Tvö mál má segja að séu nú meðal stærstu viðfangsefna samfélagsins, þegar kemur að stjórnsýslu, atvinnulífi og stjórnmálum. Annars vegar eru það mál sem snúa að meðhöndlum persónuupplýsinga og hins vegar breytingar á innviðum fjármálakerfisins.
Í báðum tilvikum hafa málin komið inn á borð íslensks samfélagsins frá Evrópusambandinu (ESB), en enginn Íslendingur fékk þó að taka þátt í rökræðunni um málin með formlegum hætti, þar sem Ísland er ekki aðili að ESB.
Engin eða veik rödd
Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á ESB þá er ekki hægt að horfa framhjá því, að hinn alþjóðavæddi heimur er orðinn þannig að margar stærstu ákvarðanir um breytingar á okkar samfélagi eru teknar innan alþjóðstofnanna þar sem við höfum enga eða afar veika rödd.
Í fræðilegu tali hafa þessi mál verið nefnd GDPR og PSD2, í höfuðið á tilskipununum sem málin markast af. Íslensk fyrirtæki hafa verið að undirbúa sig fyrir þessar breytingar og Alþingi er nú með GDPR til umfjöllunar, en flest fyrirtæki hafa þegar gripið til ráðstafana enda hefur tilskipunin þegar tekið gildi á áhrifasvæði hennar innan EES.
Að baki þessu máli liggur gríðarlega umfangsmikil vinna í Evrópuþinginu. Margra ára rökræður um mörg álitamál sem snúa að meðhöndlun persónuupplýsinga og greiðslumiðlun.
Í báðum málunum er internetið í aðalhlutverki, en á því eru engin landamæri.
Með PSD2 tilskipuninni er t.d. afnumið kverkatakið - eins og sumir hafa komist að orði - sem bankar hafa á færslum af og á bankareikninga og aðgengi að upplýsingum um stöðu og hreyfingar þeirra. Samþykki viðskiptavina þarf til, en breytingarnar marka þáttaskil í bankaþjónustu.
Eins og rakið hefur verið í fróðlegum greinum í Vísbendingu á undanförnum mánuðum, þar sem Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu Bankanna, hefur meðal annars fjallað um breytingar á bankastarfsemi, þá má segja að þetta séu sögulegar breytingar sem eru að eiga sér á innviðum atvinnulífsins.
Hvernig eigum við að haga þessu til framtíðar?
Margar spurningar vakna, þegar hugað er að þessum hlutum:
Hvernig mun Ísland standa í þessum landamæralausa heimi í framtíðinni, með okkar eigin mynt og sjálfstæða peningastefnu? Erum við tilbúin til að takast á við þessar breytingar? Hverjir eru kostir okkar samfélags og gallar, þegar horft er til þessara þátta?
Það er ekki endilega víst að það sé best, að fá hlutina fullgerða inn á borð stjórnmálamanna, þegar þeir eru í reynd orðnir fullmótaðir og komnir til framkvæmda á öllum alþjóðamörkuðum, eins og reyndin er með GDPR og PSD2.
Að því leytinu til, má segja að hinn alþjóðavæddi heimur skelli síendurtekið á Íslandi. Andstaða við ESB og alþjóðalegar myntir eins og evru og Bandaríkjadal, skiptir engu máli í þessu samhengi. Málin halda áfram að berast inn á borð stjórnmálamanna og til framkvæmda í alþjóðavæddum heimi, alveg óháð því hvaða skoðanir stjórnmálamenn hafa á ágæti þeirrar þróunar.
Erum í samkeppni á alþjóðlegum markaði
Eitt atriði liggur þó fyrir: Íslenskt efnahagslíf starfar á alþjóðlegum markaði, hvort sem litið er til sjávarútvegs, þjónustu við ferðamenn, smásölu, fjármálaþjónustu, tæknigeirans, eða annarra hliða hagkerfisins. Til framtíðar litið er það mikið hagsmunamál fyrir Ísland, að ná með einhverjum hætti að hafa aðkomu að mótun regluverksins, áður en það skellur á landinu. Það er of seint að ætla sér að hafa afgerandi áhrif á það eftir að það er komið til framkvæmda hjá öllum öðrum löndum.