Ég vaknaði við símann og reyndi að hljóma glaðvöknuð. Sæl Auður, sagði röddin í símanum. Ég er nú bara gamall skröggur en var einu sinni ungur utankerfismaður. Ég heiti Jón Steinar. Mig langar að ræða tjáningarfrelsið við þig.
Þetta var fyrir nokkrum mánuðum svo kannski man ég ekki símtalið nákvæmlega en það var nokkurn veginn í þessum dúr. Og ég leyfi mér að efast um að Jón Steinar stefni mér þó ég fari rangt með smáræðis blæbrigði.
Þennan daginn hafði ég nýlega verið í viðtali í Morgunblaðinu og vitnað þar í viðtal við Úlf Þormóðsson, rithöfund og fyrrverandi ritstjóra Spegilsins, og sagt að hann hefði haft á orði að það hafi ekki verið talað um hugtakið tjáningarfrelsi þegar hann stóð í málavafstri eftir að Spegillinn var stimplaður ósiðlegur af yfirvöldum, tekinn úr umferð og Úlfar dæmdur fyrir guðlast – árið 1983. Reyndar prílaði Úlfar sjálfur upp á húsþak í öllu því vafstri og brosti framan í sólina þegar hann hélt ræðu um málfrelsið fyrir blaðburðarbörnin sem lögreglan elti við húsið en hið opinbera var þá enn ekki búið að venjast hugtakinu. Erindi Jóns Steinars var að segja mér að hann hefði í þessu máli snúist öndverður gegn sínu pólitíska bræðralagi og staðið með tjáningarfrelsinu með því að hafa sennilega skrifað fyrstu blaðagreinina um það á Íslandi. Hann spurði hvort hann mætti bjóða mér í kaffi á skrifstofuna sína og ég þáði það.
Kaffið gott
Morguninn eftir mætti ég til Jóns Steinars sem bauð mér sæti og gaf mér kaffi. Þegar ég sagði honum frá meiðyrðamáli, sem ég stóð þá í út af pistli sem ég hafði skrifað í Kjarnann, var hann fljótur að segja að ég ætti að vinna það – sem ég er nú búin að gera í tvígang. Kaffið bragðaðist samstundis vel.
Við röbbuðum dágóða stund um frelsið til tjáningar og, ef ég man rétt, – jú, ætli það ekki bara – eitthvað um gildi þess að annarlegar skoðanir fái að koma upp á yfirborðið svo hægt sé að svara þeim og gagnrýna.
Ég þekkti manninn ekki neitt, aðeins með ímynd í hausnum af lögfræðingi sem væri sífellt að ögra með harðsnúnum rökum í alræmdum málum og hinn mesti harðhaus – ef það orð er til. Og kannski er hann það. En þarna sat skrafhreifinn karl á virðulegum aldri, rammaður inn af lagabindum úr leðri og ansi kerfislegur að sjá, en þegar hann fór á mesta flugið grillti í utankerfismanninn.
Hatursorðræða eða ekki?
Og þá að nýjustu ævintýrum Jóns Steinars. Hann tók að sér að vera lögmaður Kristins Sigurjónssonar sem var rekinn úr lektorstöðu í HR eftir að hafa skrifað eftirfarandi á facebook-síðuna Karlmennskuspjallið:
„Ég er svo hjartanlega sammála, það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir karlmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi.“
Nú veit ég ekki hvort ummælin hans flokkast undir útbreiðslu hatursorðræðu, ég er ekki nógu löglærð til að dæma um það. Tjáningarfrelsinu fylgir jú sú ábyrgð að spyrna gegn útbreiðslu hatursorðræðu. En það er löglærðra að skera úr um það í málinu, þó að auðvitað séu þetta undarlega grunnhyggin orð, vægast sagt, og Kristni þessum ekki til sóma. Og raunar væri nokkuð á nemendur lagt að sitja í tímum hjá manni sem virðist vera svona fornaldarlegur.
Að afhjúpa heimsmynd sína
En um þessar mundir virðist Jóni Steinari sjálfum vera nokkuð brugðið vegna ummæla um hann á facebook síðunni „Karlar gera merkilega hluti“.
Í frétt á Vísi.is kemur fram að hann tengi nýleg ummæli þar við að hann hafi tekið að sér mál Kristins. En samkvæmt yfirlýsingu frá stjórnendum síðunnar eru flest ummælanna vegna viðtals þar sem Jón Steinar virtist ætlast til þess að þolendur í kynferðisafbrotamálum fyrirgæfu gerendum sínum.
