Á dögunum kom út skýrsla sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna um stöðu mála vegna hlýnunar jarðar. Hún þykir óvenjulega skorinort, og er talað um að ríki heimsins þurfi að grípa til stórtækari aðgerða til að bregðast við alvarlegum áhrifum vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Tólf ár er algjört hámark í þessu efnum, segir í skýrslunni, til að hindra það að ekki verði aftur snúið af ógæfubraut.
Aðalatriðið í skýrslunni er að hún sýnir glögglega alvarlega stöðu mála víða um heim og að mikilvægt sé fyrir ríki heimsins - hið opinbera, fyrirtæki og almenning - að grípa tafarlaust til stórtækra aðgerða.
Eitt af því sem fjallað er um í skýrslunni eru efnahagsleg áhrif af þeim miklu breytingum sem eru að verða á jörðinni, vegna loftslagsbreytinga. James Hansen, einn yfirmanna NASA í Bandaríkjunum, segir að ef framheldur sem horfir, og að meðalhiti á jörðinni muni hækka um 1 gráðu, þá verði áhrifin alvarleg og að stór svæði í heiminum geti orðið ólífvænleg. Þetta mun ekki gerast hægt og bítandi, heldur hratt og örugglega.
Vistkerfisbreytingar verða það miklar. (Kjarninn hefur fjallað mikið um þessi mál, allan starfstíma sinn, og mun gera það áfram).
Stóra ályktunin sem höfundar skýrslunnar draga, er að tíminn sé að renna út. Nú þurfi allir að snúa bökum saman og bjarga jörðinni.
Samstaða á Íslandi
Á Íslandi er nýframkomin metnaðarfull stefna stjórnvalda, þegar kemur að loftslagsbreytingum. Í hinu pólitíska litrófi á Íslandi er samstaða um mikilvægi aðgerða til að sporna gegn alvarlegum áhrifum vegna mengunar og hlýnunar (Það eru helst Sigríður Andersen innanríkisráðherra og félagar hennar á vefnum Vefþjóðviljanum (andriki.is), sem eru með miklar efasemdir um alvarleg áhrif, sé mið tekið af fjölmörgum greinum sem þar hafa birst um efnið á undanförnum árum.). Þetta er mikilvægt og gefur von um að Alþingi muni geta beitt sér af þunga í þágu málefnisins.
Meðal þess sem stefnt er að eru orkuskipti bílaflotans yfir í rafmagn á næsta rúma áratug ásamt margvíslegum öðrum aðgerðum.
Fólkið ræður ferðinni
Það sem er erfiðast við þennan mikla vanda, sem ríki heimsins glíma við, er að koma fólki í skilning um að það er enginn að fara leysa vandamálin ef fólkið er ekki tilbúið að leggja það á sig. Fólkið sjálft hefur áhrif með því að breyta um lífstíl. Matarvenjur, ferðamáti og sjálfbærni í víðum skilningi. Það er stórt og mikið vandamál og mun án efa verða það sem verður erfiðast í þessari baráttu. Fátt bendir til þess að muni takast, ef maður á að vera alveg hreinskilinn.
Áhættuþættir fyrir Ísland
Fjölmargir efnahagslegir áhættuþættir eru í kortunum vegna loftslagsbreytinga, hvað Ísland varðar.
Til dæmis blasir við að þjóðir heimsins munu þurfa að leggjast mun betur yfir alla losun gróðuhúsalofttegunda, og búa til strangara regluverk.
Í ferðaþjónustu er vaxandi mengun vegna óþarfa ferðalaga fólks með flugvél. Kolefnisspor slíkra ferða er verulega mikið og skaðlegt. Fyrir okkur sem höfum gaman af því að ferðast er þetta líka mikil lífskjaraskerðing, ef það fer svo að það þarf að takmarka þennan ferðamáta. En svona er þetta samt. Þó það sé öllum hollt að kynnast heiminum, þá blasir við að mikill útblástur vegna ferðalaga fólks - sem ekki teljast vera brýn nauðsyn - er óæskilegur.
