Það er fátt sem hefur jafn mikil áhrif á stöðu okkar í þjóðfélaginu og möguleika okkar í lífinu og launin sem við vinnum okkur inn.
Það var árið 1975 sem konur lögðu niður vinnu og kröfðust þess að störf þeirra væru metin til jafns á við störf karla. Í dag er ekki deilt um það að konur og karlar eigi að fá sömu laun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf, en samt eru konur með mun lægri laun en karlar þegar meðaltöl eru skoðuð.
Mig langar aðeins til að ræða þetta með „jafn verðmæt störf“, því í þessum orðum felst undankomuleiðin og gildran sem veldur því að konur eiga enn undir högg að sækja.
Jafn verðmæt störf
Einhvern veginn hefur það gerst að störfin þar sem konur eru í meirihluta, eru ekki metin „jafn verðmæt“ og störf sem karlar sækja meira í. Þannig að í stað þess að borga konu sem vinnur við hliðina á karli lægri laun fyrir sömu vinnu, þá höfum við fært launa misréttið yfir á heilar stéttir. Svo líta „karlarnir“ glottandi á „konurnar“ í þessum störfum og segja þeim að þær hefðu mátt vita þetta með launin og svo er látið í veðri vaka að þær leggi ekki í „alvöru störf“.
„Alvöru störfin“ snúast mjög oft um peninga og viðskipti, á meðan „lítilvægu störfin“ snúast oft um fólk og fela oft í sér umönnun eða kennslu.
Öll störf eru mikilvæg og spurning hvernig á að meta þau.
Einn mælikvarðinn er menntun; hversu lengi þurftirðu að mennta þig til að geta eða mega sinna þessu starfi?
Sá mælikvarði er ekki notaður. Hákskólamenntaðar „kvennastéttir“ eru á mun lægri launum en „alvöru karlastörf“ sem krefjast svipaðrar eða minni menntunar.
Annar mælikvarði er hversu mikilvæg þjónustan er notendum hennar. Sá mælikvarði er ekki heldur notaður. Til dæmis finnst foreldrum fátt mikilvægara en að börnin þeirra fái góða kennara en það er ekki metið til laun þeirra.
Þriðji mælikvarðinn er álag. Hann er ekki heldur notaður. Rannsóknir hafa sýnt að álag í kennslu og umönnunarstörfum er mjög mikið og hvað kennara varðar eru langtímaveikindi vegna álags það mikil að sjúkrasjóður þeirra er að tæmast.
Ég spyr hvernig borgarstjórn sem kennir sig við jafnrétti, getur réttlætt það að halda stórum kvennastéttum niðri í launum?
Hvernig sér þessi sama borgarstjórn fyrir sér að manna mikilvægar stöður í umönnun og kennslu án þess að hækka laun þessra stétta verulega?
Jafnrétti fyrir fjöldann
Jafnrétti kynjanna snýst nefnilega ekki um að koma fáum konum í valdastöður. Jafnrétti kynjanna snýst um að stórar kvennastéttir, fjöldi kvenna, séu metnar til launa og geti þannig notið lífsins og átt sömu möguleika og „karlar í alvöru störfum“.
Mér finnst það skjóta verulega skökku við að núverandi meirihluti í Reykjavík, sem gefur sig út fyrir að standa vörð um jafnrétti og mannréttindi, skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að hækka laun svokallaðra kvennastétta, þannig að menntun þeirra, reynsla og álag í starfi séu metin að verðleikum.
Sýnum jafnrétti í verki – hækkum laun kvennastétta! XB
Höfundur er kennari og skipar 3. sæti Framsóknar í Reykjavík.