Allt snýst í hringi. Jón Steinar virðist vera í uppnámi yfir ummælum um sjálfan sig og konur salla merkilega orðljótar niður þennan lögfræðing sem tók að sér mál fyrir mann sem hafði sallað niður konur á svipuðum vettvangi. Og lögfræðingurinn skrifar þá grein þar sem hann nafngreinir einhverjar konur svo einhverjir karlavitleysingar byrja að salla þær niður, og þá sérstaklega eina – skilst mér – með ógeðisorðum á facebook. Kannski ekki alslæmt að þeir hafi afhjúpað svona innilega þröngsýni sína og heimóttarskap, ef kona skyldi rekast á þá á öldurhúsi. Íslensk samræða rokkar!
Valdið liggur hjá Jóni Steinari
En ef þetta mál Kristins hefur kynt undir spjallið á þessum þræði, þá má samt alveg pæla í að eitt er að þykja alræmdur, umdeildur lögfræðingur – og liggja undir grun um að vera dyravörður á skemmtistaðnum Feðraveldið – annað að vilja í starfi láta reyna á þanþol tjáningarfrelsisins fyrir dómstólum. Þar má jú skera úr um hvar mörk frelsis og hatursorðræðu liggja. Nú veit ég ekki á hvaða forsendum málið verður rekið en býst við að þessi mörk hljóti þó að koma til tals á einn eða annan hátt. Og Jón Steinar var strax áttatíu og eitthvað nógu mikill utankerfismaður til að ögra kerfislæga flokkafjölskyldnasamfélaginu í viðleitni sinni til að sporna gegn ritskoðun hins opinbera á Speglinum. Svo þrátt fyrir allt virðist hann elta sína hugsjón á sinn hátt, hvað annað sem um hann má segja.
En það má samt ekki gleyma að í þessari samfélagsgerð liggur valdið hjá Jóni Steinari. Hann hefur opinbera rödd í krafti stöðu sinnar, ólíkt flestum brotaþolum kynferðisofbeldis og konum að fá útrás fyrir erfiða reynslu og óréttlæti á spjallsíðu á facebook.
Að nota samræðuna til að uppfræða
En meðan þetta allt var að gerast kíkti vinkona mín í heimsókn sem er sjálf harðsnúinn lögfræðingur. Hún lagðist letilega í hornsófann minn og flatmagaði þar þegar önnur vinkona hringdi til að býsnast yfir því að Kristinn hefði verið rekinn fyrir orð sín. Sjálf hafði ég lítið fylgst með þessu og því síður komið mér upp skoðun.
Hvað finnst þér um þetta? spurði ég hina harðsnúnu vinkonu mína eftir símtalið. Hún geispaði letilega og teygði úr sér eins og hún nennti ekki að hafa skoðun. Svo sagði hún: Kannski hefði verið smartara hjá rektornum að reka hann ekki heldur svara honum. Senda inn grein stílaða á hann í fjölmiðil og andmæla honum með rökum. Nota samræðuna til að uppfræða hann opinberlega!
Síðan geispaði hún aftur og sofnaði í sófanum mínum.
Ég skal ekki segja!
Allir í kaffi til Jóns Steinars
Kannski væri ráð að Jón Steinar hringdi í þessar tíu þúsund konur í umræddum facebook-hópi og byði þeim í kaffi og líka öllum orðljótu körlunum og já, Kristni líka! Ekkert jafnast á við eldheita samræðu! Og þetta yrði sko fjörugt morgunkaffi. Getur verið að hann þyrfti þá líka að bjóða mér, ég held að ég sé meðlimur í þessum hópi því ég sé hann reglulega þegar ég skrolla niður facebook.
Ég skrifa þennan pistil í letikasti á laugardagskvöldi og getur vel verið að ég fari vitlaust með eitthvað um tíu þúsund konur og líka Jón Steinar eða Úlfar Þormóðs. Kannski eiga þeir báðir eftir að hringja í mig til að hnykkja á einhverju sem betur hefði mátt orða og vilja ræða það aðeins. En ólíklegt samt að þessir tveir stefni mér þó að ég móðgi þá. Þeir eiga það sameiginlegt en kannski fátt annað. Nema jú, við Úlfar drekkum oft morgunkaffi saman. Fyrirgefðu, Úlfar, að ég skuli troða þér og þínu merkilega máli inn í þetta raus!