Í dag eru 100 ár liðin frá undirritun samninga um sambandslögin svokölluðu, milli Íslands og Danmerkur. Lögin tóku gildi 1. desember 1918 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um haustið og varð Ísland þá fullvalda ríki. Stór áfangi í sögu íslensku þjóðarinnar.
Alþingi hélt í dag hátíðarþingfund á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins. Greint hefur verið frá því að kostnaður við fundinn verður í kringum 80 milljónir króna, sem var sýndur í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins en fyrst og síðast stofnandi og fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins, til margra ára, flutti sérstakt ávarp og kveðju dönsku þjóðarinnar. Þessi kona, sem er frumkvöðull og einn helsti hugmyndafræðingur meginstraumsútlendingaandúðar á Vesturlöndum og ein þeirra sem náð hefur hvað bestum árangri í sinni hugsjónabaráttu á síðustu áratugum, er fyrsti erlendi aðilinn í seinni tíð sem fær að ávarpa þjóðþingið okkar. Og það á hátíðarfundi.
Á tímum þar sem fasískar tilhneigingar í stjórnmálum eru orðnar daglegt brauð á Vesturlöndum skiptir máli hvernig stjórnvöld haga sér. Hundrað ára fullveldi smáþjóðar eru engin smá tímamót. Þjóðin okkar hefur náð langt frá 1918. Það er ekkert til að skammast sín fyrir eða fela og ekkert að því að gera sér dagamun þegar slíkum tímamótum er náð. Þá skiptir máli að á sama tíma og fortíðinni er sýnd tilhlýðileg virðing, saga og menning þjóðar rifjuð upp og höfð í hávegum, sé tækifærið nýtt til að flagga þeim áföngum sem þjóðin hefur náð á þeim tíma sem liðinn er.
Heiðursgesturinn Pia Kjærsgaard gerði allt vitlaust með því einu að mæta. Til að mótmæla viðveru hennar sniðgengu þingmenn Pírata fundinn. Margir þingmenn mættu með nælur með danska slagorðinu „Nej til racisme“. Einn þingmaður gekk af fundi. Forsætisráðherra og formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar sáu öll tilefni til að minnast á rasisma, umburðarlyndi og mannréttindi í ræðum sínum á fundinum í dag.
Bæði forseti Alþingis og fjármálaráðherra báru því við að það sé embættið forseti danska Þjóðþingsins sem var hér mætt sem hátíðargestur - ekki einstaklingurinn. Báðir vita betur. Báðir eru of reyndir stjórnmálamenn til að halda að málið sé svo einfalt, að diplómasía sé ekki flóknari, að ekki hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi og senda þannig önnur skilaboð. Þeir vita vel að Pia Kjærsgaard situr í embættinu í krafti skoðana sinna. Annars væri hún skrifstofustjóri danska þingsins, ekki forseti þess.
Hundrað ára fullveldishátíð Íslands fylgir heldur ekki dagskrá frá gamalli tíð sem ekki má hrófla við. Hún er mannanna verk, var sett saman nýlega, er á ábyrgð forsætisnefndar Alþingis, forseta þess og skrifstofustjóra, á ábyrgð þeirra sem sóttu fundinn í dag og þeirra sem predika að dagurinn sé hátíðisdagur. Þessi fullveldishátíð er einmitt hátíð íslensku þjóðarinnar. Dönsk aðkoma er þar í raun algjörlega óþörf, en telji einhverjir ótækt í ljósi sögunnar að halda hér fund án danska Þjóðþingsins má benda á að þar í landi eru starfandi til dæmis ráðherrar og alls 178 aðrir þingmenn en Pia Kjærsgaard. Þá má benda á að danska drottningin er á leið til landsins í desember af sama tilefni. Aðkoma Dana í dag var í raun ekki annað en vinaþel milli vinaþjóða. Hverjir eru vinir okkar? Er það Pia Kjærsgaard? Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert.
Það var fleira sem stakk í stúf í dag en Kjærsgaard. Til dæmis staðsetningin. Þeir eru óneitanlega fallegir Þingvellir. Umhverfið er ótrúlegt og hin sögulega tenging skýr og skiljanleg. En þau tímamót sem verið er að fagna, þungi þeirra og merking, sem stjórnmálamönnunum var svo tíðrætt um í dag, eru einmitt þess eðlis að mun eðlilegra hefði verið að halda hátíðina í þéttbýli og auðvelda almenningi aðgang að honum. Fundurinn var gamaldags og þrátt fyrir mikinn hátíð- og glæsileika, var í ljósi alls ofangreinds, þjóðleg elítuára yfir honum.
Ættjarðarástin er nefnilega óþægilega náskyld þjóðernishyggju og þó að um tvennt ólíkt sér að ræða þá er oft þunn lína þar á milli - vandrötuð. Táknmálið sem fólst í því að sjá okkar kláru og glæsilegu þingkonur klæddar í fallegu íslensku þjóðbúningana sína - á fundi þar sem einn helsti talsmaður útlendingafordóma og mannhaturs Norðurlandanna var ekki aðeins heiðursgestur heldur einnig fenginn til að brjóta blað í íslenskri samtíma stjórnmálasögu með því að halda yfir þingi og þjóðinni ræðu - var ömurlegt. Ísland ögrum skorið, Þjóðvísa og Þjóðsöngurinn sömuleiðis í samhengi við nærveru rasistaleiðtogans. Ekkert á sér stað í tómarúmi. Allt er til í samhengi við umhverfi sitt og ber að túlka sem slíkt.
Myndmálið nefnilega skiptir máli. Í ljósi umkvörtunar fjármálaráðherra þess efnis að einstaklingurinn Pia Kjærsgaard og skoðanasystkini hennar séu lýðræðislega kjörin, virða verði embættin sem þau sitja í og passa að sýna danska þjóðþinginu ekki yfirlæti og vanvirðingu, er vert að minna á að margar af helstu harðstjórnum heimssögunnar hafa einmitt verið kosnar til valda. Það skiptir máli að taka ábyrgð á ásýnd heimsins og muna að tákn dagsins í dag geta orðið veruleiki morgundagsins. Við getum borið virðingu fyrir ferlinu sem eru lýðræðislegar kosningar og niðurstöðu þeirra og samtímis gagnrýnt, fyrirlitið og barist hatrammlega gegn málflutningi og pólitík sem ofbýður siðferðiskennd okkar.
Fullveldishátíðin er ekki síst hátíð þjóðar sem eins og framar greinir hefur komist ótrúlega langt á síðustu hundrað árum. Og á slíkri hátíðarstundu er lykilatriði - aðalatriðið jafnvel - að halda á lofti gildum þjóðarinnar, flagga þeim ótrúlega árangri og lýðræðislegu framförum sem hér hefur náðst, ekki síst þegar kemur að mannréttindum og mannhelgi og þjóðin getur verið gríðarlega stolt af.
Til að geta notið þessa ótvíræða merkis- og hátíðardags í sögu landsins skiptir máli að varpa ekki stórum skuggum á hátíðarhöldin. Nærvera Piu Kjærsgaard gerði gott betur en það; hún varpaði myrkri á þau öll, skrumskældi og eyðilagði allan þann jákvæða boðskap sem hefði verið hægt að draga fram á 100 ára afmælinu. Og eins ömurlegt og það er þá er ekki við neinn annan að sakast en afmælisbarnið sjálft, gestgjafann sem bauð í afmælið.