Eitt af því sem nefnt hefur verið sem undirliggjandi áhrifaþáttur alþjóðlega fjármálahrunsins á árunum 2007 til og með 2009 er framkvæmd peningastefnunnar hjá seðlabönkum heimsins eftir árásina á tvíburaturnanna í New York 11. september 2001.
Til einföldunar sagt, þá brugðust seðlabankar heimsins við árásinni með því að dæla miklu magni af peningum út í hagkerfin til að reyna að örva þau og koma í veg fyrir samdrátt í heimsbúskapnum.
Á árunum 2001 og fram að þrengingunum 2007 - og svo fjármálarhruninu haustið 2008 - þá „flutu markaðir í peningum“. Svo til ókeypis lánsfé var í boði fyrir banka og fjárfesta. Í þeim aðstæðum mynduðust bólur og fífldirfska í viðskiptum varð útbreidd.
Það var eins og veislunni ætlaði aldrei að ljúka. „Ég heyri bara þögnina,“ sagði karakterinn sem Jeremy Irons leikur svo frábærlega, í myndinni Margin Call, þegar hann var að lýsa ástandinu sem hann sá fyrir sér á mörkuðum. Skömmu síðar hrundi allt, og bankinn sem hann stýrði losaði sig við verðlausar eignir fyrir milljarða Bandaríkjadala.
Merkilegt er að hugsa til þess að seðlabankar heimsins hafa í raun brugðist við með alveg sama hætti á undanförnum áratug og þeir gerðu eftir árásina 2001. Alþjóðlegu bankarnir eru ennþá alltof stórir til að falla og eignaverð á verðabréfa- og fasteignamörkuðum hefur hækkað með fordæmalausum hætti undanfarin ár. Eins og venjulega er samt einhver sem segir að „þetta sé öðruvísi núna“ og svo framvegis.
Vextir að hækka
Stefnubreyting hefur þegar átt sér stað hjá seðlabönkum. Nú munu tjöldin falla og það mun koma í ljós, hvernig hagkerfum heimsins mun reiða af við aðstæður þar sem vaxtastig er umtalsvert hærra.
Í Bandaríkjunum voru stýrivextir 0 - 0,25 prósent í átta ár samfellt en þeir eru nú komnir upp í 2,25 prósent og spá bankans gerir ráð fyrir hækkun upp í 3,5 prósent árið 2020 ("The Federal Reserve signaled it would raise rates to 2.5 percent in December 2018, 3.0 percent in 2019, and 3.5 percent in 2020. The rate is critical in determining the U.S. economic outlook.").
Margt bendir til þess að þetta ferli geti orðið enn hraðara, vegna þess að verðbólguþrýstingur hefur verið að aukast í Bandaríkjunum að undanförnu. Donald Trump er ekki sáttur við það, og hefur látið nýjan seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Jerome Powell, heyra það ótt og títt opinberlega. Sem oftast nær hefur verið talið óviðeigandi af þjóðarleiðtoga, og vega að sjálfstæði bankans sem er að baki 65 prósent af gjaldeyrisvaraforða heimsins, en sú lína er löngu farin í bandarískum stjórnmálum. Óvíst er hvort og hvenær það kemst jafnvægi á þau samskipti.
Á meðan í Evrópu. Seðlabanki Evrópu ætlar að hætta ótrúlega umfangsmiklum fjárinnspýtingaðgerðum sínum í desember. Í hverjum mánuði hefur hann keypt skuldabréf á mörkuðum fyrir 60 milljarða evra, vöxtum hefur verið haldið niðri og þannig unnið að örvun hagkerfanna í Evrópu. Þetta hefur veitt veikburða bönkum skjól og óbeint hjálpað ríkissjóðum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og almenningi að takast á við krefjandi stöðu.
Enginn veit hvað gerist
Hvað gerist þegar þessu tímabili lýkur? Eitt rétt svar er við því: Það veit enginn.
Áhyggjuraddir vegna þessara tímamóta eru komnar fram og sumir hafa lengi varað við því, að tollastríð og pólitísk átök ofan í þessi óhjákvæmilegu tímamót, væri það versta sem gæti gerst. Einn þeirra sem varaði viðskiptavini sína við þessu er Seth Klarman, stofnandi og stjórnandi Baupost Group, sem er sá sjóður sem hagnaðist einna mesta allra á falli íslensku bankanna. Í bréfi sem hann skrifaði strax í upphafi þess að Donald Trump tók við völdum, þá varaði hann við því að upp gæti teiknast hættuleg staða fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði vegna þessara áherslna sem Trump talaði fyrir - og hann hefur nú hrint í framkvæmd. Þá var hann einkum að tala um viðskiptastríð við Kína.
Það sama má segja um Brexit og deilur Breta og Evrópusambandsins um hvernig skuli staðið að útgöngu Breta úr sambandinu.
Mikilvæg stefnumörkun
Hvaða áhrif gætu komið fram á Íslandi? Alveg eins og oft í hagfræðinni, þá er ekkert eitt augljóst rétt svar. Íslenska bankakerfið er einangrað við Ísland, að nær öllu leyti, og það er góður öryggisventill að búa við, þegar breytingar eins og þær sem nú eru í kortunum eru að koma fram. Fjármálakerfið er að mestu fjármagnað af almenningi á Íslandi og það er líka 80 prósent í eigu ríkisins, og á ábyrgð þess. Þessi staða er skýr og augljós.
En Ísland er lítill hlekkur í keðju alþjóðavædds heims og að því leytinu til gætu vendingar í heimsbúskapnum haft mikil áhrif á hagsmuni íslenskra fyrirtækja.
Margir markaðir geta orðið erfiðari vegna tolla og íþyngjandi reglna, og svo gæti líka farið svo að flugleiðir milli Íslands og umheimsins falli niður inn á ákveðin markaðssvæði, sem veikir íslenska hagkerfið. Ferðaþjónusta í heiminum er t.d. þekkt fyrir það að vera nátengd efnahagssveiflum í heiminum. Fólk ferðast meira ef það hefur peninga til þess og tækifæri á. Ísland á mikið undir því að ferðaþjónustan sé sterk, enda er sú atvinnugreind orðin að undirstöðuatvinnuvegi landsins.
Ólíkt því sem var fyrir tíu árum þá er Ísland í sterkri stöðu, hvað varðar fjármálakerfið. Þar er staðan nokkuð skýr og einföld; ríkið ber ábyrgð á fjármálakerfinu, á það að mestu leyti og seðlabankinn er trúverðugur banki bankanna.
Hins vegar er spurningin hvernig Ísland mun standa til framtíðar litið, þegar kemur að alþjóðvæddum heimi. Þar beinast spjótin ekki síst að stjórnmálamönnum.
Stefnumörkun af hálfu utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar, í þessum aðstæðum sem uppi eru, mun skipta miklu máli. Þetta mál er ekki nægilega opið til umræðu hjá stjórnmálamönnum, miðað við tilefnið.
Það hvaða dyr tækifæra opnast í tengslum við Brexit, tollastríð Bandaríkjanna og Kína, og uppgang á einum stað og niðursveiflu á öðrum vegna hækkandi vaxta, er stórmál sem skiptir miklu máli fyrir almenning á Íslandi. Það er betra að vera með skýra stefnu hvað þessi mál varðar, því eins og sést hefur á Íhaldsflokknum breska undanfarna mánuði - þar sem hver höndin hefur verið upp á móti annarri og stefnan algjörlega óljós - þá ætti glundroði ekki að vera valkostur.