Um daginn skrapp ég á Strandir ásamt Sunnu Ósk Logadóttur vinkonu minni sem er blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún hafði pikkað í mig upp úr miðnætti og boðið mér að vakna klukkan sex til að koma með sér á Strandir þar sem hún ætlaði að sitja fund hjá sveitarstjórninni og skrifa jafnóðum fréttaskýringu, enda óhætt að segja að fólkið í Árneshreppi lifi nú átakatíma út af skiptum skoðunum um hvort reisa eigi Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði.
Við lögðum í hann með stírurnar í augunum á nettum bíl merktum MBL og sólin skein svo glatt þennan daginn að við vorum komnar á Strandir fyrr en varði. Svo fáir stólar voru í boði á fábreyttri skrifstofu sveitarstjórnarinnar að mér leiddist fljótt fundarsetan, hímandi á gólfinu, og laumaði mér út í göngutúr meðan vinkona mín hamaðist á lyklaborðinu.
Lögheimili fegurðarinnar
Í göngutúrnum varð mér hugsað til orða Elísabetar Jökulsdóttur að aðeins ein ætti lögheimili í Árneshreppi og það væri fegurðin. Á þessum stað er hún yfirþyrmandi ægileg. Úti var kalt, þrátt fyrir sólina, og eftir smá göngutúr var ég svo krókloppin að ég tyllti mér inn í forstofu hreppsskrifstofunnar og vafraði króknum fingrum um á netinu í símanum þangað til mér var heilsað glaðlega.
Þarna stóð kona sem brosti svo friðsæl. Hún heitir Elín Agla og býr á hæðinni fyrir ofan hreppsskrifstofuna. Hún bauð mér upp í íbúðina sína, hitaði handa mér kaffi og spurði hvort ég vildi Kentucky Fried Chicken.
Hérna á Ströndum? hváði ég sem borðaði síðast KFC í New York og fékk svo hastarlega í magann af efnastöffinu í djúpsteiktu deiginu að ég hélt ég myndi fæða barn á klósetti staðarins. Já, glóðvolgt beint úr flugvélinni! sagði Elín Agla og útskýrði að maturinn hefði verið sendur dóttur hennar með flugi en skammturinn verið svo stór að þær mæðgur hefðu aðeins náð að borða brot af honum. Þrátt fyrir að hafa næstum því fætt barn á klósetti í Ameríku gat ég ekki hugsað mér að afþakka KFC komið alla þessa leið. Og djúpsteikingardeigið reyndist vera heilnæmara á Ströndum en í stórborginni því stuttu síðar var ég búin að háma í mig þrjá bita með kaffinu án þess að fá hríðir á fallegustu salernisaðstöðu sem ég hef séð, með stórum glugga sem vísar út að konunglegum fjöllum og ólgandi sjó.
Verið að misnota nafnið mitt!
Hún fylgist brosmild með mér kyngja síðasta bitanum og segir síðan: Það er verið að misnota nafnið þitt.
Hvernig þá? spurði ég hissa, ekki skorti undrunarefnin í þessu eldhúsi.
Allt verður að vera Auður, sagði Elín Agla.
Æ, umlaði ég ringluð.
Náttúran fær ekki að vera náttúra, hún er sneydd niður í auðlindir. Og fólk má ekki vera fólk, það er mannauður. Meira að segja börnin eru kölluð auður, sagði Elín og saup á kaffinu. Hugsanir okkar auðmagn. Af hverju fá hlutirnir ekki að vera það sem þeir eru? Allt á að vera auður sem þarf að nota og nýta, hélt hún áfram. Bara af því við getum það ...
Í þessum töluðu orðum sat sveitarstjórnin beint fyrir neðan okkur að takast á vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í ósnortnu víðerni – sem hættir þá að geta heitið víðerni og verður, ef ég leyfi mér að vera innblásin af orðum húsfreyjunnar, auðerni.
Að nýta náttúruna í konum
Hugrenningartengslin leiddu hugann frá pælingum um nota- og auðgildi að hlaðborðum hóruhúsanna í Berlín, sem ég skrifaði eitt sinn um í Kjarnann, þar sem konur eru nýttar á svo praktískan hátt að fyrir minna en tíu þúsund krónur má sofa hjá eins mörgum konum og maður kemst yfir og í kaupbæti fylgja fríir drykkir. Af hverju ekki að nýta konur ef það er hægt?
Allt saman praktískt og löglegt þar í borg, vændiskonurnar borga skatta og standa sína plikt en hafa varla mikið upp úr krafsinu sem kjötstykki á hlaðborði hins karllæga kapítalisma. Um að gera samt að nýta það sem má nota. Af því að það er hægt. Eða hvað?
Í heimi þar sem þykir svo sjálfsagt að líkami kvenna sé auðlind að skattur vændiskvenna í einni voldugustu borg Evrópu er notaður til að fjármagna hraðbrautir er hætt við að viðmiðin verði firrt.
Að hlusta á íbúana
En þetta er öfgafull og galgopaleg samlíking hjá mér, bara skáldleg freisting að falla í gróteska samlíkingu sem hefur ekkert upp á sig nema síður sé. Í Árneshreppi eru fleiri eldhúsborð og ég á eftir að heyra fleiri sjónarmið.
Fólkinu sem býr þarna er öllu fyrst og fremst umhugað um sveitina sína. Íbúarnir eru bara ekki sammála um leiðir til að efla hana. Að margra mati er hið fámenna samfélag í dauðateygjum og því ekki skrýtið að örvænting geri vart við sig. Lykilatriðið fyrir íbúana þarna eru bættar samgöngur, hvað sem þeim kann að þykja um virkjanaframkvæmdir, og þeir sem hlynntir eru virkjun eygja von um að henni fylgi vegabætur. Og fleira, til dæmis bætt fjarskipti og rafmagnsöryggi.
Í þeirra huga er þetta stórmál og auðvelt að sitja á rassinum í Reykjavík og þykjast hafa rétta skoðun fyrir hönd þeirra. Þess vegna langar mig að setjast við fleiri eldhúsborð fyrir norðan og heyra fleiri raddir í þessu fallega en tilfinningaríka samfélagi, fanga ólík sjónarmið í þessu merkilega samfélagi.
Náttúran er auðvitað ástæðan fyrir því að fólk kýs að búa í Árneshreppi hvernig sem það umgengst hana, hún sameinar fólkið og einmitt það gerir samfélagið svo einstakt.
Framtíðin í barni
Eftir matinn fékk ég að leggja mig hjá þessari góðu konu. Dormaði í sófa með ullarteppi við glugga sem vísaði út í svo óbeislaða náttúru að eitt augnablik fannst mér ég verða að engu, þrátt fyrir magafylli af djúpsteiktum kjúklingabitum.
Ég rumskaði þegar átta ára dóttir hennar kom heim úr skólanum. Eina barnið sem þar er eftir, framtíðin í líki barns. Og á meðan barnið spurði mömmu sína hvort það mætti fara niður í kaupfélagið á neðri hæðinni því þar væri eitthvað spennandi lauk sveitarstjórnarfólkið fundi um framtíð víðernisins. Það hlýtur að vera svimandi ábyrgð að stjórna sveitarfélagi þar sem fegurðin sjálf á lögheimili. Og framtíðin veltur á einu stúlkubarni sem fær Kentucky Fried Chicken sérstaklega sent með flugvél frá Reykjavík.