Stjórnmál endurspegla samfélagið að mörgu leyti. Flokkar sem sækjast eftir áhrifum bjóða upp á mismunandi hugmyndir og leiðir til að ná mismunandi markmiðum. Fylgni við þau markmið, og þá samfélagsþróun sem þau leiða af sér, sýna í hvaða átt kjósendur vilja toga tilveru sína.
Áratugum saman voru íslensk stjórnmál þannig að hér ríkti 4+1 kerfi. Fjórir stjórnmálaflokkar sem röðuðu sér snyrtilega frá vinstri til hægri á hefðbundnum kvarða voru uppistaðan í kerfinu og fengu oftast nær um 90 prósent allra greiddra atkvæða. Nokkuð einsleitir karlar voru allsráðandi í fylkingarbroddi þeirra allra.
Svo var alltaf einn flokkur til sem endurspeglaði tíðarandann. Þeir urðu allir skammlífir. Nægir þar að nefna Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistann, Borgaraflokkinn og Þjóðvaka og Frjálslynda flokkinn í því sambandi.
Tveir flokkar stjórnuðu síðan vanalega öllu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til að mynda verið í ríkisstjórn í þrjú af hverjum fjórum árum sem liðið hafa frá því að hann var stofnaður. Og Framsókn í tvö af hverjum þremur.
Það er ekki langt síðan að þessi staða var nokkurs konar lögmál. Flokkarnir tveir fengu tæplega 60 prósent atkvæða í þingkosningum 1999 og tæplega helming árið 2007.
Breytt landslag
Í kosningum allra síðustu ára hefur pólitíska landslagið gjörbreyst. Eftir opinberanir Panamaskjalanna var kosið til Alþingis í október 2016. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kolféll og fylgi fjórflokksins fór niður í 62 prósent. Alls fengu flokkar sem voru stofnaðir eftir árið 2012 um 38 prósent atkvæða. Þrír þeirra náðu mönnum inn á þing og fengu samtals þriðjung þingmanna.
Eftir þessar sögulegu kosningar voru sjö flokkar á Alþingi, konur höfðu þar aldrei verið fleiri og þingmannaflóran endurspeglaði fjölbreytileika íslensku þjóðarinnar betur en nokkru sinni áður.
Þrír yngstu flokkarnir,Björt framtíð, Viðreisn og Píratar, áttu það sameiginlegt að leggja mikla áherslu á frjálslyndi. Þeir vildu, að minnsta kosti í orði, breytingar sem byggðu á jákvæðni, meira gagnsæi og meira vald til fólksins. Þeir voru allir alþjóðlega- og lýðræðislega sinnaðir. Vildu minni spillingu og minni frændhygli. Opnara samfélag.
Það reyndist flókið að mynda ríkisstjórn á hefðbundinn máta. Eftir fjölmargar tilraunir enduðu tveir nýju flokkanna, Viðreisn og Björt framtíð, í mjög tæpri og óvinsælli ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórn sem sprakk eftir átta mánuði. Og kosið var að nýju í október 2017. Í aðdraganda þeirra var viðhöfð pólitísk orðræða um að það þyrfti að koma á stjórnfestu, helst tveggja flokka sterkri stjórn sem gerði litlar málamiðlar og að það væri eitthvað „sem kjósendur þyrftu að huga að“.
Kjósendur hlýddu ekki
Niðurstaðan varð að átta flokkar voru kosnir á þing og algjörlega ómögulegt var að mynda stjórn með færri en þremur flokkum. Sitjandi ríkisstjórn beið afhroð og tapaði tólf þingmönnum. Björt framtíð þurrkaðist út, Viðreisn rétt hékk inni og Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína næst verstu niðurstöðu í sögunni. Innan árs sveiflaðist pendúllinn frá frjálslyndi og opnun í átt að þjóðerniskennd og aukinni einangrunarhyggju sem boðuð var af nýjum popúlískum flokkum. Slíkir fengu ellefu þingmenn kjörna.
Sigurvegarar kosninganna voru miðaldra karlar. Fjöldi kvenna á þingi fór úr 30 í 24. Niðurstöðurnar voru allt aðrar en árið áður.
Samt var mynduð ríkisstjórn þriggja flokka sem tilheyrðu gamla fjórflokknum. Nokkurs konar kyrrstöðustjórn í kringum persónuvinsældir Katrínar Jakobsdóttur um að breyta kerfum eins lítið og kostur er á sama tíma og samfélagið á Íslandi er að ganga í gegnum meiri breytingar en nokkru sinni áður.
Sveiflan til baka í höfuðborginni
Í borgarstjórnarkosningunum um síðustu helgi voru 16 flokkar í framboði og átta náðu kjöri. Þar sem Samfylkingin og Píratar útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk er ómögulegt að mynda meirihluta sem inniheldur færri en fjóra flokka. Sósíalistaflokkur Íslands, flokkur sem stillir sér upp sem málsvari fátæks fólks á Íslandi, hlaut glæsilega kosningu og fékk fleiri atkvæði en Miðflokkur, Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og flokkur sitjandi forsætisráðherra, Vinstri græn.
Konur eru nú mikill meirihluti borgarfulltrúa, alls 15 af 23. Af þeim átta flokkum sem náðu inn eru oddvitar sex þeirra konur. Einungis stóru flokkarnir tveir sem ráku kosningabaráttu sem snerist um hvor þeirra ætti að fá borgarstjórastólinn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, er stýrt af körlum. Tveir innflytjendur eru kjörnir fulltrúar í Reykjavík. Einn fulltrúi er af blönduðum uppruna. Sjónarmiðin sem eru endurspegluð hafa aldrei verið fleiri.
Frjálslyndir flokkar og vinstri flokkar fengu rúmlega 53 prósent atkvæða. Íhaldsmengið fékk 44 prósent. Þrjú kynþáttahyggjuframboð fengu samtals 505 atkvæði.
Á landsbyggðinni var niðurstaðan síðan allt önnur. Þar vann hinn þjóðernissinnaði Miðflokkur stærsta kosningasigurinn.
Breyta þarf stjórnarháttum
Það er gjörbreytt pólitískt landslag á Íslandi vegna þess að íslenskt samfélag er að ganga í gegnum mesta breytingarskeið sem það hefur nokkru sinni gengið í gegnum. Við erum að vaxa upp úr því að vera þjóð sem sættir sig við einsleita og keimlíka stjórnendur sem reka stjórnkerfi okkar úr rassvasanum og taka ákvarðanir yfir viskíglasi og vindlum. Fylgið getur sveiflast á milli mjög ólíkra póla eftir því hvort þjóðin upplifir sig jákvæða eða hrædda.
Skilaboðin sem send hafa verið í undanförnum kosningum eru ekki sú að að þjóðina lengi eftir hinum svokallaða stöðugleika fortíðar, þar sem „sterkir“ leiðtogar tóku allar ákvarðanir.
Skilaboðin eru þau að stjórnarhættirnir endurspegli niðurstöður kosninga betur. Að ólík sjónarmið komi saman og fundnar verði leiðir til þess að vinna með þau. Ef stjórnmálamenn finna ekki leiðir til að vinna með þessa stöðu mun fylgið leita enn frekar á popúlista sem ná að nýta sér gremju kjósenda.
Það ætti allt gott fólk að vilja forðast.