Eftir að hafa niðurlægt forsætisráðherra Kanada á fundi G7 og nánast lýst yfir viðskiptastríði við helstu bandamenn sína í Evrópu fór forseti Trump til Singapúr og hitt náunga sem hann virðist hafa miklar mætur á; Kim Jong Un, einræðisherra í Norður-Kóreu. En framtíðin er óljós í kjölfar fundarins, þrátt fyrir tíst forsetans um annað og fundurinn í Singapúr ef til vill aðeins fyrsta skrefið á langri göngu.
Þetta var lengsta fjölskylduferð sem Kim Jong Un hafði fari í. Já, fjölskylduferð vegna þess að fréttamyndir sýndu að helsti aðstoðarmaður hans var systir hans, ,,hið ljósa man“ Kim Yo Jong (sem vakti mikla athygli á síðustu vetrarólympíuleikum). Það var hún sem rúllaði stólnum undir Kim þegar hann settist til að skrifa undir samninginn við Donald Trump í Singapúr og það var hún sem skipti um penna, sem Kim síðan notaði til að pára nafn sitt á sama samning (sagt er að á borðinu hafi legið penni með innsigli Donald Trump, sem Kim vildi að sjálfsögðu ekki nota).
Þessi toppfundur/leiðtogafundur var vissulega sögulegur. Aldrei hafði leiðtogi hins hryllilega ,,ættareinræðis“ í Norður-Kóreu hitt sitjandi forseta Bandaríkjanna. En fundurinn hafði verið blásinn af fyrir nokkrum vikum, eftir að Kim (Norður-Kórea) hafði lýst Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna sem pólitísku fífli. Það olli reiði í Washington. Á mánuðunum þar á undan hafði ríkt nánast stríðsástand á milli ríkjanna, með ótrúlegum fúkyrðum á báða bóga, niðurlægingum og fleiru. Norður-Kóreumenn höfðu verið að gera tilraunir með kjarnorkuvopn og hótuðu meðal annars Bandaríkjamönnum að þeir væru nú komnir með flugskeyti sem gætu náð alla leiðina þangað. Voru þeir meðal annars að ,,leika sér“ við að skjóta flugskeytum yfir Japan, sem setti allt á annan endann þar.
Illska í Washington – en fundur samt
Allt þetta brölt olli illsku í Washington. En þar sem sitjandi forseta Bandaríkjanna virðist líka vel við nánast hvaða einræðisherra sem er, þá var fundurinn settur aftur á og ákveðið að hafa hann í Singapúr í Asíu. Kim Jong Un er einræðisherra í landi sínu og má því ekki fara of langt að heiman, enda var fundurinn varla búinn þegar hann hoppaði upp í bandaríska júmbóþotu (annað varla passandi fyrir Kim) í eigu Air China og brunaði beint heim til höfuðborgarinnar Pyonyang. Þar þarf hann að halda í alla spotta, alltaf, enda enginn ,,aðstoðar-einræðisherra“ til í Norður-Kóreu. Kim hefur þó greinlega sína tryggu systur sér við hlið. Það sást á öllum myndum frá Singapúr, á meðan Trump hafði nýlegan utanríkisráðherra, Mike Pompeio, sér við hlið.
Allt í hámynd
Trump hefur verið stóryrtur eftir fundinn á uppáhaldsgræjunni sinni, Twitter og (eins og um allt annað) talað um hann í hámynd. Trump hefur t.d. fullyrt að kjarnorkuhættan frá N-Kóreu sé úr sögunni. Bara búið mál! Öll kjarnavopn N-Kóreu eru þó enn til staðar og í samningnum sjálfum eru engin ákvæði um eftirlit, tímarammar eða anna slíkt, sem negla það niður hvernig N-Kórea á að ,,afkjarnorkuvæðast“ (denuclearization) á næstu árum, sem var og er helsta krafa Trump og félaga. Samningurinn sjálfur var aðeins 440 orð (nær ekki 1 A4 síðu) og hafa margir fréttaskýrendur lýst honum sem óljósum, allt sem Trump hafi í raun fengið séu bara loforð frá N-Kóreu (Kim) og engar tryggingar. Hingað til hefur N-Kórea svikið nánast öll loforð í sambandi við kjarnorkumál sín – og þetta er ekki fyrsti samningurinn (og samþykktir) sem þeir gera um kjarnorkuvopn, um fjölda slíkra er að ræða frá liðnum áratugum.
