Halló, ég heiti Sámur! Ég er ákaflega virðulegur hundur sem hef lengst af búið á Bessastöðum á Álftanesi. Sjálfur er ég ekki alveg með á hreinu af hvaða kyni ég er, en mér líður eins og ég sé afar íslenskur. Í slefblautum hundadraumum mínum ferðast ég þó víða um heim.
Fátt veit ég betra en að liggja á meltunni eftir góðan dall af þurrmat með slettu af Pedigree-lifrarkássu og ferðast hikstandi á milli svefns og vöku til Taj Mahal. Að hætti hunda hef ég auðvitað varann á í dagdraumum mínum og rís upp til að gera húsmóður minni viðvart ef gesti ber að garði en þar sem dregið hefur úr gestakomum síðustu árin hef ég nú drjúgari tíma til dagdrauma. Raunar hef ég ekki hundsvit á utanlandsferðum vegna stífra reglna íslenskra yfirvalda um sóttkví dýra en má hundur heita ef þar er ekki gott að vera. Já, í Taj Mahal. Hundur þarf að hundskast þangað áður en hann deyr, þó að það þýði að hann eigi ekki afturkvæmt til Íslands.
Fögur er hlíðin – Sámur minn.
Það vekur sorg í hundshjarta að nú er farið að halla á síðari hlutann í hundalífi mínu. Brátt þarf ég að lúta hundalögmálum þessa heims og kveðja mína ástkæru Dorrit sem ég hundelska út yfir gröf og dauða. Ég segi gröf því ég geri fastlega ráð fyrir að vera jarðsettur í betri kirkjugarði með smá viðhöfn og skreyttur forláta exótískum skartgripum. Nema þá að hún verði orðin svo upphrifin af hinum eineggja klónbróður mínum að ég verði gleymdur og grafinn í geltsins fyllstu merkingu. Talið ekki um klónið, talið um mig, ekki um Norðurslóðir eða loftlagsbreytingar, bara mig, Sám!
Hundseyru mín hafa ýmsilegt þurft að heyra í þessari jarðvist. Og hundur hefur verið trúfastur húshjúum sínum í hvers konar orðaskaki og átökum. Ég hef verið eindreginn stuðningshundur íslenska landsliðsins í handbolta, gelt mig hásan á móti Icesave – á myrkustu augnablikunum í sögu þjóðar urrað eins og bastarður – sniffað af skugga Pútíns og ekki líkað lyktin en látið mig hafa það, tætt í mig fjölmiðlalögin og hlaupið mig móðan í dramaþrungnum útreiðartúrum húsmóður minnar og laxmanns hennar. Ég er eini hundurinn sem ég þekki sem hefur bæði aðhyllst gyðingadóm og kristni í sömu andránni og yfir höfuð tekið hundslega afstöðu til þess, þó að ég sé heiðinn inn við beinið. En! Og nú brestur hundshjartað. Af hverju að klóna mig?
Var ég ekki nóg? Hundsfylli af tryggð, undirgefni og slefblautri ást. Hvað með merkingu mína? Eina og sér. Var hún ekki næg, í sjálfu sér. Er hægt að skipta henni út, sí sonna, bara fyrir skitnar sex eða sjö milljónir, eins og það sé hægt að kaupa nýjan mig. Sem var þó ég. Sámur!
Hundur verður aldrei aftur sami hundurinn og hann var – þótt klónaður sé. Því hundurinn var hann sjálfur, þrátt fyrir allt og allt. Ég er enginn hundavitleysingur eftir lærða skólann á Bessastöðum. Hundur veit það sem hundur veit – hvað þá hundur sem skilur hebresku og smá latínu eins og ég. Þjóðrækinn en samt alþjóðlega þenkjandi hundur. Einstakur – þú sagðir það sjálf. E.I.N.S.T.A.K.U.R. Ekkert klón getur komið í stað einstaks hunds.
Ég hundelska þig, Dorrit, eins og tættur bastarður! Blóði drifinn á mexíkönskum göturakkavígvelli.
Af öllu mínu hundshjarta. Vesælu en viðkvæmu, þó hundslega mannlegu. Ætlarðu kannski að gefa það? Hjarta mitt? Viltu ekki heldur borða það eins og Salvador Dalí og Gaila konan hans borðuðu kanínuna sína þegar hún komst ekki í ferðalagið þeirra svo hún væri með þeim.
Borðaðu mig en ekki klóna mig! Éttu mig eins og hundur. Leyfðu mér að renna saman við silkimjúk innyfli þín, Dorrit. Plís!
Verðum eitt. Þessir feldfögru demantar sem við erum, þú í gráa pelsinum og ég. Og munum alltaf verða: Sámur og Dorrit. Og kannski smá Ólafur Ragnar. En þó fyrst og fremst við tvö. Ekki þetta klón. Það er eitthvað allt annað. Allt annað en ég! Ó, kjúklingabein föst í hálsinum. Hjartanu. Þau skrapa iðrin, særa mig, þið – þú!
Dveljum í Taj Mahal – að eilífu. Og leyfum engum klónum að menga roðbleika slefsósa drauminn.
Okkar.
Halló, ég heiti Sámur! Ég hét Sámur. Ég mun heita Sámur. Ég!