Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og fastur penni á þessum vettvangi, fór ítarlega yfir stöðu efnahagsmála í síðustu viku, og kom þar inn á stóran óvissuþátt sé horft fram í tímann næstu mánuði.
Hann snýr að kjaraviðræðum og hvernig það muni ganga að semja um kaup og kjör þeirra sem eru með lausa samninga. Þrátt fyrir að stoðir íslenska hagkerfisins séu sterkar þessi misserin þá getur verðbólgudraugurinn vaknað og farið á stjá með látum, eins og sagan er til vitnis um.
Atvinnuleysi er með lægsta móti (3 prósent), hagvaxtarhorfur ágætar (3,6 prósent á þessu ári, ef spár ganga eftir) og skuldir heimila, fyrirtækja og hin opinbera hafa lækkað hratt að undanförnu.
Spennan
En það er helst að spennustigið í hagkerfinu valdi áhyggjum, eins og erlend lánshæfismatsfyrirtæki hafa bent á í greiningum sínum að undanförnu. Þau eru ekki óskeikul - heldur betur ekki - en það verður samt að taka ábendingum og greiningum þeirra alvarlega.
Helstu hætturnar eru að þeirra mati yfirspennt hagkerfi, gengisfall eftir kólnun í ferðaþjónustu og samdráttur sem kæmi í kjölfarið. En það sem er ánægjulegt, er að stoðirnar eru heilbrigðari og sterkari nú, en fyrir rúmum áratug.
Samdrátturinn ætti ekki að ógna undirstöðunum, ef til hans kemur, en fall á eignaverði - t.d. fasteignaverði - ætti ekki að koma neinum á óvart. Í reynd hafa fasteignir í fjölbýli á Íslandi ekki hækkað síðan í apríl á þessu ári, ef frá eru taldar nýjar íbúðir á markaði. Fermetraverð þeirra er hærra en annarra og því hefur það áhrif á heildarmyndina til hækkunar. Algengt fasteignaverð er er á bilinu 430 til 500 þúsund á fermetrann á höfuðborgarsvæðinu, eftir staðsetningu, en nýjar íbúðir hafa allt að 20 prósent hærra fermetraverð í sumum tilvikum.
Eftirminnileg kennsla
Í grein Gylfa í síðustu viku kom hann inn á grundvallarhugmyndir um lýðræðisskipulag og samfélagsuppbyggingu, þegar rætt var um hvernig mætti nálgast kjaraviðræður og skipulag samfélagsins. Vitnaði hann til réttlætishugmynda John Rawls (Theory Of Justice, 1971), skrifa John Stuart Mill um frelsið (Frelsið, 1859) og einkaeignarréttarpælingar Robert Nozick (Anachy, State and Utopia, 1974).
Þegar kemur að leiðinni til sátta, sem kjaraviðræður snúast um, er hollt að velta þessum áhrifamiklu höfundum heimspekinnar fyrir sér, og þeirra djúpstæðu áhrifum á hugsunarhátt okkar um lífið og tilveruna.
Það er lítið pláss í að fara ofan í það í þaula hér, en við lestur á grein Gylfa komu upp í hugann stórkostlega skemmtilegar kennslustundir í heimspekinámi mínu við Háskóla Íslands.
Þorsteinn Gylfason heitinn, prófessor, var þá að kenna stjórnmálaheimspeki og það var oft hrein upplifun að hlusta á hann flytja fyrirlestra sína og síðan skapa umræður um flóknar og einfaldar myndir heimspekinnar.
Eitt það minnistæðasta var þegar hann ræddi um Rawls.
Eins og alltaf hjá Þorsteini þá kom hann þreföldum skammti til skila í tvölföldum tíma (tvisvar 45 mínútur, með stuttu hléi).
Í fyrsta lagi óaðfinnalegri þekkingu á viðfangsefninu.