Kjarnorkan er valdatæki Kim
Enda má segja að kjarnorkuvopnaeign og aðgangur að kjarnorkutækni sé ein helsta líflína Norður-Kóreu og tryggi í rauninni völd leiðtoga landsins og hafi gert í gegnum tíðina. Landið er álíka stórt og Ísland en íbúafjöldi þess er um 25 milljónir manna eða álíka og íbúar allra Norðurlandanna. Í kringum það eru önnur öflug kjarnorkuveldi, Rússland og Kína. Ríkið varð til í kjölfar seinni heimsstyrjaldar (eftir sigur Bandaríkjanna á Japönum) og nánast óþekktur kommúnisti, Kim Il Sung varð leiðtogi þess. Hlaut það nafnið Alþýðulýðveldið Kórea. Stríð braust hinsvegar aftur út tveimur árum seinna þegar N-Kórea réðist inn í Suður-Kóreu. Rússar og Kínverjar studdu innrásarliðið en gegn því stóðu andstæðingar þeirra í suðri, sem nutu aðstoðar Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjamanna. Talið er að á bilinu 2-3 milljónir manna hafi fallið í þessu grimmilega stríði, sem stóð yfir frá júní árið 1950 til loka júlí 1953.
Frá undirritun vopnahléssamninga hefur því í raun ríkt stríðsástand á milli landanna. Fyrsti leiðtogi N-Kóreu, Kim IL Sung féll frá árið árið 1994 (reyndar er enn talað um að hann sé lifandi) og við tók sonur hans, Kim Jong IL. Hann passaði upp á þetta lokaðasta land heims fram til 2011, þegar sonur hans, Kim Jong Un, tók við, aðeins 27 ára gamall. Þá staðreynd gerði Donald Trump að umtalsefni sínu í kjölfar fundarins, þar sem hann lýsti yfir mikilli aðdáun á harðstjóranum unga og hvað honum hefði nú tekist vel upp með þetta – þ.e.a.s að taka við og stjórna öllu heila klabbinu, aðeins 27 ára gamall. Trump talaði hinsvegar lítið um að tugir, jafnvel hundruðir manna hafa verið teknir af lífi í stjórnartíð Kim Jong Un og talið er að hann hafi einnig látið kála hálf-bróður sínum Kim Ying Nam (sem sagt er hann hafi skammast sín fyrir) á flugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu. Tilræðið var óvenju ógeðslegt, en að verki voru tvær konur og notuðu þær VX-taugagas tils verksins, sem klínt var á andlit hálfbróðurins. Þá var einnig lítið rætt um stórfelld mannréttindabrot N-Kóreu á fundinum og litlum fréttum fer af þeim málaflokki og mikilvægi hans. Enda verður kannski að teljast fremur ólíklegt að forseti sem hermir opinberlega eftir fötluðum einstaklingum og gerir lítið úr konum, hafi mikinn áhuga á mannréttindum. Í þessu samhengi má einnig nefna að talið er að um 100-200 þúsund manns séu í vinnu og þrælkunarbúðum í Norður-Kóreu, því sem kallað hefur verið ,,gúlag“ og var mest notað í þriðja ríki Adolfs Hitlers og á valdatíma kommúnista í Sovéríkunum.
