Eftir árangur fótboltalandsliðsins á síðustu misserum, sem náði hvað hæst í jafnteflinu við Argentínumenn, er auðvelt að láta stemninguna og þjóðarrembinginn hlaupa með sig í gönur og halda því fram að við Íslendingar séum eitthvað merkilegri en allir aðrir. Svo er þó líklega ekki. Eða eins og segir í heimildarmyndinni Síðasta áminningin – sem fjallar einmitt um fótboltastrákana okkar: „Íslendingar eru jú bara venjulegt fólk. Ekkert ómerkilegri en aðrir, en ekkert merkilegri heldur.” Það er aftur á móti óumdeilt í huga flestra að Argentínumenn eru með mun betri knattspyrnumenn en við Íslendingar – sem sýndi sig til að mynda í opinberri tölfræði leiksins þar sem Argentínumenn voru 80% með boltann á móti 20% hjá okkur Íslendingum. En það er ekki allt. Maður hafði það alla vega á tilfinningunni, þegar maður horfði á fyrsta leik þjóðanna á HM, að íslensku leikmennirnir spiluðu eins og lið á meðan leikmenn Argentínu spiluðu sem einstaklingar.
Okkur Íslendingum hefur jafnan verið tíðrætt um samstöðuna og liðsheildina hjá okkar mönnum og hreykt okkur af henni á mannamótum. En getum við með réttu sagt að stemningin hjá íslenskum íþróttalandsliðum sé eitthvað betri eða merkilegri en hjá öðrum þjóðum? Ekkert endilega, en við getum þó með ágætis rökum haldið því fram að það var meiri liðsstemning og karakter hjá íslenska liðinu en því argentínska í leiknum á laugardaginn.
Í nýlegri rannsókn sem gerð var á Evrópumóti karla í knattspyrnu 2016 kemur fram að þau lið sem sungu með þjóðsöngvum sínum – og sungu af ástríðu og innlifun – náðu betri árangri en þau lið sem gerðu það síður. Sérstaklega voru þessi lið ólíklegri til að fá á sig mörk en þau lið sem voru ástríðulaus í þjóðsöngvunum. Hvað sem er svo sem til í því þá sáust strax merki þess í þjóðsöngvum Íslands og Argentínu í hvoru liðanna samstaðan var meiri. Leikmenn Argentínu stóðu langt frá hvor öðrum, og snéri markvörður liðsins meira að segja í aðra átt en aðrir leikmenn liðsins. Enginn söng með þjóðsöngnum. Íslensku leikmennirnir stóðu aftur á móti þétt saman, vöfðu örmum um hvor annan, og flestir sungu með þjóðsöngnum á meðan aðrir störðu einbeittir fram á við. Og á meðan Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands stóð með lokuð augun og hélt utan um félaga sína þar sem hann söng með að innlifun þá stóð þjálfari Argentínumanna einn á hlaupabrautinni, eitthvað órólegur eins og hann væri að bíða í röð eftir einhverju, og færðist ekki eitt orð af vörum. Þessi augljósu merki samstöðu sáust strax hjá íslenska liðinu en þau voru ekki til staðar hjá Argentínumönnum. Og þetta var forsmekkurinn að því sem koma skildi.
Þetta staðfesti greining á táknrænum samskiptum sem ég framkvæmdi á sjónvarpsupptöku af leiknum sjálfum á milli Íslands og Argentínu. Lausleg greining á látbragði, nánd og samskiptum leikmanna í leiknum, það er þeim jákvæðu boðskiptum sem búa til stemningu, ýta undir samkennd og smita von og trú manna á milli , sýnir að íslensku leikmennirnir voru mun virkari en þeir argentínsku í jákvæðum boðskiptum sín á milli. Stemningin var okkar megin. Sjónvarpsupptaka af knattspyrnuleik er auðvitað takmarkandi og gefur ekki heildarupplýsingar um magn ýmissa táknbundinna samskipta í heilum leik, en það er engu að síður hægt að líta á sjónvarpsupptöku sem úrtak úr þýði knattspyrnuleiks þar sem úrtakið er líklegt til að endurspegla þýðið. Þ.e. því oftar sem atferlið næst í mynd, því oftar á það sér stað í sjálfum leiknum.
Á upptöku af leiknum sjálfum sjást leikmenn íslenska liðsins ríflega 20 sinnum eiga jákvæð boðskipti sín á milli. Alfreð þakkar fyrir sendingu. Aron Einar, Birkir Már, Hörður Björgvin, Kári og Ragnar, klappa fyrir góðri vinnu félaga sinna. Hannes hvetur sína menn áfram. Emil gaf af sér. Rúrik slær á öxl Hannesar. Ari Freyr klappar og tekur utan um Hannes, Hannes tekur utan um Birki Má. Alfreð steytir baráttuhnefa í átt að bekknum, og svo að Birni Bergmann. Og þöglu týpurnar Gylfi, Jói Berg og Birkir Bjarna gefa af sér með endalausum hlaupum fyrir félaga sína. Heimir Hallgríms segir brandara. Helgi Kolviðs sömuleiðis. Allir útileikmennirnir hlaupa til Alfreðs eftir markið og fagna honum … og fagna svo hver öðrum.
