Þennan dag fyrir áratug síðan, 9. október 2008, bjó ritstjórn 24 stunda, fríblaðs sem Árvakur átti, til síðasta eintak blaðsins. Hugmyndin á bakvið útgáfu þessa blaðs var mjög lýsandi fyrir það ástand sem var í íslensku samfélagi á þessum tíma.
Eigendur Árvakurs, sem voru líka stærstu eigendur Landsbankans, ákváðu árið 2007 að eignast allt hlutafé í fríblaði sem væri dreift í tugþúsundum eintaka, frítt inn á heimili flesta daga vikunnar. Ástæðan var sú að þeir vildu veita Fréttablaðinu, öðru fríblaði sem var í eigu stærstu eigenda Glitnis, samkeppni. Á svipuðum tíma ákváðu eigendur Viðskiptablaðsins, sem voru stærstu eigendur Kaupþings, að breyta blaðinu í dagblað sem kæmi út fjórum sinnum í viku.
Þáverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins sagði í frétt á vef blaðsins að þetta væri gert til að „svara aukinni eftirspurn eftir viðskiptafréttum, en á síðustu árum hefur vægi viðskiptafrétta aukist mikið í íslenskum fjölmiðlum[...]Samhliða auknum umsvifum íslenskra fyrirtækja og banka og aukinni fjölbreytni íslensks viðskiptalífs hefur skapast tækifæri til vaxtar.“
Eitt fyrsta fórnarlamb hrunsins
Ég vann á 24 stundum í mjög þéttum og ungum hópi. Þessi dagur, og dagar, í október 2008 voru mjög eftirminnilegir. Það vissu einhvern veginn allir sem þarna störfuðu að starfsemin ætti sér ekki viðreisnar von lengur.
Kvöldið áður, á miðvikudeginum 8. október, fór þorri ritstjórnarinnar saman á bar til að skála fyrir endalokunum. Við sem sinntum efnahags- og viðskiptafréttum eyddum þorra þess kvöld fyrir utan þann bar í símanum við grátklökka bankamenn, þar sem Kaupþing var að fara á hausinn síðastur íslensku bankanna og þegar leið á kvöldið var ljóst að Fjármálaeftirlitið myndi taka bankann yfir að morgni fimmtudagsins.
Síðasta tölublaðið kom svo út daginn eftir, þann 10. október 2008. Þegar starfsfólkið mætti í vinnu var hins vegar ekkert unnið heldur var það kallað eitt af öðru inn á skrifstofu á neðri hæð hússins sem hýsti starfsemina þar sem flestum var sagt upp. Alls misstu 22 vinnuna þennan dag og það er að ekki óvarlegt að segja að 24 stundir hafi verið eitt fyrsta fyrirbærið sem hætti starfsemi á Íslandi vegna hrunsins, í ljósi þess að bankarnir þrír héldu vitaskuld allir áfram að vera til, undir nýrri kennitölu og breyttum forsendum.
Það er kaldhæðni örlaganna að síðasta forsíðufréttin sem birtist á 24 stundum, hafi verið um yfirvofandi uppsagnir starfsmanna Landsbankans, í ljósi þess að þorri starfsmannanna sem skrifaði blaðið missti vinnuna nokkrum klukkutímum eftir að það kom úr prentsmiðjunni.
Annars konar skepna
Ég var einn fárra starfsmanna 24 stunda sem var ráðinn yfir á Morgunblaðið og skrifaði þar mína fyrstu frétt, sem birtist á forsíðu mánudaginn 13. október, um þá óformlegt samkomulag sem íslenskir ráðamenn gerðu við Breta og Hollendinga um að ábyrgjast 600 milljarða króna (á þávirði) greiðslur til eigenda Icesave-reikninganna. Samkomulag sem síðar var dregið til baka og gleymist oft í þessum blessuðu, endalausu og margþvældu Icesave-umræðum. Samkomulag sem kalla mætti Icesave 0.
Við tók eitt magnaðasta tímabil sem ég hef átt í blaðamennsku, þar sem Morgunblaðið var í raun án eigenda, tæknilega gjaldþrota, áttu stundum ekki fyrir launum en var samt í fararbroddi í því að reyna að útskýra það sem gerðist í hruninu, aðdraganda þess og eftirköstum. Þetta tímabil stóð yfir í um það bil ár, eða þar til ritstjóranum var sagt upp og tveir aðrir ráðnir í hans stað. Síðan þá hefur Morgunblaðið verið annars konar skepna.
