Það eru 606 einstaklingar í framboði í Reykjavík. 304 konur og 302 karlar. Það eru tvöfalt fleiri en fyrir fjórum árum þegar síðast var kostið. 3432 meðmælendur þarf með þessum sextán framboðslistum. Viðlíka fjöldi hefur ekki sést í heila öld - frá árinu 1918 þegar 18 einstaklingar buðu sig fram í persónukjöri í borginni. Framboðin voru fleiri en einstaklingarnir miklum mun færri.
Í Kópavogi bjóða fram níu flokkar, átta í Hafnarfirði og jafn margir í Reykjanesbæ og Mosfellsbæ. Sjö flokkar bjóða fram á Akureyri. Þar búa tæplega 19 þúsund. Í Árborg bjóða sex flokkar fram.
Lýðræðið í framkvæmd
Á sama tíma og það virkar einhvern veginn undarlegt og uppblásið að á okkar litla skeri sé meiri fjöldi í framboði í höfuðborginni en býr í meira en helmingi sveitarfélaga landsins þá er það líka svolítið fallegt.
Þessi staða sýnir að hér er virkt lýðræði. Þröskuldar til að bjóða sig fram eru lágir. Fjölmiðlar gera sitt besta til að veita öllum sem mest og best aðgengi til að kynna sín mál. Auk þess er mun auðveldara að koma stefnumálum á framfæri eftir tilkomu samfélagsmiðla, þar sem hægt er að birta allt milli himins og jarðar, safna saman samhuga fólki á stuttum tíma og auglýsa eða ná til mikils fjölda fólks án mikils tilkostnaðar. Kosningaþáttaka á Íslandi hefur síðan verið góð í gegnum tíðina þó hún fari almennt minnkandi.
En auðvitað er þetta líka skrítið. Einu sinni voru hér í boði fjórir rótgrónir flokkar. Stórir flokkar ásamt einu og einu klofningsframboði sem varð til, lifði í nokkur ár og dó svo drottni sínum. Það hefur ekki verið meginreglan að upplifa það sem svo að annar hver maður sé í framboði. Eða frændi þeirra.
Allir eiga erindi
Eitthvað hefur gerst sem veldur því að svo margir telja sínar eigin hugsjónir svo stórkostlega frábrugðnar annarra að þær þurfi sérstakan flokk, svo margir telja sig eiga svo brýnt erindi að enginn þeirra flokka eða einstaklinga sem fyrir eru á fleti sjái hlutina með sama hætti og að svo margir telji að betra sé að veðja á eigið framboð en að vinna hugsjónum sínum framgang innan stærri flokkanna.
Þetta hlýtur að þýða að hinum rótgrónu flokkum hefur mistekist allsvakalega að halda í flokksmenn sína. Áður voru þeir ótrúlegar fjöldahreyfingar sem lögðu áherslu á að höfða til breiðs málefna litrófs. Þeir tóku tillit til minnihlutasjónarmiða og viðurkenndu að ástæða tilveru þeirra voru stóru línurnar, gildin og lífsviðhorfin, ekki dægurþrasið. Nú eru þetta í raun bara stærri flokkar en hinir og mega ekki við miklu.
Þetta þýðir að þeir sem áður fundu sér skjól hjá þessum fjöldahreyfingum trúa ekki lengur að þar innandyra geti þeir haft áhrif. Að með rökræðu og baráttu geti þeir átt von á því að þeirra sjónarmið eigi möguleika á að verða á endanum ofan á. Flokkarnir eru orðnir einstrengingslegri en áður.
Og það hefur orðið til þess að upp eru að spretta áður óséður fjöldi flokka og hreyfinga fólks sem telur sig hvergi eiga heima. Oft og tíðum fólk sem þrífst ekki innan flokka sem rúma skoðanir þeirra heldur bara þar sem skoðanir þeirra eru allar í forgrunni. Einn maður, ein skoðun, einn flokkur.
Sumir nýju flokkanna virðast hafa breiðan og vel hugsaðan málefnagrunn. Slípaða hugmyndafræði sem þeir geta auðveldlega lagað að öllum málum. Aðrir flokkar eru eins máls flokkar. Hafa enga skoðun á stóru myndinni í sveitarstjórnarmálum heldur ætla að eyða öllu sínu púðri í eitt mál. Femínisma, þjóðernishyggju eða óskilgreind popúlísk málefni.
Komið til að vera?
Það er erfitt að segja til um hvort þessi lýðræðissprenging sé komin til að vera. Ljóst er að ný framboð setja þrýsting á ríkjandi stjórnvöld að standa sig. Ekki er lengur hægt að hundsa minnihlutasjónarmiðið af því fulltrúar henda sér bara í framboð ef það er gert. Flokkur fólksins, sem stendur fyrir bætt kjör öryrkja, aldraðra og þeirra sem verst standa í samfélaginu, er gott dæmi þessa.
Það sem hins vegar getur líka gerst er að hættuleg popúlísk öfl komist að án mikils fyrirvara eða mótspyrnu. Þröskuldur fyrir þannig framboð er jafn lágur og fyrir hin. Harðstjórar fortíðarinnar voru lýðræðislega kjörnir.
Ljóst er að lýðræðið á Íslandi er sprellifandi og kvikt. En það er líka viðkvæmt. Það er í okkar höndum að verja það og hlúa að því. Það þarf að halda því við, berjast fyrir því og verja það gegn ýmsum ógnum. Það á að styðja flokkakerfið og varast einsflokksríki. Allar lýðræðislegar leikreglur á að verja með kjafti og klóm. Það á að styðja við lýðræðið með því að nýta sér sinn rétt í hvívetna. Mæta á kjörstað og greiða atkvæði. Og það á að bjóða sig fram.
Svo virðist sem við höfum hið minnsta ákveðið að tileinka okkur það.