Á dögunum birtust nýjar upplýsingar um þróun á trausti til fjölmiðla í Bandaríkjunum. Bandaríkjaforseti, Donald J. Trump, hefur ráðist á fjölmiðla í Bandaríkjunum frá fyrsta degi í embætti og einnig í kosningabaráttunni sjálfri.
Hann hefur líka lýst fjölmiðlunum sem óvinum fólksins, hvorki meira né minna. Útgefandi New York Times, AG Sulzberger, hefur mótmælt þessari orðræðu, og gerði það milliliðalaust á fundi með forsetanum. Samkvæmt umfjöllun The New Yorker var fundurinn í meira lagi sögulegur og kom útgefandinn áhyggjum sínum af orðræðu forsetans skýrt til skila.
Grundvallarspurningar
Í þessu opinbera samtali milli valdamesta manns heimsins og fjölmiðla í Bandaríkjunum, má greina mikilvægar kjarnaspurningar innan blaðamennskunnar og fjölmiðla.
Hversu langt geta valdhafarnir gengið í því að kvarta undan aðhaldi blaðamanna?
Er eðlilegt að þeim sé stillt upp sem óvinum fólksins, fyrir sjálfsögð og gagnrýnin skrif?
Full ástæða er til þess að fagna viðhorfi AG Sulzberger, þar sem hann talar fyrir fjölmiðla- og tjáningarfrelsi. Stjórnmálamenn, sem eru með valdaþræðina í höndum sér, ættu ekki að geta gengið það langt í gagnrýni sinni á blaðamenn að þeir séu vændir um svik og pretti, eða að þeim sé meinaður aðgangur að valdhöfum á opnum blaðamannafundum.
Í sama flokk fer sú aðferðarfræði stjórnmálamanna að svara ekki tilteknum fjölmiðlum eða blaðamönnum. Það er með öllu óásættanlegt.
Það er líka rétt hjá Sulzberger að það býður hættunni heim - og hvetur raunar til ofbeldis einnig - að stilla blaðamönnum upp sem óvinum fólksins, fyrir sjálfsagða og eðlilega vinnu sína.
The Economist fjallaði ítarlega um þessar nýju upplýsingar sem birtust um traust til fjölmiðla í Bandaríkjunum í gær.
Þeir fjölmiðlar sem Donald Trump hefur kallað „falsfréttir“ (Fake News), ekki síst New York Times og Washington Post, hafa vaxið í trausti hjá almenningi og áskrifendum hefur reyndar líka fjölgað mikið. Óhætt er að segja þessir gömlu rótgrónu miðlar hafi veitt Trump og hans fólki í Hvíta húsinu mikið aðhald.
Andspyrna og samfélagsmiðlar
Þessi andspyrna skiptir máli og ætti að vera sjálfsagður hluti af lýðræðislegri umræðu.
Því miður hafa samfélagsmiðlar haft verulega skaðleg áhrif á fjölmiðlun og blaðamennsku, að mínu mati. Þeir ýta undir pólaríserandi umræðuhefð, grafa undan möguleikanum á yfirvegaðri umræðu (sjónarmiðið um málamiðlun, kemst varla að) og gera hagsmunaaðilum líka mögulegt, að kaupa sig fram fyrir röðina með sín sjónarmið og hagsmuni, eins og frægt er orðið. Það á ekki síst við um hið pólitíska svið.
Þá má einnig nefna að samfélagsmiðlunum fylgir nánast lygileg orkusóun, þar sem gagnaverin spretta upp um allan heim, til að „hýsa“ mikið af óþarfri dellu sem notendur deila. Sagan á eflaust eftir að dæma þetta illa, en það er viðkvæmt að setja upp girðingar með lögum og reglum, eins og mál hafa þróast. Samfélagsmiðlar eru orðnir það umfangsmiklir í lífi okkar að spurningar um höft á tjáningarfrelsi koma upp í hugann um leið og það á að takmarka útbreiðslu miðlana með einhverjum hætti.
Mikilvægari en fyrr
Í þessu umróti upplýsingabyltingar - þar sem upphafið teygir sig aðeins um áratug aftur í tímann - er aðhaldshlutverk fjölmiðla mikilvægt. Erindið er brýnt og fólk verður að hugsa um það. Án andspyrnunnar gagnvart valdinu, hvar sem það er staðsett á pólitískan kvarða, verður fátt um fína drætti í samfélaginu og svo getur farið á endanum, að dellan og sérhagsmunirnir verði framvegis ofan á. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Eins og dæmin sanna frá Bandaríkjunum, þá getur tal valdhafana um fjölmiðla sem falsfréttir og óvini fólksins sett byr í segl þeirra sem eru að veita þeim aðhald. Mikilvægi aðhaldsins er augljóst og ristir djúpt, ekki síst á tímum þar sem samfélagsmiðlar hafa búið til nýjan og hættulegan vígvöll í upplýsingastríðinu.