Náttúrufræðistofnun Íslands, ríkisstofnun sem heyrir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sendi ráðherranum, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, tillögu um að svæði við Drangajökul verði friðlýst og færi svo gæti það strokað út áform um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Slík tillögugerð er hluti af lögbundnu hlutverki ríkisstofnunarinnar.
Á Náttúrufræðistofnun starfa sérmenntaðir vísindamenn sem vinna og stunda rannsóknir sínar eftir viðmiðum fræða sinna og nýjustu upplýsingum. Þrátt fyrir þá staðreynd mátti lesa þessa klausu í viðtali á vef RÚV: Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra segir að verndunarsinnar verði að virða leikreglurnar. „Ég skil vel sjónarmið þessara hópa og þetta er þeirra skoðun, en við erum með fyrirkomulag sem við höfum sammælst um að nota og þar er þessi virkjunarkostur í nýtingarflokki og eftir því hafa menn unnið undanfarin ár og í rauninni finnst mér það vera staðan.“
Orðalag ráðherrans, að tala um sérfræðinga sem verndunarsinna sem þurfi að virða leikreglur, bendir til þess að hún álíti sérfræðinga ríkisstofnunarinnar vera einhvers konar aktívista með ásetning frekar en vísindamenn sem beita faglegum vinnubrögðum. Nokkuð sem gæti haft þau fælingaráhrif að sérfræðingar veigri sér við að stíga fram af ótta við að vegið sé að æru þeirra.
Vanhugsað tal ógnar komandi kynslóðum
Nú er mér málið skylt. Ég er áhugasöm um umræddar virkjanaframkvæmdir og auk þess er pabbi minn, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri téðrar Náttúrufræðistofnunar svo það er best að taka fram að þessi orð eru ekki skrifuð að undirlagi hans.
Það sem tendrar mig til þessara skrifa eru viðhorf ráðamanna og samfélagsins til fræðanna sem að náttúrunni lúta. Í mörg ár hafa vísindamenn varað við skelfilegum loftlagsbreytingum og við lifum jafnframt á tímum þegar sérfræðingar víðs vegar að um heiminn mæla eindregið – og ekki að ástæðulausu – með friðun mikilvægra landsvæða, vistkerfa og víðerna, eins og þess sem um var rætt í viðtalinu við Þórdísi Kolbrúnu.
Staðan í málefnum náttúrunnar er raunar orðin svo alvarleg að ef við, íbúar þessa heims, sýnum orðum vísindamanna ekki meiri skilning og auðmýkt er hætt við að mannsæmandi lífskilyrðum barna okkar sé stefnt í hættu – og í ýmsum löndum eru þau tvísýn nú þegar.
Mál málanna í dag er að ráðamenn hlusti á þessa sérfræðinga og fari eftir ráðum þeirra frekar en að gera lítið úr þeim. Að stjórnmálamenn tali ekki um vísindamenn eins og þeir séu einungis aktívistar með ásetning sem þurfi ekki að virða vísindalegar aðferðir og niðurstöður.
Slíkt tal er ógn við framtíð og hagsmuni sonar míns og allra annarra barna – og barnanna þeirra. Til að þau megi eiga von um góða framtíð þurfum við, fullorðna fólkið, að breyta viðhorfum okkar til náttúruverndarmála og gæta að því hvernig við orðum hlutina því orðin móta jú veruleikann.
Vísindamaður býr til sósu
Þegar sonur minn, nú sjö ára, var hvítvoðungur las ég grein um að brátt færi að verða of seint fyrir mannfólkið að breyta lifnaðarháttum sínum, ef koma ætti í veg fyrir að ólíft yrði á jörðinni eftir hundrað ár. Ég, eins tilfinningasöm og foreldrum hvítvoðunga hættir til að vera, þaut í símann með barnið í fanginu og hringdi æst í pabba minn sem var sveittur að undirbúa matarboð fyrir stórfjölskylduna. Þá var hann búinn að vera árum saman í forsvari fyrir alþjóðlega nefnd í umhverfismálum, Stjórn fastanefndar Bernarsamningins, og sitja fleiri alþjóðlegar ráðstefnur helgaðar slíkum málum en hann hefur tölu á. Tilgangurinn með símtalinu var að fá hann til að róa mig og segja umfjöllunina vera í æsifréttatóni. En nei!
Pabbi sagði: Svona er þetta bara. Þú átt nú að vita það! En ég má ekki vera að þessu núna, ég er að búa til sósu fyrir kvöldið.
