Í alheimskreppu kapítalismans vorum við þjóð sem sárlega þráði sannleikann um orsakir þess hroðalega efnahagslega og pólitíska Hruns sem rústaði Íslandi haustið 2008. En þegar sannleikurinn opinberaðist gerðust þau undur að við þráðum fyrirhruns-lygina samstundis aftur.
Slíks var von. Af því að einstaklingurinn í nútíma kapítalísku samfélagi hefur djúpstæða þörf fyrir áróður og lygi (Ellul). Fyrir Hrun vildum við trúa lygi góðærisins, stórbrotnum kapítalískum sýndarveruleika, að því að fjármunir og lán streymdu í kassann. Eftir Hrun þráðum við að trúa lyginni vegna þess að hún og aðeins hún bjó yfir þeim töframætti að losa okkur á leifturhraða út úr þeim ógnvænlegu aðstæðum sem við vorum í. Aðeins lygin, aldrei sannleikurinn, gat látið skuggalega skuldabyrði einstaklinga og þjóðarinnar hverfa eins og dögg fyrir sólu. Aðeins lygin gat hvítþvegið ráðamenn og skellt skuldinni á 30-40 bankamenn, útlendinga og fólk sem hafði engin völd fyrir Hrun.
Þjóðin þráði þá lygi sem sló á óttann, losaði hana við ábyrgð og sektarkennd, gaf sjálfselskunni yfirbragð réttlætis og veitti henni draumkennda von.
Sú þjóð sem þráir lygi, fær sína lygi. Við fengum ekki neina venjulega lygi, heldur heila herferð af stórlygum, gereyðandi fellibyl af þvættingi, bulli og ofstæki sem skall á samfélaginu árum saman þangað til óttinn, ábyrgðartilfinningin og sektin var horfin með öllu.
Öllu heldur, þangað til valdaöflin sem bjuggu til sýndarveruleikann fyrir Hrun og stýrðu þjóðinni inn í Hrunið höfðu náð völdum aftur, vefjandi þjóðina inn í sápukúlu nýs sýndarveruleika.
Og á sama tíma og þetta gerðist á Íslandi skutu sambærilegir atburðir Bandaríkjamönnum skelk í bringu og þjóðum út um allan heim. Af því að áróður er ekkert annað en síamstvíburi framleiðslutækninnar í þeim ósjálfbæra heimskapítalisma þar sem sjálfsblekkingin er móðir hagkerfisins – og blekkingarlínan sem heimurinn tekur í nefið er sýrð í Washington.
Enn og aftur, 2009, vorum við þjóðin sem þráði lygina og hún var auðfengin í alheims-stjórnkerfi sem hefur sérhæft sig í framleiðslu blekkinga.
Nú er búið að festa lygi valdaelítunnar í sessi og gera að hinni opinberu söguskýringu á atburðunum fyrir og þó sérstaklega eftir Hrun, með aðstoð félagasamtaka og nýrra pólitískra afla. Við því þarf að bregðast og hefði þurft að bregðast af krafti fyrir lifandis löngu, því það er engin þekkt leið til að bregðast við víðtækt skipulögðum (ofstækis) áróðri önnur en að svara með víðtækt skipulögðum áróðri. Aldrei er þó of seint að leiðrétta grófar pólitískar lygar jafnvel þó handhafar lyginnar hafi lengi haft yfirburðavöld í fjölmiðlum landsins.
Þess vegna er von á nokkrum greinum í Kjarnanum, eftir undirritaðan, um stórlygaherferð valdaelítunnar eftir Hrun.