Vinkona mín ákvað að tékka á Tinder en gerði eitthvað vitlaust svo hún valdi óvart alla mennina sem hún ætlaði að eyða. Já, eyða!
Í kjölfarið brydduðu fjölmargir þeirra upp á spjalli en einn spurði blákalt: „Er eitthvað að þér? Svona glæsileg kona að vilja karlfausk eins og mig. Þú þarft að leita þér hjálpar!“ Meðvitund mannsins um að hann þætti ekki girnilegur varningur kjarnar Tinder – og alla þessa samfélagsmiðla. Þessi markaðstorg ímynda okkar þar sem fólki gengur misvel að markaðssetja sig. Þetta segi ég vitandi að ýmsir vinir mínir hafa fundið hamingjuna á Tinder. Svo þekki ég líka einhverja sem nota forritið til að panta sér hold eins og heimsenda pizzu. Svo sem ákveðin hamingja fólgin í því fyrir þá sem fíla það.
Tinder er fölskvalausasti samfélagsmiðillinn. Þar gengur fólk hreint til verks, sýnir sig í von um að einhver heppilegur fíli sig og sveipar kreðsið í gegnum ásjónur annars fólks, nánast eins og það rennir augunum eftir vörum í hillum stórmarkaða. En í rauninni snúast allir samfélagsmiðlarnir um hið sama: að reka fjölmiðil um sjálfan sig.
Lesið í atferli á Facebook
Þessi nýja tegund fjölmiðlunar ræktar í okkur sjálfhverfuna um leið og hún er vettvangur skoðanaskipta, upplýsinga, tengslaneta, samskipta og samruna. Þegar ég hef dvalið erlendis hef ég póstað grimmt á facebook til að halda tengslum við vini og vandamenn – og geta fylgst með og tekið þátt í samfélagsumræðu.
Þannig hafa velunnarar geta fylgst með syni mínum vaxa og dafna og ég með börnum þeirra. Ég hef verið áhorfandi að lífi vina minna og þeir að mínu. Hér heima virðist það ekki þjóna sama tilgangi og áður, þó að ég taki stundum syrpur.
En kannski á maður til að vera of kaldranalegur í hugsun. Ég er hætt að geta skrollað niður Facebook án þess að spá í atferli þeirra sem pósta. Því glæsilegri & glaðlegri sem sjálfurnar eru því sannfærðari verð ég um að manneskjan sé eitthvað af eftirtöldu: Ófullnægð, á bömmer eftir djamm, ástfangin af sjálfri sér, félagslega óörugg í leit að viðurkenningu, að reyna að hösla í gegnum miðilinn, í knýjandi þörf fyrir vímuefnameðferð, á brún skilnaðar, illa haldin af áráttuhegðun, að standa í framhjáhaldi eða að þróa með sér knýjandi þörf fyrir að aðrir sjái hana uppdressaða við hin ýmsu útiverusport á borð við fjallgöngur, hlaup, sjósund og útijóga.
Ókei, jú – kannski hljómar þetta forpokað.
En samt ...
Ofursjálf og sýndarþörf
Um daginn rabbaði ég við manneskju sem starfar stundum við að velja í hlutverk í kvikmyndir. Hún sagði að oft væri ekki að marka ljósmyndir sem fólk sendi af sér því til dæmis ungar konur – sem hefðu drukkið í sig samfélagsmiðla með móðurmjólkinni – væru orðnar atvinnumanneskjur í að búa til ímynd af sér. Þær færu létt með að búa til ofursjálf á samfélagsmiðlunum; sérfræðingar í förðun, pósum og fótósjoppi. Og væru ekki einar um það.
Til hvers þessi ímynd? spyr maður sig eftir sukk á samfélagsmiðlum. Þetta kapphlaup ímynda venjulegs fólks. Það er ánægjulegt að deila hinu og þessu til að vökva félagsþörfina, eins og fólk gerir jú á þessum miðlum, en sú þörf getur auðveldlega snúist upp í sýndarþörf.
Hin ákjósanlega ásýnd: Heillandi manneskja við eftirsóknarverða iðju og skjót að sjóða saman smellinn frasa um það.
Kannski bærist í okkur lúmsk þrá að vera tefflon-manneskja sem hefur hvorki hægðir né óþægilegar tilfinningar. Mismikið samt. Hún virðist ekki há karlinum sem hafði samband við vinkonu mína á Tinder og ráðlagði henni að leita sér hjálpar fyrst hún vildi svona karlfausk. Hann gæti reyndar verið skemmtilegur. En kannski með svolítið viðkvæma sjálfsmynd.