Og hvað! fussaði ég, eins og þetta væri allt honum að kenna. Á bara að búa til sósu ofan í barnabörnin meðan dóttursonur þinn á mögulega ekki eftir að geta átt barnabörn af því að ... heimurinn verður ónýtur!
Svona er þetta bara, muldraði hinn sósuþenkjandi vísindamaður og spurði síðan hvort ég fengi örugglega nægan svefn.
Við erum dýr
Náttúrufræðingurin (og kokkurinn!) pabbi minn er mikið náttúrubarn. Alinn að hluta til upp í Mývatnssveit og með botnlausan áhuga á skordýrum, öllu því smæsta í vistkerfum alsherjar vistkerfisins. Í æsku þvældist ég með honum um landið og inn í skóga í Englandi þar sem hann valsaði um með litlar krukkur og púkalega prjónahúfu á hausnum. Hann stal herberginu mínu til að fylla það af engisprettum í hitakössum og flutti samtímis inn lófastóra fuglakönguló sem tiplaði um á næturnar og hélt vöku fyrir barni með ímyndunarafl. Fyrsta sumarvinnan mín var að tína fiðrildalirfur fyrir hann í vítamínkrukkur og hann kenndi mér að rífa aldrei upp mosa.
Ég er þakklát því að eiga náttúrufræðing fyrir föður. En á sama tíma finnst mér eins og mér sé að mistakast að miðla öllu því, sem hann miðlaði til mín, áfram til sonar míns. Þessu öllu – tilfinningunni fyrir náttúrunni. Að við mennirnir séum dýr og hluti af henni.
Eins og pabbi sagði við mig társtokkna eftir að afi minn hafði skammað mig fyrir að segja: Komdu að éta! Afinn sagði: Dýr éta, menn borða! Pabbi sagði: Skilaðu til afa þíns að menn séu dýr.
Og við erum það: þurftafrek dýr, ólík öðrum tegundum að því leyti að við eyðum því sem heldur okkur á lífi. En við, þessi manndýr, getum sagt hitt og þetta sem á að hljóma gáfulega, stundum reynum við það svo ákaft að við skiljum ekki eigin orð.
Íslenskri náttúru ógnað
Við að lesa þessi orð ráðherrans, sem áttu líkast til að hljóma gáfulega þó að þau meikuðu engan sens, varð ég pínu vondauf um að ráðamenn eigi eftir að ranka nógu vel við sér, þrátt fyrir að ríkisstjórnin og umhverfis- og auðlindaráðherra megi eiga það að hafa nýverið sett á laggirnar loftlagsráð, ýtarlega aðgerðaáætlun til að draga úr loftlagsmengun hér á landi.
Íslendingar hafa skuldbundið sig til að uppfylla Parísarsamkomulagið fyrir árið 2030 og draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og annarra skaðlegra efna. En eins og staðan er í dag virðist það ekki gerlegt nema grípa til róttækra aðgerða.
Við auglýsum landið grimmt sem ósnortna náttúru meðan raunin er sú að svo mörgu hér er ábótavant. Það eru ekki einungis virkjanaáform sem ógna náttúrunni, víða þarf til dæmis að gæta að endurheimt votlendis, jarðfoki og losun frá jarðvegi – svo eitthvað sé upptalið. Á sama tíma ógna mannvirkjagerð og vanhugsuð vegagerð mörgum einstökum svæðum.
Auglýst eftir kjarki ráðamanna
Stundum verður þó vakning; landinn er að byrjaður að átta sig á að plastpokavæðing er einn helsti mengunarógnvaldurinn, hér sem annars staðar. En vakning almennings er ekki alltaf nóg. Ráðamenn verða að þora að hlusta á staðreyndir og niðurstöður vísindamanna frekar en að taka of oft hagsmuni og skammtímasjónarmið fram yfir ráðleggingar þeirra.
Ef hagsmunagæsla fær að ráða ferðinni í þessum málum endum við á að skjóta okkur í fótinn. Íslendingar hafa að miklu leyti viðurværi sitt af náttúrunni og ef við göngum illa um hana eyðileggjum við lífsgrundvöll okkar í stað þess að vera sjálfbær.
Ýmsir álíta að náttúran eigi einungis að þjóna manninum frekar en að okkur beri að umgangast hana af virðingu. Við erum háð henni af því að við erum hluti af henni. Þessi dýr, við. En hún hefur rétt í sjálfri sér. Ákvarðanir eiga því að taka tillit til þess að við völdum ekki óafturkræfum skaða á margbrotnum svæðum og göngum ekki á náttúruna – og okkur sjálf í leiðinni.