Harður ágreiningur hefur skapast meðal íbúa Árneshrepps nú í aðdraganda sveitarstjórnarskosninga, og nær ágreiningur þessi út fyrir landamörk sveitarfélagsins. Rótin er bygging Hvalárvirkjunar.
Á vef Hagstofunnar kemur fram að þann 1. janúar á þessu ári hafi í sveitarfélaginu Árneshreppi búið 43 einstaklingar. Síðustu fimm árin hefur íbúafjöldinn verið á bilinu 43 til 53. Um er að ræða fámennasta sveitarfélag landsins. Ekki má miklu muna. Í Skorradalshreppi bjuggu um áramótin 56 og í bæði Helgafellssveit og Tjörneshreppi alls 58 manns.
Þetta minnsta sveitarfélag landsins er þannig klofið í herðar niður vegna deilna umhverfisverndarsinna, sem hafa mikið til síns máls þegar kemur að verðmætum sem fólgin eru í ósnortinni náttúru fyrir vestan í nágrenni við Hornstrandir og þeirra sem vilja virkja, hafa örugglega á sama hátt mikið til síns máls, og tryggja þannig það sem talað er um sem rafmagnsöryggi á Vestfjörðum. Hreppsnefndin er klofin í málinu, þrír eru fylgjandi, oddvitinn þar á meðal og tveir andvígir. Auk þess hafa þessir fáu íbúar sveitarfélagsins skipað sér í tvær fylkingar í málinu.
Málið hefur komist í hámæli vegna lögheimilisflutninga sem áttu sér stað í kjördæmið, af hálfu einstaklinga sem eru mótfallnir virkjuninni. Átján fluttu í hreppinn, þar af felldi Þjóðskrá niður nokkra flutninga. Alls nam fjölgun íbúanna eftir lögheimilisflutningana hátt í 40 prósent. Deilur hafa einnig verið uppi um endanlega kjörskrá, aðkomu verktakans sem vill sjá um að byggja virkjunina að málinu og meintar óeðlilegar greiðslur sveitarstjórnar til lögmannsstofu sem séð hefur um að útvega lögmannsálit um hitt og þetta. Þetta er sem sagt orðinn ekta íslenskur Dallas þáttur.
Fæst erum við sérfræðingar í málinu. Hvorki þegar kemur að staðháttum né áhrifum eða áhrifaleysi fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á svæðinu.
Flest erum við hins vegar orðin sérfræðingar í áhorfi á nákvæmlega þessa atburðarás. Atburðarás þar sem frek inngrip í náttúruna eru sögð munu bjarga einhverju úti á landi sem vill svo til að er náttúruperla. Inngrip sem sjaldnast skila því sem er lofað en eyðileggja oftast meira en hægt var að spá fyrir um.
Við höfum líka lært betur og betur það sem við höfum ekki endilega alltaf öll vitað, eða kannski vitað en ekki borið nægilega virðingu fyrir. Það eru verðmætin sem fólgin eru í óspilltri náttúrunni umfram það sem að hvers kyns virkjanaframkvæmdir eða önnur inngrip geta veitt okkur til lengri tíma. Umræða og meðvitund um náttúruverndarmál er svo langt komin, hefur blessunarlega þroskast ótrúlega á stuttum tíma, nokkrum árum jafnvel, og við vitum sem er að margar af ákvörðunum fortíðarinnar myndum við aldrei taka í nútíðinni. Sumt verður ekki aftur tekið.
Það er líklegt að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum hafi enginn algjörlega rétt fyrir sér og enginn algjörlega rangt. Illan hug eða ásetning er líkast til hvergi að finna hjá þeim sem hafa á því skoðun eða hafa einhverja aðkomu að því. Einhverjir vilja vernda náttúruna, aðrir vilja vernda byggðina. Bæði er göfugt. Þeim sem vilja vernda náttúruna er síðan líkast til alls ekki sama um byggðina. Og öfugt. Svona mál eru ekki svört eða hvít, þó að umræðan vilji oft og tíðum láta þau líta þannig út.
Það er hins vegar þannig að það er umhugsunarefni, þrátt fyrir skilyrðislausan, mikilvægan og stjórnarskrárbundinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna, að svona ofboðslega fáir einstaklingar geti tekið ákvörðun eins og þessa, sem óneitanlega mun hafa áhrif á miklum mun fleiri og til miklu lengri tíma.
Þetta mikla fámenni sveitarfélagsins Árneshrepps gerir málið ýktara og sýnir í betra ljósi en oft áður hversu skrítið fyrirkomulag sveitarstjórnarmála er hér á landi. Hér búum við öll saman, 350 þúsund hræður, í 72 sveitarfélögum. Þar af tæplega 220 þúsund á Stór-Reykjavíkursvæðinu og 130 þúsund annars staðar.
Við hljótum að geta fundið einhverja leið til að skilgreina mál sem snerta okkur öll og eru stærri en svo að eitt sveitarfélag eigi það og megi það. Hvort sem það er Reykjavík, höfuðborgarsvæðið, Árneshreppur eða landsbyggðin. Ef til vill viðurkenna að stundum getur verið bráðnauðsynlegt að fleiri komi að ákvarðanatökum og það jafnvel einmitt þeir sem hafa ekki mesta hagsmuni af málinu sjálfu. Það getur þýtt að Árneshreppur verði að sætta sig við að átján nýir íbúar vilji hafa skoðun á virkjanamálum. Eða þá að virkjanir, stóriðjuframkvæmdir eða mikið náttúrurask, hvar sem er á landinu sé mál allra. Það kann þá líka að þýða að við í Reykjavík gætum þurft að sætta okkur við að staðsetning flugvallarins er stærra mál en bara skipulagsmál borgarinnar.
Ísland í heild sinni er eins og meðal sveitarfélag úti í heimi. Við hljótum að þurfa að átta okkur á, að þrátt fyrir að við höfum kosið að skipta okkar fámenna samfélagi í furðulega mörg enn fámennari samfélög, að þegar kemur að meiriháttar og óafturkræfum ákvörðunum er líklegast best að sem flestir komi að þeim.