Undanfarin fjögur ár hef ég verið svo heppin að fá að þjóna íbúum í Kópavogi sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og skipulagsráðs. Við höfum unnið af heilindum og vandað okkur. Við leggjum þau verk í dóm kjósenda, sátt við árangurinn. Verkefnunum er hins vegar ekki lokið þó málefnaskrá núverandi meirihluta sé tæmd. Það eru fleiri verk að vinna.
Okkur hefur tekist að laða að fjölmörg stór fyrirtæki og ríkisstofnanir sem hafa valið sér ný framtíðarheimili í Kópavogi. Það hafa tæplega 4.000 manns einnig gert. Við höfum styrkt stoðir grunnþjónustunnar, m.a. með fjölgun félagslegra íbúða, styrkingu dagvistarúrræða fyrir yngstu Kópavogsbúana og framúrskarandi þjónustu við fatlaða. Við viljum að fólkinu okkar líði vel og þess vegna ætlum við líka að tryggja rekstur Geðræktarhúss í gamla Hressingarhælinu sem þjónustar þá sem þurfa stuðning og þess að utan um þá sé tekið.
Fimm hverfi bæjarins munu á næstu árum ganga í metnaðarfulla endurnýjun lífdaga. Í því verkefni þarf að halda vel um stjórnartaumana og tryggja náið samstarf við íbúa og fyrirtæki til að hverfin haldi áfram að þjóna hagsmunum íbúanna, og til að tryggja aukið framboð af litlum og meðalstórum íbúðum. Við ætlum líka að halda áfram að tala við fólkið okkar og fá það til að hjálpa okkur að velja verkefni sem sett verða í forgang í íbúalýðræðisverkefninu „Okkar Kópavogur“ en yfir 70 ný verkefni sem styrkja nærumhverfið hafa verið framkvæmd á kjörtímabilinu. Við ætlum líka að tvöfalda það fjármagn sem nýtt hefur verið til að hlúa að nærsamfélaginu í einstökum hverfum.
Íbúum hefur einnig fjölgað ört í efri byggðum Kópavogs. Þar liggur fyrir að ljúka þarf við frágang á umhverfi í nýrri hverfum, hlúa að þeim eldri og bæta umferðarflæði út úr hverfunum. Við viljum setja í forgang að ljúka við Arnarnesveginn.
Við viljum líka fjárfesta í unga fólkinu okkar með því að bæta starfsumhverfi skólanna, endurbæta skólalóðir, bjóða upp á holla og næringarríkan mat, tryggja frábæra íþrótta- og tómstundaaðstöðu og stofna afrekssjóð til að styrkja ungt afreksfólk í íþróttum. Við ætlum að jafna aðstöðu barna sem búa við skort og tryggja þeim þátttöku í íþróttum og æskulýðsstarfi. Hið sama gildir um eldri borgara. Við ætlum m.a. að tryggja þeim frístundakort til að styðja þá til að viðhalda hreysti og heilsu.
Ágæti kjósandi í Kópavogi. Ég og félagar mínir í BF Viðreisn viljum halda áfram traustum rekstri bæjarins og tryggja þannig framúrskarandi þjónustu og vellíðan bæjarbúa á öllum aldri. Til þess þurfum við þinn stuðning.
Höfundur er oddviti BF Viðreisnar í Kópavogi.