Fyrir fjórum árum síðan mældist fylgi Framsóknarflokksins undir þremur prósentum nokkrum vikum fyrir kosningar. Þá var ráðist í breytingar á forystusveit framboðsins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir kölluð til sem oddviti. Fyrst um sinn virtist hún ekki líkleg til stórræða en átta dögum fyrir kjördag mætti hún í viðtal og sagði: „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“.
Tvennt gerðist í kjölfarið. Fylgi Framsóknarflokksins stórjókst og útlendingaandúð var allt í einu orðið aðalkosningarmálið í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Forysta Framsóknarflokksins tók enga skýra afstöðu gegn þessum ummælum. Sveinbjörg túlkaði „þögn forystunnar þannig að ég eigi að fá að sigla þessu skipi í höfn“.
Framsókn fékk 10,7 prósent og tvo borgarfulltrúa kjörna.
Þrír flokkar endurnýta kosningaloforð
Sveinbjörg Birna hélt áfram á svipuðum nótum á kjörtímabilinu. Í fyrra fór hún m.a. í viðtal á Útvarpi Sögu og sagði það fælist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Nokkrum vikum síðar hætti hún í Framsóknarflokknum og sagði ástæðuna vera sú að flokksmenn skorti sannfæringu í afstöðu sinni til hælisleitenda.
Hún er nú í sérframboði til borgarstjórnar sem kallast „Borgin okkar Reykjavík“. Helsta kosningabragð hennar er endurvinnsla á moskumálinu sem skilaði Sveinbjörgu Birnu svo miklu fylgi fyrir fjórum árum síðan.
Fylgi við framboðið mælist vart í könnunum.
Fylgi Íslensku þjóðfylkingarinnar lítið sem ekkert.
Frelsisflokkurinn, sem vill íslenska þjóð í eigin landi, er klofningsframboð frá Íslensku þjóðfylkingunni. Sáralítill munur er hins vegar á stefnumálum flokkanna tveggja. Á meðal þess sem Frelsisflokkurinn setur á oddinn er andstaða við moskubyggingu auk þess sem hann styður við þjóðleg viðhorf, kristna trú og gildi. Hann berst gegn því sem hann kallar taumlausa alþjóðavæðingu og misheppnaðri fjölmenningastefnu. Í nýlegu ávarpi formanns flokksins segir hann að það þurfi kjark til að kjósa Frelsisflokkinn. „Þegar í kjörklefann er komið þarf enginn að vita hvað þú kýst og þú þarft heldur ekki að segja frá því.“
Kannanir sýna að Frelsisflokkurinn höfðar til sárafárra.
Allir græða
Ísland þarf á aðfluttu fólki að halda. Til að ná þeim hagvaxtarmarkmiðum sem áætlanir gera ráð fyrir þarf að bæta við tvö til þrjú þúsund erlendum starfsmönnum til að vinna á Íslandi á ári. Spár Hagstofunnar gera ráð fyrir að erlendir ríkisborgarar geti orðið um 25 prósent þjóðarinnar árið 2065.
Það er því ánægjulegt að sjá hvað ódýr hræðsluáróður og útlendingaandúð sem byggir á valkvæðum staðreyndum, mannhatri eða rangfærslum nær lítilli fótfestu í Reykjavík nútímans. Borgin hefur enda breyst mjög mikið á skömmum tíma. Frá byrjun árs 2012 og fram að síðustu áramótum fjölgaði erlendum íbúum hennar um 70 prósent. Þeir eru nú 15.640 talsins, eða 12,4 prósent íbúa höfuðborgarinnar. Öll íbúafjölgun í Reykjavík í fyrra var vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til borgarinnar.
Samhliða þessari aukningu hafa greiðslur Reykjavíkurborgar vegna félagslegrar framfærslu dregist saman, greiðslur ríkisins vegna atvinnuleysisbóta dregist saman, glæpum fækkað, skatttekjur aukist og hagvöxtur vaxið ár frá ári. Þá eru ótaldir þeir fjölmörgu menningarlegu og mannlegu fletir sem auðgast með snertingu við fólk sem kemur úr annarri átt en við einsleitu Íslendingarnir.
Þessi breyting á viðmóti gagnvart útlendingaandúð er ekki einungis bundin við Reykjavík. Könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í fyrra sýndi að tveir af hverjum þremur landsmönnum vildi annað hvort auka fjölda innflytjenda eða halda fjöldanum óbreyttum. Yngra fólk og það sem býr á höfuðborgarsvæðinu var mun jákvæðara gagnvart innflytjendum en aðrir hópar. Nýleg könnun MMR sýndi til dæmis að 75 prósent landsmanna telja að fjöldi þeirra flóttamanna sem fá hæli hérlendis sé annað hvort hæfilegur eða of lítill. Það eru helst kjósendur Miðflokksins og Flokks fólksins sem telja að þeir séu of margir, auk ofangreindra framboða auðvitað, sem mælast bara varla með neina kjósendur.
Í niðurstöðum íslensku kosningarannsóknarinnar 2007 töldu 34,6 prósent Íslendinga að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar. Árið 2016 var það hlutfall komið niður í 17,8 prósent, og hafði því helmingast.
Þessari stöðu, og hugarfarsbreytingu, ber að fagna. Líkt og formaður Frelsisflokksins bendir á í áðurnefndu ávarpi sínu þá hafa þjóðernissinnaðir kredduflokkar verið að auka fylgi sitt víða um heim með því að beita fyrir sig útlendingaandúð. Hann spáir þar að það sé „aðeins tímaspursmál hvenær sú bylgja nær Íslandsströndum.“
Allar tölur sýna að sú spá er röng. Þvert á móti er frjálslyndi, umburðarlyndi og mannvirðing í uppsveiflu á Íslandi.
Af því eigum við að vera stolt.