Tekjublöðin komu út í síðustu viku. Þar eru mánaðarlaun hátt í 4 þúsund Íslendinga birtar og reiknaðar út með því að álykta út frá útsvarsstofni samkvæmt álagningaskrá. Þar kennir ýmissa grasa. Sumir eru með margar milljónir á mánuði. Aðrir minna, flestir raunar. Eins og gengur. Mikið af harðduglegu fólki sem vinnur vinnuna sína eins og gert er ráð fyrir. Frumkvöðlar, millistjórnendur, menntafólk og listamenn. Og fleiri. Alls konar.
Þó að tekjublöðin séu enginn heilagur sannleikur um stöðu samfélagsins þá segja þau vissa og nokkuð skýra sögu. Það er arðbærast í íslensku samfélagi að passa peninga. Í blöðunum má finna blaðsíðu eftir blaðsíðu af alls konar mismunandi millifærslufólki með tvær milljónir á mánuði að gera eitthvað fyrir bankana, lífeyrissjóðina, þrotabúin, tryggingafélögin. Lögfræðingar, fjárfestar, viðskiptafræðingar, endurskoðendur, ráðgjafar. Að víla og díla með okkar peninga, innstæður okkar, lífeyrinn og kröfur. Sumir með mánaðarlaun sem eru 187 föld lágmarkslaun.
Það er einfaldlega miklu skynsamlegra að passa peninga en passa til dæmis börn. Enginn leikskólastjóri eða -kennari er í Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Þeir rata ekki þangað inn. Matið er kannski svo að öllum sé sama um hvað leikskólastarfsmenn eru með í laun. Þeir selja engin blöð. Það á við um miklu fleiri stéttir. Þær sem vinna með annað fólk, gamalt og ungt. Þær sem þrífa upp eftir hina og þau sem vinna þungavinnu. Og svo framvegis og svo framvegis. Hæstlaunaði leikarinn er með sömu laun og miðlungsmaður í flokknum „næstráðendur og fleiri“. Venjulegir miðlungslaunaðir fjölmiðlamenn eru með sambærilegar fjárhæðir á mánuði og þeir lægstu í flokknum „ýmsir menn úr atvinnulífinu“.
Ef litið er yfir sviðið er engin leið að átta sig algjörlega á því hvað veldur því að þetta er svona. Af hverju við höfum ákveðið verðleggja sum þessara starfa svona miklum mun hærra en önnur. Það er ekki eins og það sé ekki eftispurn eftir kennurum og leikskólakennurum. Það er meira að segja umframeftirspurn. Bara inn á vef Reykjavíkurborgar voru í þessari viku 22 auglýsingar eftir leikskólakennurum og ellefu grunnskólakennurum og flestir skólanna eru ekki einu sinni byrjaðir að kvíða haustinu. Hátt í 40 starfsmenn vantar í skólana bæði í Kópavogi og Hafnarfirði. Lögmál framboðs og eftirspurnar eru víðs fjarri.
Fjölmiðlaumhverfið kemur sérstaklega kaldhæðnislega út í tekjublöðunum. Munurinn á launum fjölmiðlafólks, sem vinnur við að veita almenningi upplýsingar um gang samfélagsins, upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir alla að hafa aðgang að til að geta verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi, og lobbíistanna eða hagsmunasamtakanna, þeirra sem sjá um að mála glansmynd af þeim hæstlaunuðustu í samfélaginu, til dæmis atvinnurekenda og fjármálakerfisins, er gígantískur. Þessi munur á verðlagningu starfa er svo mikill að hann væri eiginlega fyndinn ef hann væri ekki svona fáránlegur og beinlínis hættulegur.
Hvernig má það vera að þessir varðhundar atvinnurekenda eða þessi ótrúlegi fjöldi sem vinnur við að viðhalda fjármálakerfi sem er fráleitt stórt miðað við mannfjöldann hér á landi sem og umfang viðfangsefnisins, íslensks fjármálakerfis sem lengst af frá hruni hefur starfað innan hafta, séu svona margfalt verðmætari heldur en svo margir aðrir í samfélaginu?
Það er í grunninn alveg sama hvar fólk stendur pólitískt. Hvort það er jafnaðarmenn sem vilja beita lögum og skattheimtu til að jafna stöðu borgaranna eða talsmenn einstaklings- og viðskiptafrelsis sem trúa og treysta á því að markaðurinn leysi til lengri og skemmri tíma öll vandamál. Þessi staða er galin. Það er ekki til nein vitræn skýring á því hvað varð til þess að við sem samfélag ákváðum að málunum væri best fyrirkomið með þessum hætti. Að kennsla skipti okkur svona miklu minna máli en markaðsstjórnun í Landsbankanum. Að sá leikari sem var verðlaunaður fyrir að skara fram úr öllum á sínu sviði á síðasta ári sé jafn okkur verðmætur og viðskiptastjóri sjávarútvegs Íslandsbanka.
Við erum búin að mála okkur út í horn. Einhvern veginn gerðist það bara að samfélagið þróaðist með þessum hætti.
Flestir eru meðvitaðir um að án atvinnulífsins, án verðmætasköpunar í hvaða mynd sem er, er ekkert af hinu mögulegt. En atvinnulífið, verðmætasköpunin, er að sama skapi fullkomlega háð öllu hinu. Hvar væri atvinnulífið án kennaranna sem menntar alla fræðingana sem prýða síður tekjublaðanna? Hvar væri samfélagið án lista? Án fjölmiðla? Án ljósmæðra?
Það er alveg örugglega þannig að einhver störf eru verðmætari en önnur. Hver þau eru skal hér ósagt látið. En sú niðurstaða sem birtist okkur í tekjublöðunum er með þeim hætti að hægt er að fullyrða að matið okkar fór einhvers staðar út af leið, er orðið rammskakkt. Spurningin er hvernig og hvenær það verður lagað og leiðrétt. Af því leiðrétting á þessari skekkju er óhjákvæmileg.