Fljótlega eftir valdatöku vinstri stjórnarinnar vorið 2009 fór stórundarleg ásökun að hljóma í fjölmiðlum um landráð vinstri manna með erlendum kröfuhöfum gegn þjóðinni. Ásökunin var ákafast sett fram af Framsóknarflokknum en gömlu valdaelíturnar í Sjálfstæðisflokknum studdu kórinn af krafti til dæmis með stofnun öfgaáróðursritsins AMX.is. Ný og öflug samtök Indefence og Hagsmunasamtaka heimilanna tóku undir og fljótlega einnig nýir flokkar Búsáhaldabyltingarinnar, hins nýja Íslands.
Skilaboðin: Fylkið liði með varnarsamtökum þjóðarinnar gegn óvinum!
Valdaelítan greip áróðurinn fegins hendi. Þarna var lifandi komið sjálft alheimssamsærið sem yfirfærði ábyrgðina á afleiðingum Hrunsins yfir á vinstri menn og útlendinga – eftir þekktum áróðursformúlum þýskra nasista um að finna einn blóraböggul og kenna honum um allt sem aflaga fer.
Í allt um lykjandi landráðaáróðrinum kom skyndilega fram sú fasíska vitfirring sem almennt var talin að gæti aldrei náð fótfestu á Ísland – hvernig íslenska þjóðin varð, á nokkrum mánuðum, þessari brenglun að bráð er löng og snjöll áróðurssaga.
Kjarni málsins er þessi: Landráðaáróðurinn hentaði svo stórum og valdamiklum hópum landsmanna eftir Hrun að hann hlaut að takast, þrátt fyrir að í allri aurskriðunni fyndist ekki heil hugsun á lífi.
Lítum á hagsmunina:
Fyrir Indefence og þá sem óttuðust Icesave skuldina var landráðasamsærið hentug skýring á kostnaðarsömum Icesave milliríkjasamningum, krafa um betri samning (eða engan) og afneitun ábyrgðar hægri manna á Icesave innlánasöfnunni og Icesave-samningunum.
Fyrir stórskuldara var landráðasamsærið krafa um lækkun skulda. Aðferð til að ýkja fórnarlambsímynd skuldara og þægileg afneitun eigin ábyrgðar á skuldastöðunni - að því marki sem þeir báru hana.
Fyrir sjálfstæðis-, framsóknar og bankamenn var landráðaáróðurinn himnasending. Hann gjöreyðilagði vitræna umræðu um spillinguna fyrir Hrun (sem sumir töldu landráð) og beindi sjónum að skáldaðri spillingu eftir Hrun – hann yfirfærði ábyrgðina af Hruninu og stöðu skuldara yfir á vinstri stjórnina og styrkti Umsáturskenninguna, um umsátur útlendinga um Ísland.
Fyrir andstæðinga inngöngu í ESB var landráðaásökunin kærkomin útgáfa af þeirra eigin kenningu um ESB umsóknina sem landráð.
Fyrir fimmta hópinn, hóp óháðra og nýrra framboða, var landráðasamsærið frábært tækifæri til að gera fjórflokkinn að einum ábyrgðaraðila fyrir hroðalegu ástandinu undir slagorðin “allir hinir eru eins!”. Þeir gátu þá sótt óánægjufylgi til allra, líka þeirra sem enga ábyrgð báru á Hruninu (VG).
En ef til vill var það sjötti og óvæntasti flytjandi landráðakenningarinnar, lítill hópur róttækra vinstri manna, sem gerði útslagið. Róttækir vinstri menn áttu um fram alla Íslendinga að skilja ógnina af þjóðernisfasískum áróðri og lífsmikilvægi baráttunnar gegn honum – en gerðu ekki.
Af því að róttækir vinstri menn voru líka andstæðingar Icesave samninga, þeir voru líka stórskuldarar, andstæðingar ESB og að eilífu óháðir anarkistar ginnkeyptir fyrir samsæriskenningum um stórauðvaldið, sérstaklega því ameríska. Þess vegna gengu þeir - líka þeir - blindir og forhertir inn í landráða-öskrandi fjölda sem ómaði eins og þjóðernisfasískur hermars frá 1933.
Þar með var síðasta varnarvígið gegn fasíska ofstækinu fallið. Eftir stóðu kjarnalausir og veikir vinstri flokkar, dauf verkalýðshreyfing, meðvitundarlausir stúdentar, vanmáttugir blaðamenn og máttlaust þekkingarsamfélag. Auðveld bráð - alveg eins og fyrir Hrun - samheldinni áróðurselítu með yfirburðavöld yfir fjölmiðlum.
Á einungis nokkrum mánuðum síðla hluta árs 2009 varð íslenska þjóðin vitfirrtri þjóðernisfasískri orðræðu að bráð – einmitt þeim fasisma sem aldrei átti að geta náð fótfestu á Íslandi.
Ofstækið varð stöðugt svæsnara og réði ef til vill úrslitum um örlög Búsáhaldabyltingarinnar og nýja Íslands en ekkert var þó óhugnanlegra og lýsti vitfirringunni betur en sú staðreynd að ofstækisáróðurinn átti sér skýra fyrirmynd í áhrifaríkasta áróðursbragði þýskra nasista, sjálfri Rýtingsstungugoðsögninni, Dolchstosslegende.
Sagan um það hvernig hún var lymskulega yfirfærð á Ísland og skipulega útfærð, verður efni í næstu grein.