Risasameining tilkynnt
Daginn eftir að 24 stundir voru lagðar niður var tilkynnt um þá fyrirætlun eigenda Árvakurs og 365 að renna Fréttablaðinu inn í Árvakur gegn því að 365 myndi eignast 36,5 prósenta eignarhlut.
Þær fréttir vöktu mikla athygli, enda hefðu þær þýtt að einu starfandi dagblöð landsins legðust saman í sæng. Sameiningin hefði einnig þýtt að 365 myndi eiga þorra þeirra fjölmiðla á Íslandi sem hefðu einhverjar tekjur af auglýsingasölu á þeim tíma.
Samruninn var rökstuddur með þeim aðstæðum sem ríktu í samfélaginu. Samhliða efnahagsáfalli hefði auglýsingamarkaðurinn hrunið og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar gert innkaup á pappír í blöðin gríðarlega þung. Auk þess var þeim rökum beitt að Árvakur myndi ekki lifa af nema samruninn yrði samþykktur. Fjárhagserfiðleikar félagsins væru einfaldlega það miklir að þetta væri eina leiðin til þess. Ef af samrunanum hefði orðið hefði ein viðskiptablokk, sem þá stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, ráðið yfir nánast öllum frjálsum fjölmiðlum á Íslandi, enda átti sama fólk þá líka flesta einkarekna ljósvakamiðla landsins og veffréttamiðilinn Vísi.
Afdrifarík ákvörðun
Samkeppniseftirlitið stóð blessunarlega fast í lappirnar í þessu máli og hafnaði samrunanum. Í ákvörðun eftirlitsins, sem birt var í byrjun febrúar 2009, sagði að það væri „mat Samkeppniseftirlitsins að samruni Árvakurs hf., Fréttablaðsins ehf. og Pósthússins ehf. muni skapa alvarleg samkeppnisleg vandamál og hindra þar með virka samkeppni á öllum mörkuðum málsins þar sem áhrifa gætir [...] Sökum þess er það mat Samkeppniseftirlitsins að ógilda beri samrunann“.
Líklega hefur engin ein ákvörðun skipt meiri máli fyrir frjálsa fjölmiðlun á Íslandi og þessi. Sameiginlegur kraftur þessa fjölmiðlarisa, á tíma þegar prentmiðlar voru enn mjög ráðandi öfl, hefði orðið það mikil að erfitt hefði verið fyrir aðra einkamiðla að starfa á sama markaði. Sérstaklega þar sem hið sameinaða félag hefði átt bæði stærstu prentsmiðju landsins og stærsta dreifingarfyrirtækið. Og auðvitað verið stýrt af fólki sem hefur ekki sýnt að það séu heppilegir eigendur að fjölmiðlum, sérstaklega þegar það er sjálft andlag frétta.
Erfiðleikar leiða af sér blómaskeið
Í staðinn myndaðist frjór jarðvegur fyrir nýfjölmiðlun, sem leiddi af sér ýmsa nýja miðla, sérstaklega á netinu, enda eru 85 fjölmiðlar og fjölmiðlaveitur skráðar í dag hjá Fjölmiðlanefnd.
Þótt rekstrarumhverfi þeirra sé að mörgu leyti afleitt, starfsaðstæður mjög erfiðar og atgervisflótti úr greininni hafi aldrei verið jafn alvarlegur, þá má fullyrða að síðastliðinn áratugur hafi verið blómaskeið íslenskrar fjölmiðlunar í þeim skilningi að margir þeirra hafa sýnt í verki að þeir standa með almenningi gegn sérhagsmunum. Að þeir hræðast ekki að fjalla gagnrýnið og heiðarlega um menn og málefni jafnvel þótt það sé erfitt og viðspyrnan mikil. Að þeir segja þær fréttir sem endurspegla veruleikann, ekki fréttir um þann veruleika sem valdafólk vill að þeir búi til.
Það má segja að sú fjölmiðlun hafi dáið sem norm í íslensku fjölmiðlaumhverfi þegar bankafólkið missti tangarhald sitt á fjölmiðlaumhverfinu fyrir áratug, þótt auðvitað enn votti á óheilindum sumstaðar.
Þessi þróun – sá angi hrunsins – var því okkur öllum til heilla.