Cristiano Ronaldo, fyrirliði Portúgal og leikmaður Real Madrid, hefur samþykkt að greiða 18,8 milljónir evra, eða sem nemur um 2,5 milljarði króna, í sekt til yfirvalda á Spáni vegna ákæru á hendur honum fyrir skattsvik, og viðurkennt sekt í málinu.
Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC, sem birtist í dag, er Ronaldo sagður hafa boðist til að greiða upphæðina sem hann var sakaður um að hafa skotið undan í fyrra, en yfirvöld neituðu og hafa haldið málinu gegn honum til streitu.
Hann á nú að hafa gert munnlegt samkomulag um að hann greiði sektina og viðurkenni sekt. Ólíklegt þykir að hann þurfi að sitja í fangelsi vegna lögbrotanna, en það er þó ekki útilokað, þar sem upphæðin í máli hans er mun hærri en í öðrum málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir svipuð mál.
Formlegt samkomulag um málalyktir liggur þó ekki fyrir, samkvæmt umfjöllun BBC.
Málið snýst um skattaundanskot vegna tekna sem Ronaldo hafði af ímynd sinni, líkt og var raunin með mál yfirvalda gegn Lionel Messi, en hann greiddi þá 250 þúsund evrur í sekt og fékk tveggja ára fangelsi í refsingu.
Hann neitaði sök, ólíkt því sem Ronaldo hefur nú gert.
Á Spáni þurfa þeir sem hljóta tveggja ára fangelsi eða minna, fyrir auðgunarbrot eða skattsvik, ekki að sitja inni, haldi þeir skilorð.
Óhætt er að segja að Ronaldo sé ekki að láta þetta bitna á afrekum hans á vellinum, en hann skoraði þrennu fyrir Portúgal gegn Spánverjum þar sem leikar enduðu 3-3.