnum áratug.
Einhverra hluta vegna hafa stjórnvöld og stjórnmálamenn, forðast það að ræða ítarlega um hvernig aðkoma ríkisins eigi að vera á fjármálamarkaði.
Augsljóslega er t.d. hægt að hagræða og auka öryggi fjármálakerfisins, með því að sameina Landsbankann, Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð í eitt fyrirtæki.
Með því væri líklega hægt að ná kostnaðarhlutfalli niður fyrir 35 prósent, en markmið bankanna hafa verið um 45 til 55 prósent. Kjör til almennings gætu batnað og yfirbygging minnkað mikið.
Hver er stefnan?
Ekki þarf neinn snilling til að sjá það, að ríkið hefur óskýra sýn á það, hvernig það á að nálgast fjármálamarkaðinn, og tal ríkisins um að það vilji drífa sig sem mest í því að selja hluti í bönkunum - sem hefur verið nefnt af bæði stjórnendum ríkisbankanna og stjórnvöldum - er ekki hluti af skynsamlegri refskák í viðskiptum við að hámarka virði eigna og rekstrarins.
Frá sjónarhóli fjárfesta erlendis, hlýtur þetta að líta út þannig að íslenska ríkið vilji „losna við“ hlutina frekar en að gera sem mest úr verðmætinu með hagræðingu, og selja síðan þegar tíminn er réttur, miðað við langtímasýn á síbreytilegum markaði.
Lítið hefur farið fyrir umræðu um það að Ísland standi frammi fyrir einstöku tækifæri, í átt að meiri hagkvæmni í fjármálaþjónustu, með því að sameina fyrirtæki, ná niður kostnaði (vissulega með uppsögnum og sérhæfingu, það er óhjákvæmilegt) og búa þannig betur um hnútana í breyttu umhverfi til framtíðar.
Óskiljanlegt er t.d. að íslenska ríkið sé með tugi manna (aðallega karlmanna) í vinnu við að miðla verðbréfaviðskiptum og stýra sjóðum, og það í fleiru en einu fyrirtæki. Ef það er einhver starfsstétt sem ætti ekki að starfa á hjá hinu opinbera, þá eru það miðlarar. Það sama gildir um sjóðsstjóra.
Vonandi eru stjórnvöld tilbúin til þess að horfa út fyrir boxið, þegar kemur að vinnu starfshóps um endurskipulagningu fjármálakerfisins. Bankamennirnir gætu verið líklegir til að horfa fyrst og fremst til þess að vernda eigin störf, frekar en að breyta kerfinu og hagræða, og því þarf að hlusta eftir sjónarmiðum frá öðrum, t.d. minni fjártæknifyrirtækjum og tæknimenntuðu fólki.
Það er enginn ábati í því fyrir samfélagið að vera með ofmannað fjármálakerfi ríkisins og óhagkvæmt skipulag kerfis, sem er einungis að þjónusta örmarkaðinn íslenska. Vonandi verður tækifærið nýtt vel þegar kemur að því að búa til gott og hagkvæmt kerfi, þar sem opinber áhætta hefur verið takmörkuð, sérhæfing er skýr, og starfsemin almenningi til hagsbóta.