Börn eru blessun og allt það. Sú staðfasta tilfinning foreldra er þó ekki endurgoldin.
Dæmi: Sonur minn var sannfærður um það í morgun, þegar hann sat með stærstu skeifu Evrópu í baðkarinu, að baðferðir væru einhvers konar samsæri í gegn honum og hans tíma til að leika sér.
Þetta atvik er þó aðeins toppurinná ísjakanum. Um leið og börnin okkar höfðu komið sér upp sæmilegum lærvöðvum, voru þeir óspart notaðir á skiptiborðinu, sérstaklega ef við foreldrarnir vorum að bjarga þeim, þar sem þau sátu ilmandi meðal kubbakastala, eftir stórslys upp á bak.
Borða, nei! Sérstaklega ef það er eitthvað hollt og gott fyrir líkama og sál. Af andlitum þeirra að dæma erum við reglulega að reyna að eitra fyrir þeim. Og stundum líður mér sjálfri eins og ég sé að byrla þeim eitur, einkum þegar ég stappa niður grænmeti og hræri því saman við kjöt eða fisk í von um að engin ummerki finnist.
Svefn er þó líklega vanmetnasta blessunin… þangað til þau eru vakin eldsnemma til að fara í skólann.
Ég held í þá staðfestu trú að einn daginn muni börnin skilja hve mikið foreldrar leggja á sig í þeirra þágu, ekki til að eitra og eyðileggja, heldur til að þau stækki og dafni.
P.S. Mamma! takk fyrir að skeina mér… sko þarna um daginn, ég veit að það eru liðin 37 ár.. en núna s.s. skil ég hvað þú hefur lagt mikið á þig fyrir okkur systkinin!
Já, börnin eru blessun, en foreldrarnir líka... bara 37 árum síðar.