Áhugi okkar á okkur
Önnur kona hafði orð á því að samfélagsmiðlarnir hefðu gert fólk svo sjálfhverft að nú orðið væru margir orðnir of stórir fyrir bæði fjölmiðla og stjórnmálaflokka. Ýmsum dygði enginn stjórnmálaflokkur utan um eigin skoðanir á sama tíma og þeir reka fjölmiðil um sig. Stjórnmálaflokkar spretta því upp eins og gorkúlur og við póstum fréttum af okkur í sjálfum í stað þess að rýna í dýpri greiningar á umheiminum. Áhuginn snýst fyrst og fremst um eigin skoðanir og eigin veru. Jú, stundum póstum við fréttum eða umfjöllun sem kveikir í okkur en aðeins á forsendum okkar og svo lengi sem þær eru það yppum við öxlum þó að þær séu falsfréttir eða umfjöllunin lituð af sérhagsmunum. Allt þarf að þjóna hugarheimi okkar. Við verðum allsherjar úrskurður alls – svo lengi sem nógu margir læka.
Ókei, smá ýkjur kannski. En samt ...
Svo var ég að spjalla við þriðju konuna sem er einhleyp eins og ég og veigrar sér líka við að vera á Tinder. Mér finnst þetta ekki snúast um ást heldur örvæntingu, sagði sú við mig. Af hverju getur fólk ekki bara hvílt í sjálfu sér og leyft hlutunum að gerast? velti hún fyrir sér.
Það er sannleikskorn í þessu þó að – eins og áður sagði – margir hafi rambað á hamingjuna þar.
En þetta sannleikskorn á ekki bara við Tinder heldur alla þessa samfélagsmiðla. Þeir snúast um sömu markaðssetninguna á sjálfinu og fá okkur til að hætta að hvíla í okkur. Eins og það sé ekki bara nóg að vera og njóta fyrir sig, lenda í einhverju skemmtilegu og eiga upplifun með þeim sem eru á staðnum. Þeir bjóða upp á eirðarleysi, eins og ekkert sé að gerast í alvöru nema því sé póstað á að minnsta kosti þrjá samfélagsmiðla og hundrað manns hrópi að póstarinn og vinir hans séu sætir og yndislegir að upplifa eitthvað stórkostlegt. Atburðurinn hættir að vera nægur í sjálfu sér, hann þarfnast staðfestingar umheimsins – ef hún fæst ekki blasir við örvænting. Upplifun manns og skynjun eru bundin við viðbrögð áhorfenda. Skoðanir, skynjun og hugsun standa og falla með fjölda læka. Allt verður að eins konar sjálfsfróun á samfélagsmiðlum – líka börnin manns.
Allsherjar núvitund samfélagsmiðla
En nú ætla ég að hætta að tuða og pósta einhverju. Kannski mynd af mér með nýþvegið hár að sjóða pylsur handa syni mínum. Hundrað manns eiga líklega eftir að læka og hluti þeirra segir eitthvað fallegt eins og: Þið eruð dásamleg mæðgin.
Og það yljar. Ég fæ staðfestingu á að tilvera mín sé einhvers virði. Sonur minn. Pylsurnar í pottinum. Ég sjálf.
Lækin og athugasemdirnar kæta mann fram eftir kvöldi og ég get dundað mér við að svara í stað þess að lesa bók eða horfa á heimildarmynd um væntanleg endalok heimsins. Hamingjusöm í allsherjar núvitund samfélagsmiðla.
Svo er auðvitað margt undurfallegt á samfélagsmiðlunum. Því þar erum við öll í okkar algjöru mannlegheitum. Þar samgleðst maður líka vinum, endurheimtir gamla kunningja, fylgist með lífsbaráttu fólks, ástum og dauða, og verður vitni að kraftaverkum. Kannski það sé að einhverju leyti mikilvægt að hafa áhorfanda að lífi sínu, það er jú ein ástæðan fyrir því að fólk finnur sér maka. Til að upplifa lífið með öðrum. En þá vaknar spurningin – sem þriðja vinkonan velti fyrir sér um daginn – hvort það að hafa svona mörg vitni að atburðum vatni út gildið sem býr í hinum raunverulegu vitnum, nánum vinum og fjölskyldu, og hlutverki þeirra í lífi manns og sjálfsmynd? Það má endalaust flækja hlutina, þeir eru jú flóknir, og nú myndi ég setja broskarl ef það væri viðeigandi í pistli. Ég ætla að hætta að tuða. Hætta að hugsa. Við erum öll frábær. Skoðið bara samfélagsmiðlana!