Icelandair og WOW Air hafa gengið í gegnum erfiðleika að undanförnu. Síðarnefnda félagið á í bráðavanda þar sem það á einfaldlega ekki nægilega mikla peninga til að halda rekstrinum og vextinum áfram.
Vonandi mun félaginu ganga vel að fjármagna sig svo það geti haldið áfram að flytja hingað mörg hundruð þúsund erlenda ferðamenn á ári. Svo einfalt er það sjónarmið, en vitað er að rekstrarskilyrði margra flugfélaga hafa versnað að undanförnu vegna vaxandi kostnaðar og mikillar samkeppni í alþjóðlegu flugi. Sá lifir af sem hefur breiðasta bakið fjárhagslega í slíkum aðstæðum.
Á ríkið að skipta sér af?
Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur lagt grunninn að lífskjarabata almennings á Íslandi undanfarin ár, eins og Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, fjallaði um í góðri yfirlitsskýrslu sinni um stöðu efnahagsmála á Íslandi fyrir stjórnvöld. Gylfi hefur einnig ritað ítarlegar greinar um stöðu efnahagsmála í Vísbendingu, þar sem greiningar hans hafa komið fram.
Vöxturinn hefur verið með ólíkindum. Árið 2010 komu til landsins um 450 þúsund erlendir ferðamenn á ári en í fyrra voru þeir 2,7 milljónir. Þessum vexti hefur fylgt gífurleg gjaldeyrisinnspýting, en í fyrra var hún á bilinu 550 til 600 milljarðar.
Á meðan fjármagnshöft voru fyrir hendi samkvæmt lögum, þá styrktist gengi krónunnar hratt gagnvart helstu mytum, eins og eðlilegt er. Velta má fyrir sér nú hvort höftin og samingar vegna slitabúa hafi verið of seint á ferðinni, af þessum sökum. Hagkerfið fékk mögulega að hitna of mikið, vegna þessa. En það þýðir lítið að velta fyrir sér orðnum hlutum.
Það sem eðlilegt er að velta fyrir sér, er hvernig vandi flugfélaganna tengist almannahagsmunum og stöðu ríkissjóðs. Í draumaheimi á ríkið ekki að þurfa að hafa afskipti af einkafyrirtækjum í vanda en raunveruleikinn er annar, þegar á reynir, eins og vandamál fjármálafyrirtækja er gott dæmi um.
Í tilviki Íslands eru flugfélögin þegar orðin það umfangsmikil, að Ísland hefur ekki efni á því að þau fari á hausinn og hætti starfsemi. Það er blákaldur veruleiki. Um 98 prósent erlendra ferðamanna koma í gegnum Keflavíkurflugvöll og 80 prósent erlendra ferðamanna hafa undanfarin ár komið með Icelandair og WOW Air, þrátt fyrir vaxandi umfang erlendra flugfélaga.
Vegna þess hve gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar eru orðnar umfangsmiklar, hlutfallslega, þá þolir íslenska hagkerfið illa skyndileg áföll flugfélaga.
Regluverk og eftirlit með flugfélögum er einnig alfarið á hendi ríkisins, í gegnum Samgöngustofu, eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um þessi mál. Ríkið á að meta hvort flugrekstraraðilar standast kröfur, meðal annars fjárhagslegar. Ekki liggur fyrir, með nákvæmum og gagnsæjum hætti, hvernig fjárhagskröfurnar eru að öðru leyti en því, að við upphaf rekstrar þurfa félögin að vera með trúverðug áform og fjárhagsstyrk, sem dugar til 24 mánaða. Þetta er óheppilegt, því betra er að hafa þetta skýrt. Gagnsæið í þessu eru virkasta aðhaldið.
Til viðbótar kemur svo það að íslenska ríkið á Isavia, sem rekur flugvelli í landinu, á einnig 80 prósent af fjármálakerfinu, þar sem þyngst vegur Íslandsbanki og Landsbankinn. Óhjákvæmlilegt er að vandi flugfélagana geti tengst útlánaáhættu í bankakerfinu og þannig hagsmunum ríkisins.
Þá hefur auk þess verið upplýst um að ríkisbankarnir hafi verið kallaðir að borðinu við kynningu á fyrirhugaðri skuldabréfaútgáfu WOW Air, með mögulega þátttöku í huga.
Spurningin um hvort íslenska ríkið eigi að skipta sér af vanda flugfélagana, er auðsvarað; ríkið verður að skipta sér af lögum samkvæmt og getur ekki annað en fylgst náið með vanda flugfélaga og gert viðbragðsáætlanir. Hvort það eigi að blanda sér í málin, ef allt stefnir í óefni, er svo hið ískalda hagsmunamat á hverjum tíma.
Pólitískur vilji fyrir sveiflum
Ein ástæða þess að margir eru uggandi núna yfir stöðu flugfélagana er sú að það er pólitískur vilji fyrir því á Íslandi að búa við örmynt í alþjóðavæddum heimi á 200 þúsund manna vinnumarkaði. Þetta þekkist hvergi í heiminum (Seychelles eyjar eiga lítið sameiginlegt með Íslandi. Skattaskjól er stór iðnaður þar, en það ku vera minnsta myntsvæði heimsins, litlu minna en Ísland). Það er að vera með íslensku krónuna, sem er eins og korktappi í ólgusjó fjármagnshreyfinga.
Eftir því sem heimurinn verður alþjóðavæddari, t.d. með djúpstæðum áhrifum rafrænna viðskipta sem teygja sig yfir landamæri, þá verður það sífellt meira umhugsunarefni hvort það sé gott fyrir Ísland að vera með örmyntina sem hluta af daglegum veruleika.
Það er vitað að gengi krónunnar mun falla og það er vitað að ríka fólkið hagnast á því, enda getur það fært eignir sínar í stöðugri myntir þegar því hentar, og hagnast á öllu saman. Dæmin úr hruninu eru nærtæk, þar sem ríkasta fólkið færði peningana sína til útlanda áður en almenningur var festur inni með lögum fjármagnshafta. Sumt af þessu fólki fékk svo að koma með peninginn á gengisafslætti inn í kerfið aftur, sem er með nokkrum ólíkindum.
Eftir uppgang ferðaþjónustunnar hefur gengisáhætta í hagkerfinu magnast upp, eins og augljóst er núna. Flugfélög eru orðin kerfislægur áhættuþáttur. Hvernig ætli það væri, ef gjaldmiðillinn myndi einfaldlega ekki hrynja, ef flugfélögin lentu í vanda? Væri þá sami bráðavandi fyrir hendi? Þyrftu að vera jafnmargir neyðarfundir hjá stjórnvöldum?
Nei, svo er ekki, þó enginn geri lítið úr vanda flugfélaga. Gengisáhættan í hagkerfinu er óþolandi veruleiki venjulegs fólks sem þarf að rýna í bókhaldið með augum sjóðsstjóra vogunarsjóða til að átta sig á straumum og stefnum. Þess vegna er ríkið nánast alltaf kallað að borðinu, þegar vandamál skapast á hinum ýmsu mörkuðum og litið til þess að leysa vandamálin. Það felast í því almannahagsmunir að losna við eða draga stórkostlega úr þessari gengisáhættu.