Í öðru lagi lifandi og oft leiftrandi lýsingum á hinum helstu álitamálum í kenningunum sem voru til umræðu (handahreyfingar, hávær grófur hlátur, mannlýsingar á höfundum og fjölskylduaðstæðum þeirra. Eftirminnileg var hliðarsaga hans um John Stuart Mill og hversu ótrúlegt undrabarn hann var, fluglæs á mörg tungumál þriggja ára).
Í þriðja lagi hafði hann einstakt lag á því að koma hugmyndauppsprettunni í kringum verk höfundana líka til skila. Þar kom tónlist oft við sögu, bókmenntaverk annarra höfunda og síðan pólitískur og efnahagslegur grunnur átaka sem lágu undir.
Í upphafsstöðunni
Í Réttlætiskenningu Rawls er þetta grundvallarspurningin. Hvernig er hægt að búa til réttlátt samfélag og í hvaða aðstæðum - ímynduðum - getum við séð það fyrir okkur?
Hugmynda- og stéttabarátta í Bandaríkjunum var í algeymingi þegar bókin kemur út. Forréttindastéttir og fólkið á gólfinu, fjarlægðir valds frá fólki. Þetta voru miklir tímar, svo ekki sé meira sagt.
Í verki Rawls tekst hann á við það hvernig megi ímynda sér réttlátt samfélag. Þar er upphafsstaðan (Original Position) grundvöllurinn en þeir sem í henni eru vita ekki hver samfélagsstaða þeirra verður þar sem þeir eru undir fávísisfeldinum (veil of ignorance).
Til einföldunar sagt þá veldur hann því að þeir sem undir feldinum eru, geta ekki látið forréttindastöðu sína - eða aðrar vöggugjafir - trufla hugarheiminn. Í þessum aðstæðum skapast hugmyndin um réttlæti og hvernig megi hugsa sér sérhagsmunalausa rökræðu um samfélagið.
Mátun við samtímann
Styrkurinn í kenningu Rawls liggur ekki síst í því að hún á tímalaust erindi. Spurningarnar sem tekist er á við koma upp í hugann við ýmis tilefni.
Meðal annars á það við um kjaraviðræður og hvernig megi hugsa sér að ná sátt um launaþróun ólíkra hópa. Gylfi setur þessar grundvallarhugmyndir heimspekingana ekki af ástæðulausu í þetta samhengi.
Það er hollt fyrir ráðamenn og forystufólk aðila vinnumarkaðarins, bæði verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, að koma sér fyrir í upphafsstöðunni og sveipa sig fávísisfeldinum, áður en lengra er haldið. Ákvarðanir um launahækkanir eru flóknar, þar sem margt kemur til skjalanna annað en krónur og aurar. Spurning um hvernig megi tryggja betri lífskjör með kjarasamningum snýst líka um kerfisbreytingar sem auka frítíma, þjónustu og létta á streitu. Ekki virðist vanþörf á því, eins og fjallað er um nýlegri skýrslu Gylfa fyrir stjórnvöld. Verkalýðshreyfingin hefur einnig nefnt þessi atriði sem áherslumál fyrir komandi kjarasamninga.
En það sem miklu máli gæti skipt fyrir farsæla niðurstöðu í kjarasamningum - og þá eitthvað sem yrði í það minnsta nálægt þjóðarsátt - er að þau sem taka þátt í viðræðunum tileinki sér hrokalausa afstöðu gagnvart stöðu fólks á gólfinu, meginþorra launafólks. Verkalýðshreyfingin, með endurnýjaða forystu, hefur mér fundist vera kalla hátt eftir því að það sé meira hlustað á fólkið á gólfinu og virðing borin fyrir því.
Það getur verið snúið að horfa alveg framhjá því hvaða forréttindastöðu fólk er fætt inn í. Ef það tekst að sýna samkennd með ólíkum aðstæðum fólks, þá er mikið unnið og farsæl niðurstaða líklegri. Jafnvel þó það virðist vera stál í stál í upphafi.
Greinin er úr Vísbendingu, sem kemur áskrifenda 31. ágúst. Hægt er að gerast áskrifandi hér.