Upplýst nútímafólki telur sig sjálfsagt bæði jafnréttissinnað og réttsýnt. Hugtökin eru líka svo jákvæð að einkennilegt þætti að játa eitthvað annað upp á sig. Mikið hefur breyst til batnaðar hér á landi í samskiptaháttum karla og kvenna undanfarna áratugi. Lögum samkvæmt eiga kynin að vera jafnrétthá og óhætt er að fullyrða að meirihluti landsmanna vill að dætur þeirra og synir eigi um sömu kosti að velja þegar kemur að menntun, störfum og almennum aðbúnaði.
Allt í góðu
Hitt er svo annað mál að mörg gömul viðmið til kynjanna virðast ótrúlega lífseig. Margir telja að ákveðið atferli hæfi betur konum en körlum án þess að geta gefið viðhlítandi skýringu á skoðun sinni. Niðrandi orð eru oft viðhöfð um konur og dregin upp sú mynd af þeim að þær séu ekki eins líklegar til afreka og karlar. Oft er fullyrðingum af slíkum toga fleygt í hálfkæringi og glott látið fylgja með, líkt og broskarl í netskrifum nútímans, til að draga úr sárasta broddinum og láta að því liggja að þetta sé nú bara djók og allt í góðu.
Afvegaleiðing tungunnar
Það er hins vegar þessi hálfkæringur og hugsunarleysi í munnlegum samskiptum sem fær mig oft til að gnísta tönnum og mylja úr mér fyllingarnar af ergelsi og leiða. Þetta gerist í hvert sinn sem ég heyri fólk bæta við “og konur” þegar það talar almennt um menn og þegar fólk finnur sig knúið til að skeyta við kynferði kvenna þegar talað er um einhverja hópa og starfstéttir, sbr. handboltakona, fréttakona; líka þegar upplýst, jafnréttissinnað fólk hefur snúið sér í heilhring með því að tala um þessa og hina “stýruna” þegar konur eru við stjórn, greinilega í því skyni að kyngreina starfsheiti þeirra. Í stuttu máli líður mér alltaf þannig þegar við látum tungumálið afvegaleiða okkur á þær brautir að við sýnum helmingi mannkyns hroka og lítilsvirðingu.
Hvimleið rökleysa
Íslenskan er karllæg að mörgu leyti sem sýnir sig þannig að orð og hugtök yfir karla eru oft jákvæðari og hafa mikilvægari merkingu en sambærileg orð yfir konur, ef þau eru þá til á annað borð. Hins vegar gerir móðurmálið okkar ráð fyrir að menn séu bæði kvenkyns og karlkyns, þar sem þeir skiptast í karla og konur, ólíkt ýmsum öðrum tungumálum. Aftur á móti er umhugsunarvert þegar við sjáum ástæðu til að tala eins og menn séu eingöngu karlkyns og að það sem tengist konum sé ekki eins merkilegt og það sem tilheyrir karlheimum. Þegar við tölum með þeim hætti verðum við uppvís að rökleysu sem er hvimleitt að hlusta á.
Hvaða ættkvísl tilheyra konur?
Tungumálið er eitt mikilvægasta tækið sem við notum til samskipta. Með því að segja bara eitthvað getum við ekki reiknað með að við gerum okkur almennilega skiljanleg. Ef við segjum að við séum jafnréttissinnuð en tölum svo með þeim hætti að það gengur þvert á yfirlýsta stefnu okkar, hverju á þá að trúa? Hvaða ættkvísl tilheyra konur t.d. ef þær eru ekki menn? Eru þær bara eitthvað? Af hverju þurfum við að segja menn og konur?
Þetta er aðeins lítið brot af því sem við látum umhugsunarlaust út úr okkur en sem mætti vel staldra við og athuga betur. Ég fletti mikið orðabókum og hef gaman af málsháttum og ýmsu öðru sem viðvíkur málnotkun. Orðin og skilgreiningar þeirra geyma margvíslegan fróðleik og umhugsunarefni og sama máli gegnir um málshætti og orðatilæki. Ýmis önnur viðmið sem okkur er tamt að grípa til eins og t.d. sköpunarsagan, þegar við tjáum okkur um samskipti kynjanna, geyma líka alls konar upplýsingar sem vert er að skoða. Ég hef tekið saman nokkra örpistla um þetta í því skyni að fá fólk til að staldra við og velta aðeins vöngum yfir því sem það segir.