Á Íslandi er alveg einstök þjónusta við þá sem ferðast með einkaþotum. Þeir fá að lenda í miðborg Reykjavíkur, á besta stað, og þjónusta við þá með eindæmum góð. Það er verulega mikið umhugsunarefni hvort ekki ætti að banna strax einkaþotur á Íslandi. Með örfáum undantekningum (ef einhver nauðsyn er uppfyllt), en helst ekki samt. Mengunin á hvern farþega er það mikil.
Ferðaþjónustan gæti því vel fengið á sig högg, ef það verður vitundarvakning um þessi mál, og fólk hvatt til að ferðast meira um nærumhverfi sitt og nýta umhverfisvænni ferðamáta. Víða eru svona herferðir í gangi. Hin hreina ímynd Íslands er nefnilega ekki svo hrein, þegar kolefnissporið af flugi er tekið með í reikninginn.
Súrnun sjávar
Ein hryllilegasta mynd loftslagsbreytinga og mengunar er súrnun sjávar. Hún er þegar farin að grafa undan lífríki í sjónum og hún er líka tengd margvíslegum öðrum þáttum. Á meðal þeirra sem hefur rannsakað þessi mál á Íslandi er dr. Hrönn Egilsdóttir. Hún hefur látið hafa eftir sér, að mikil ógn sé af þessum áhrifum. Íslenskur sjávarútvegur hefur tekið rannsóknum hennar alvarlega, og fékk hún meðal annars hvatningarverðlaun frá sjávarútvegnum. Í versta falli getur þróunin vegna súrnunar sjávar orðið sú, að íslensk lögsaga verður ekki efnahagslega gjöful fyrir hagkerfið. Þó það sé lítið púsl í heildarmynd slæmra áhrifa af súrnun sjávar, þá er það samt verulega ógnvekjandi sviðsmynd fyrir Ísland.
Þetta þarf að taka verulega alvarlega. Líklega þyrfti að setja mun meiri slagkraft í rannsóknir á þessu sviði, eins og reyndar hefur verið kallað eftir, bæði frá háskólum og fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Hver mun borga?
Annar óvissuþáttur sem snýr að Íslandi er Parísarsamkomulagið og hvernig Ísland ætlar að standa við skuldbindingar sínar hvað varðar útblástur. Gagnvart Parísarsamkomulaginu hefur Ísland hengt sig á Evrópusambandið og tekur þátt í sameiginlegu markmiði aðildarríkja Evrópusambandsins um að vera búið að minnka losun frá Íslandi um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
Til einföldunar, þá er búið að búa til markaðsskipulag með mengunarkvóta. Ef Ísland mun ekki standa sig, þá mun mikill kostnaður lenda á Íslandi. Miðað við framreiknaðar tölur, og stöðu mála eins og hún hefur þróast á Íslandi undanfarin ár, þá er ljóst að ef ekki verður gripið til aukinna mótvægisaðgerða í loftslagsmálum þá mun heildarútstreymi frá Íslandi verða á bilinu 53 til 99 prósent meira en árið 1990 árið 2030.
Reikningarnir vegna þessarar stöðu - það er of mikillar mengunar miðað við alþjóðlegar skuldbindingar - munu koma og verða samfélagslegur kostnaður, upp á marga tugi milljarða á ári, ef ekkert breytist. Augun beinast óneitanlega að stóriðjunni og álframleiðendunum, meðal annars. Munu þeir borga þessa reikninga beint, eða á að velta þeim yfir á skattgreiðendur?
Margar spurningar vakna, varðandi þessi mál.
Vitaskuld mætti nefna ótal fleiri atriði, sem eru ógnandi fyrir Ísland, vegna hlýnunar jarðar og loftslagsbreytinga. Það sem mestu skiptir er að taka málin alvarlega og óhjákvæmilega þurfum við öll að líta í eigin barm og spyrja okkur hvernig við getum tekist á við þessa alvarlegu stöðu í gegnum daglegt líf.