Einræðisaðdáun Trump
Annars er þessi augljósa aðdáun Donald Trump á helstu einræðisherrum heims sérstaklega áhugavert fyrirbæri, en á sama tíma nokkuð ógnvekjandi. Í kjölfar fundarins lýsti hann Kim Jong Un sem einstaklega skemmtilegum (,,very funny guy“), frábærum samningamanni og sterkum og gáfuðum leiðtoga sem elskar þjóð sína (sem hefur soltið heilu hungri undir stjórn feðganna)! Þá hefur hann einnig farið mjög lofsamlegum orðum um Pútín Rússlandsforseta, sem er í raun einráður í Rússlandi. Leiðtogi Kína, Xi Jinping, hefur líka fengið hrós frá Trump, þó hann hafi einnig talað illa um kínversku þjóðina. Enginn forseti Bandaríkjanna sem ég man eftir hefur tala með þessum hætti um helstu alræðisleiðtoga heimsins.
Trump ræður hjá Trump
Þetta allt saman er kannski ekki svo skrýtið í ljósi þess að Donald Trump er eiginlega einráður sjálfur í sínu umhverfi. Hann hefur í gegnum sinn feril sem fasteignabraskari (hann ruglaðist reyndar á hlutverkunum í Singapúr) stjórnað öllu í kringum sig. Ekkert sem gerst hefur í kringum Trump hefur ekki verið samþykkt af Trump. Hann er í raun forréttindagutti sem fékk ríkulega forgjöf frá föður sínum, sem einnig var í fasteignabransanum, og hefur í gegnum tíðina vanist því að stýra og stjórna öllu í kringum sjálfan sig (sem hann er greinilega mjög uppfullur af). Það er því kannski bara eðlilegt að hann hrífist af öðrum ,,Alfa-köllum“ í kringum sig þegar hann sér þá? En nú þegar eru farin að sjást hættuleg merki þessarar hegðunar í kringum Trump og til að mynda er farið að tala um að Repúblíkanaflokkurinn (sem Trump tilheyrir nú, hann var líka einu sinni demókrati) sé að breytast í einskonar ,,Trump-költ“ eða sértrúarsöfnuð, þar sem skefjalaus persónudýrkun á sér stað gagnvart Trump og bara ,,Trump-línunni“ sé fylgt. En persónudýrkun og upphafning sterkra leiðtoga hefur einmitt verið eitt af helstu einkennum alræðis og fasistastjórna í gegnum tíðina. Verstu dæmin um þetta eru Adolf Hitler, Jósef Stalín og einmitt Kim IL Sung, sem ef til vill er langsamlega versta dæmið.
Opnast raunverulegar dyr?
En aftur að leiðtogafundinum. Það sem er kannski jákvæðast við hann er að menn séu nú að tala saman - að menn séu að kynnast (,,know your enemy“). Það er mikilvægt og það getur opnað dyr. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeio verður á ferðinni í Asíu á næstunni að manni skilst, til að fylgja fundinum eftir. Norður-Kórea býr við miklar viðskiptaþvinganir og lífsgæði þar eru mörgum sinnum lakari en í löndunum í kring, nema fyrir þá sem búa í Pyonyang, flokksgæðinga kommúnistaflokksins, aðila innan hersins og fleiri slíka. Enda er þetta fólkið sem eru helstu burðarásar valdakerfis Kim Jong Un. Á tíunda áratug síðustu aldar (1994-1998) gekk hungursneyð yfir landið og talið að allt að 1-2 milljónir manna hafi látist. En þar sem um er að ræða eitt lokaðasta land í heimi er mjög erfitt að fá allar tölur staðfestar. Þetta er þó talið nokkuð öruggt. Helsti viðskiptaaðili landsins er Kína og talið að um töluverða ,,svarta verslun“ sé að ræða á landamærum ríkjanna. Kína vill ekki frekari vandræði í N-Kóreu, en það getur valdið miklum flóttamannavanda yfir til Kína og á því hafa valdamenn í Peking engan áhuga.
Takist Bandaríkjamönnum hinsvegar eftir fundinn að halda þessari nýju línu opinni þá er ekki ólíklegt að eitthvað meira jákvætt geti gerst í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Sem er gott og ætti ef til vill að auka líkurnar á varanlegum friði og stöðugleika á svæðinu.
Höfundur er MA í stjórnmálum A-Evrópu frá Uppsalaháskólanum í Svíþjóð.