Ég hef ákveðið að hætta að læra nýja hluti. Ekki meiri þekkingu í minn haus, takk. Ég framkvæmdi eins konar vörutalningu, eins langt og slík hugarleikfimi nær, og komst að því að ég veit nóg, í raun miklu meira en ég þarf að vita. Og mér finnst það ekki gagnast mér nógu vel. Ég sé bæði gáfaðra fólk en mig og þau hin sem, tja, virðist skorta þekkingarþorstann, og oft finnst mér báðir hópar lifa sínu lífi betur en ég. Blómstra jafnvel. Þetta fyllir mig öfund. Mér líður eins og ég hljóti að hafa tekið ranga beygju einhvers staðar, lesið mig í gegnum skógarþykknið á meðan annað fólk valdi skemmtiskokk í beina línu við strandlengjuna og kom í mark fleiri árum á undan mér.
Ekki misskilja mig, mér gengur ágætlega. Ég veit alveg helling og nýti mér það óspart. Blómstra jafnvel. Mér finnst frekar eins og ég hljóti að hafa náð ósýnilegum áfanga á einhverjum tímapunkti, komist á stað í lífinu þar sem minn bikar varð barmafullur af þekkingu og allt sem ég læri eða tileinka mér eftir þann áfanga valdi því að það flæði úr bikarnum. Þetta skapar ójafnvægi og er til trafala.
Nýlega las ég grein þar sem því var haldið fram að grasflatir væru eitt það versta sem mannkyn hefði gert jörðinni og sjálfu sér. Að vel hirtar grasflatir væru í raun heimsins versta fyrirbæri, að ekki aðeins værum við að skemma náttúrulega eiginleika grassins með þessum endalausa slætti okkar í leit að hinni fullkomnu golfflöt í forgarðinum heldur værum við að eyða óguðlegum upphæðum fjár í þessa tilgangslausu iðju, svo ekki sé minnst á röskun á jafnvægi náttúrunnar, slys sem verða á fólki við slátt og svo endalaust framvegis.
Grasflatir. Ég veit ekkert hvað ég á að gera eftir að hafa lesið þessa grein. Get ég fræðst betur um þetta stórkostlega vandamál? Þarf ekki einhver að taka að sér að mynda samtök sem berjast gegn grasslætti? Á ég að gera það? Eflaust gæti ég platað fullt af öðrum síþreyttum úthverfapöbbum með mér í hreyfinguna. Við myndum kalla okkur Óvini sláttuvéla, eða Grasvini. Við yrðum eflaust nokkuð fljótt að fjölmennu afli. En allt slíkt útheimtir vinnu, gríðarlega vinnu og ég … ég nenni því bara ekki.
En hver er hinn kosturinn? Að gera ekkert? Get ég setið heima hjá mér og horft á gjörvallt mannkyn útrýma sér með garðslætti? Vill enginn hugsa um börnin?!
Ég vildi óska að ég hefði aldrei lesið þessa grein. Þessi vitneskja þvælist bara fyrir. Ég get hvorugt aðhafst, tilhugsunin um báða valkosti er með öllu lamandi. Bikar minn titrar svo að önnur viska hrekkur úr honum, þökk sé þessum stóra dropa sem ég átti ekkert með að láta detta ofan í. Og ég er ekki einu sinni byrjaður að fjalla um stóru plastógnina, snjalltækjafíknina eða býflugurnar. Aumingja býflugurnar! Þær eru að deyja. Hver ætlar að bjarga býflugunum? Á ég að gera það?
Nei. Ég hef ákveðið að hætta að læra nýja hluti. Það er hvort eð er enginn eftir í mínu lífi sem fylgir lærdómi mínum eftir. Fyrsta aldarfjórðung ævinnar skiptist fólk á að troða í mig upplýsingum. Foreldrar, kennarar, þjálfarar, annað almennt fullorðið fólk, vinnuveitendur, prófessorar. Pistlahöfundar.
Á einhverjum tímapunkti varð ég minn eigin herra. Þetta var það besta sem gat komið fyrir mig, eða það hélt ég að minnsta kosti. Ég var heppinn, forréttindapési, man þegar ég gekk út úr háskólanum og beint inn í vel launaða yfirmannsstöðu. Mér var treyst, ég var búinn að læra lexíurnar. En ég áttaði mig ekki á að eitt hafði ég ekki lært á þessari kvartöld, og það var að stýra eigin þekkingarleit. Áratug síðar les ég engar greinar nema einhver mæli með þeim á Facebook og Twitter, fræðimennskan fer að mestu fram á YouTube og ef Sindri Sindra eða Bogi Ágústs segja mér ekki fréttir af atburðum í kvöldfréttum gerðust þeir ekki. Fake news. Ef ég hefði lokast inni í helli við útskrift væri ég eflaust betur staddur en í dag. Þá hefði ég getað tekið mitt fullkomna þekkingarjafnvægi eftir fullan, akademískan feril og nýtt það eins og mér var ætlað. Verndaður af bergmáli eigin hugsana. En mér var hins vegar ekki sjálfrátt. Ég tók við fullkomnum kokteil og fór að hella kardimommudropum og Red Bull út í. Í dag er þetta rusl ódrekkandi. Innihaldsefnin eru öll þarna en það skortir jafnvægið.
Æi, fokk. Ég er búinn að fara allt of langt með þessa drykkjarsamlíkingu hér. Þetta var góð hugmynd en ég gekk allt of langt með hana. Og ég er sennilega farinn að endurtaka mig líka. Þessi pistill byrjaði svo vel, en ég er alveg búinn að klúðra þessu. Snilldarpælingin hefur breyst í Facebook-status, ef þá það. Ég biðst forláts.
Kannski ætti ég að gera eitthvað í þessu. Ég á masterinn alltaf eftir. Það er spurning hvort ég skrái mig ekki bara í háskólann, taki slaginn. Það er skömminni skárra en að hanga á YouTube og Facebook, og ég er nokkuð viss um að kennararnir í Háskólanum eru langtum ólíklegri til að reyna að troða Jordan Peterson og Russell Brand inná mig sem einhverjum leiðarljósum. Og ég skal hundur heita ef ég verð látinn lesa dómsdagsspár tengdar grasslætti í Árnagarði. Annars er grasið hér í garðinum mínum orðið ansi loðið. Hvernig get ég tekið svona stóra ákvörðun? Það er spurning um að malbika þetta bara í sumar.