Þetta var ekki raunin hjá Argentínumönnum. Þeir voru meira í því að svekkja sig. Tilvik um jákvæð boðskipti þeirra á milli má telja á fingrum annarrar handar. Di Maria þakkar einu sinni fyrir sendingu og Caballero markvörður klappar fyrir góðri tilraun. Þá er það helsta upptalið. En það sem var kannski mest sláandi var að enginn Argentínumannanna tók af skarið í þessum efnum, sérstaklega þar sem þeir þurftu svo sannarlega á því að halda. Hver tilraunin á eftir annarri fór út um þúfur. Klukkan tifaði. Dómsdagur færðist nær með hverri mínútunni. Hvað ef Argentína vinnur ekki Ísland? En það var enga hjálp að fá. Engin hvatning. Ekkert ósýnilegt afl. Allir einhvern veginn bara að hugsa um sjálfa sig. Fyrirliðinn sjálfur, Messi, sagði varla aukatekið orð allan leikinn. Og gaf ekkert af sér til félaga sinna. Ekki frekar en aðrir í argentínska liðinu. Það var í raun átakanlegt að horfa upp á hvern Argentínumanninn á eftir öðrum labba fram hjá félaga sínum, sem hafði mistekist, án þess að líta til hans, slá á bak hans, hvetja hann áfram, hughreysta eða stappa í hann stálinu. En þannig var það, og kannski þess vegna fór sem fór.
Jákvæð táknræn samskipti virka eins og ósýnilegt afl sem styður, hvetur og hjálpar fólki, gefur því kraft við að takast á við lífið og tilveruna, og sigrast á krefjandi verkefnum. Og það á ekki bara við um okkur venjulega fólkið, heldur líka um skærustu stjörnur fótboltans – sem eru jú bara venjulegt fólk eins og við hin. Þegar ítalski knattspyrnusnillingurinn Andrea Pirlo var að koma að vítapunktinum til að taka víti í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik HM gegn Frökkum árið 2006 þá var hann stressaður. Pressan náði til hans. „Ég reyndi að ná augnsambandi við Buffon [markvörð Ítala]; ég hefði svo þegið stuðning, eitthvað látbragð frá honum, góð ráð, bara eitthvað. En hann hafði greinilega nóg með sjálfan sig og ekki tíma fyrir mig ” skrifaði Pirlo. Þrátt fyrir alla reynsluna þá þurfti stórstjarnan Pirlo aðstoð félaga sinna. Það sama átti við um Argentínumenn í leiknum gegn Íslendingum. Messi, Di Maria, og Mascherano. Þeir stóðu einhvern veginn aleinir og berskjaldaðir frammi fyrir augum heimsins, á stóra sviðinu, og ekkert gekk. Það leit út eins og Messi liði hreinlega illa í öllu þessu tilstandi á meðan Aron Einar naut hverrar mínútu og sló meira að segja á létta strengi við unga drenginn sem fylgdi honum inn á völlinn – á leið í stærsta leik lífs síns.
Við Íslendingar erum kannski ekkert endilega merkilegri en einhverjir aðrir en ef við höfum þessa leikgleði, sýnum þessa óeigingjörnu hegðun og samhug, sem einkenndi íslenska landsliðið í leiknum gegn Argentínu þá getum við gert ótrúlega hluti, eins og náð jafntefli gegn Argentínu. Stemningin gefur okkur tólfta og jafnvel þrettánda manninn inn á völlinn. Það munar um minna í keppni þeirra bestu. Þetta er tölfræðin sem skiptir okkur hvað mestu. Og í keppninni um betri liðsheildina þá vann Ísland Argentínu örugglega 1-0 í fyrsta leik. Meira svona.
Höfundur er dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og ráðgjafi íþróttaliða.
Heimildir:
Hafsteinn G. Sigurðsson & Guðmundur Björn Þorbjörnsson (2018). Síðasta Áminningin. Reykjavík: Kalt Vor.
Slater, MJ., Haslam, SA, & Steffens, NK. (2018). Singing it for „“us“: Team passion displayed during national anthems is associated with subsequent success. European Journal of Sport Science, 18(4): 541-549.
Halldorsson, V. (2017). Sport in Iceland: How small nations achieve international success. London: Routledge.
Pirlo, A. (2016). I think therefore I play. Milan: BackPage Press.