Skráning Arion banka á markað hefur heppnast vel og er mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf.
Eitt af því sem er mikilvægast við skráninguna, er að í aðdraganda hennar fór fram hreinskiptin umræða um stöðu íslenska bankakerfisins eftir endurreisnina á grundvelli neyðarlaganna og fjármagnshafta fyrir tæpum áratug. Þegar hugsað er til baka, þá var þetta eðlileg - en vissulega nokkuð hörð - rökræða um hvernig væri best að endurheimta traust á bankakerfinu og tengja það við alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Þó það eigi alveg eftir að koma í ljós, hvernig fjárfestar muni horfa til Arion banka á skráðum markaði til framtíðar, þá er skráningin engu að síður mikilvæg fyrir uppbyggingu markaðsbúskapar.
Sitt sýndist hverjum, og sýnist eflaust enn, en stóra myndin er sú, að það skiptir Ísland máli að í landinu sé fjármálakerfi sem getur talist traust.
Búið að hreinsa íslenska kerfið
Með neyðarlögunum og fjármagnshöftunum - og þeirri vígstöðu sem þau sköpuðu í endurreisnarstarfinu - tókst að „hreinsa“ íslenska bankakerfið vel.
Erlendis hefur ekkert slíkt tækifæri komið. Forvitnilegt verður að fylgjast með viðbrögðum á fjármálamörkuðum í Evrópu í haust, þegar magnbundinni íhlutun (QE) Seðlabanka Evrópu lýkur, eins og hann hefur nú formlega boðað. Með henni hefur tekist að halda hjólunum á fjármálamörkuðum gangandi, með stórfelldum kaupum á skuldabréfum ríkja og fyrirtækja, en spurningin er hvaða veruleiki það verður sem birtist þegar henni lýkur.
Á Íslandi er staða hinna endurreistu banka nokkuð skýr.
Efnahagsreikningarnir sýna að að bankarnir eru gjörólíkir þeim sem hrundu eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008, enda er starfsemin nú einangruð við Ísland, svo til alveg. Eiginfjárhlutföll eru há, á bilinu 24 til 30 prósent. Í þetta skiptið er eigið féð heldur ekki falskt, eins og var þá.
Tvöfalda skráning Arion banka, á Íslandi og í Svíþjóð, gæti opnað dyr að frekari verkefnum fyrir bankann og þá grundvöll fyrir frekari skynsamlegri útvíkkun á þjónustu hans. Það yrði þá útrás, með jákvæðum formerkjum en ekki bóluvexti og fífldjarfri áhættutöku eins og síðast þegar bankarnir fóru í útrás.
Miklir hagsmunir fyrir ríkið
Íslenskur almenningur á mikla hagsmuni undir því að vel takist til í því að endurskipuleggja eignarhald á íslensku bönkunum, t.d. með sölu á þeim í gegnum skráningu á markað, með sambærilegum hætti og gert hefur verið með Arion banka.
Ef það má læra eitthvað af þeirri skráningu, sem má tala um sem víti til varast, þá er það óþolinmæði fjárfesta gagnvart óhagkvæmum rekstri. Verðmiðinn sem fékkst fyrir hluti í Arion banka var ekki svo hár, eða 0,6 til 0,7 sinnum eigið fé bankans.
Arðsemi eiginfjár Arion banka var undir 5 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, og það var svipað hjá Íslandsbanka. Kostnaðarhlutföll hafa verið í krinum 70 prósent. Hjá Landsbankanum var arðsemi eiginfjár í fyrra 8,2 prósent en kostnaðarfhlutfallið var rúmlega 46 prósent.
Það hefur sveiflast nokkuð hjá bönkunum eftir uppgjörum, en í stuttu máli sagt, þá benda rekstrarkennitölur bankanna til þess að þeir séu óhagkvæmir í alþjóðlegum samanburði.
Spurningin fyrir ríkið - og þar með almenning - er hvort það sé skynsamlegt, að hagræða verulega í rekstri bankana áður en þeir eru seldir, til að fá sem hæst verð fyrir þá? Það er að mörgu leyti rökrétt að sameina Íslandsbanka og Landsbankann, í ljósi þess að sami eigandinn er að þeim báðum, en líklega myndi Samkeppniseftirlitið finna því allt til foráttu, einhverra hluta vegna.
Það er yfirlýst stefna ríkisins að selja Íslandsbanka, en halda eftir um 30 til 40 prósent hlut í Landsbankanum.
Miklar stærðir
Ef íslenska ríkið fengi jafn mikið fyrir þá hluti sem það ætlar að selja, miðað við það sem það sem fékk fyrir 13 prósent hlutinn í Arion banka (23,4 milljarðar), þá getur ríkið fengið 263 milljarða króna í sinn hlut. Það er miðað við 0,8 sinnum eigið fé, miðað við það að ríkið selji 60 prósent hlut í Landsbankanum og Íslandsbanka að öllu leyti.
Samtals er eigið fé ríkisbankana tveggja 427,1 milljarður króna, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra.
Óhagræðið í bankakerfinu er ekkert grín fyrir almenning. Í því felst bruðl með almannafé sem annars myndi nýtast með skynsamari hætti, t.d. í að bæta mennta- og heilbrigðiskerfið. Þegar ríkið á bankakerfið að stórum hluta, þá eru almannahagsmunir í húfi þegar kemur að hagkvæmni í rekstri.
Ef ríkið fengi 0,6 sinnum eigið fé - en ekki 0,8 - þá fengi ríkið 197,2 milljarða í sinn hlut. Það munar meira en 65 milljörðum króna. Það má gera ýmislegt fyrir þann pening.
Íslensk stjórnvöld ættu að gera miklar kröfur til bankanna sem almenningur á, um að þar sé ekki verið að bruðla með fjármuni og að reksturinn standist samanburð þegar kemur að hagkvæmni. Í ljósi þess að bankarnir eru einungis að sinna okkar litla markaði, með 200 þúsund manna vinnumarkað undir, þá ætti það ekki að vera ósanngjörn krafa og tiltölulega auðvelt að fara eftir henni.
Miklar breytingar á rekstrarumhverfi banka, meðal annars vegna aukinnar þátttöku fjártæknifyrirtækja í greiðslumiðlun, gera líka þá kröfu til þeirra, að þeir séu reknir með hagkvæmum hætti.